Monday, September 23, 2013

Þetta er að byrja


Það er haust í lofti, nokkuð sem hefur ekki farið framhjá nokkrum Íslendingi. Nú fer í hönd þessi nöturlegi tími þegar frostlögur og rúðusköfur eru allsráðandi. Við værum löngu flutt af landinu ef kuldinn og rökkrið þýddi ekki að þá færi í hönd jólahátíðin okkar - körfuboltatímabilið.

Af sérstökum ástæðum vorum við að fara á okkar fyrsta haustleik í körfunni í vetur í kvöld. Leikur KR og Snæfells varð fyrir valinu, já viti menn! Það þarf svo sem aldrei að hvetja þessa ritstjórn sérstaklega til að fara á KR-Snæfell, en hjörð af óðum nautum hefði ekki getað dregið okkur í burtu frá þessum tiltekna leik.

Ástæðan var auðvitað endurkoma Pavel Ermolinski með KR.

Þeir sem fylgst hafa með á NBA Ísland undanfarin ár vita að ritstjórninni leiðist ekkert sérstaklega að fylgjast með honum Pavel spila körfubolta. Frábær tíðindi fyrir deildina hérna heima að fá þennan galdramann aftur heim. Hann stimplaði sig inn með 15/9/9/5 leik og á eftir að skemmta okkur öllum með KR í vetur.

Við ætlum ekki að detta í þá gryfju að ætla að lesa mikið út úr þessum leik, en það vakti athygli okkar á köflum hvað KR-strákarnir voru óeiginigjarnir í sóknarleiknum og uppskáru nokkrar fallegar körfur upp úr því. Martin Hermannsson hvíldi hjá KR í leiknum og erlendur leikmaður er enn ekki kominn til sögunnar. Vesturbæingar verða sterkir í vetur, það ætti engum að dyljast.

Lið Snæfells verður öflugt að vanda með sína hörkuframlínu. Fyrstu kynni okkar af erlendu vinnuafli vestanmanna voru ekkert sérstök, en það á margt eftir að gerast áður en þau mál liggja fyrir.

Gaman að sjá þá Magnússyni kljást eftir að Finnur skipti í Snæfell. Það á eftir að taka einhvern tíma að venjast honum í rauðu, en á hinn bóginn er eins og Darri hafi aldrei farið úr röndótta búningnum. Við þreytumst aldrei nokkru sinni á því að segja ykkur hvað Darri Hilmarsson er mikill fagmaður.

Eitthvað er verið að pískra um það að Gillette sé að hugsa um að taka upp auglýsingu á Íslandi og að leikmenn KR og Snæfells verði notaðir sem fyrir og eftir-menn í stykkinu. Það voru ekki undir þrír metrar af skeggi inni á vellinum í einu í þessum leik.

Það er hálfundarlegt að þetta sé bara byrjað allt í einu. Eins gott og það var nú að fá smá sól í sumar, jafnast ekkert á við að heyra ískrið í skónum á ný. Jólin eru að koma.

Hérna eru nokkrar myndir: