Tuesday, June 25, 2013

Svona var úrslitakeppnin 2013


Þegar stórviðburðir eins og úrslitakeppni NBA deildarinnar eru afstaðnir, er ekki úr vegi að staldra aðeins við og horfa um öxl - skoða hvað gerðist eiginlega á þessum mögnuðu vikum.

Það sem stóð upp úr hjá okkur í fyrstu umferðinni var (því miður) atvikið þegar Patrick Beverley hjá Houston kastaði sér á hnéð á Russell Westbrook hjá Oklahoma með þeim afleiðingum að Russ var úr leik í úrslitakeppninni. 

Ef þið haldið að okkur sé runnin reiðin með þetta, þekkið þið okkur illa.

Beverley setti þarna úrslitakeppnina alla í annað samhengi, því flestir reiknuðu nú með því að Oklahoma færi alla leið í úrslitin líkt og árið áður.

Eins og átti eftir að koma í ljós, var Oklahoma-liðið ekki svipur hjá sjón án Westbrook og segja má að meiðsli leikstjórnandans hafi gjörsamlega slegið tennurnar úr liðinu. Þetta kom bersýnilega í ljós í varnarleiknum, sem var afleitur þó hann nægði til að slá Houston Rockets út í fyrstu umferðinni.

Kevin Durant gjörsamlega hélt Oklahoma á floti í úrslitakeppninni og þó margir hafi kannski haft gaman af því að sjá loksins hvað hann gæti þegar hann þyrfti að draga vagninn einn síns liðs, var ljóst að Oklahoma var bara ekki sama liðið án Westbrook.

Þeir sem hafa gert sem mest af því að drulla yfir Westbrook undanfarin ár hafa vonandi verið að fylgjast mjög vel með gengi Oklahoma í úrslitakeppninni í vor.

Annað árið í röð olli stjörnum prýtt Clippers-liðið vonbrigðum í úrslitakeppninni og þurfti að sætta sig við að falla úr í fyrstu umferð þetta árið eftir að hafa skemmt áhorfendum með frábærum tilþrifum allan veturinn.

Memphis reyndist of stór biti fyrir Clippers að þessu sinni og fyrir vikið þurfti Vinny Del Negro að taka pokann sinn, þó fyrr hefði verið kannski.

Nú er Doc Rivers kominn í þjálfarastólinn hjá Clippers og aldrei að vita hvað hann nær að galdra fram í LA en hann nær að gera örfáar breytingar á leikmannahópnum.

San Antonio átti náðugt einvígi gegn LA Lakers eins og flestir reiknuðu með og setti þar með punktinn yfir i-ið á ömurlegustu leiktíð Lakers í tuttugu ár. Við höfum þegar eytt allt of mikilu plássi í að ræða um þetta einvígi.

Rimma Denver og Golden State var hinsvegar algjör rjómi eins og reiknað var með. Mikið skorað og mikið drama.

Það var Andre Miller gamli sem kom Denver á bragðið með dramatískri sigurkörfu í fyrsta leik, en eftir það var serían eign Warriors. Lærisveinar Mark Jackson komu gríðarlega á óvart í úrslitakeppninni þegar þeir gengu frá Denver og veittu San Antonio mikla samkeppni í annari umferðinni.

Sérstaklega var þetta útgáfupartý fyrir Steph Curry, sem gaf þeim sem völdu hann ekki í Stjörnuleikinn langt nef.

Hann fór gjörsamlega á kostum í úrslitakeppninni þrátt fyrir að vera á felgunni vegna meiðsla eins og félagi hans Andrew Bogut.

Það verður sannarlega gaman að fylgjast með Curry á komandi árum ef hann nær að hrista af sér þrálát ökklameiðsli.

Það verður hinsvegar erfitt fyrir Golden State að byggja ofan á Öskubuskuævintýrið í vor, en það á svo sem við um öll lið í deildinni undir strangari reglum um launamál.

Ef við vindum okkur í Austurdeildina, var einvígi Miami og Milwaukee álíka spennandi og leðjuglíma 80 ára og eldri á Hrafnistu. Sömu sögu er að segja um rimmu Indiana og Atlanta.

Nokkur dramatík átti sér stað í einvígi New York og Boston eins og búast mátti við, en þar bar hæst hvað leikmenn New York voru óagaðir og óþroskaðir þegar leyfðu gömlu sekkjunum í Boston að komast inn í einvígi sem átti að vera búið með fíflaskap.

Boston hefði með smá heppni og aðeins minni meiðslum haft fulla burði til að klára þetta einvígi.

Væntingar fólks fyrir einvígi Brooklyn og Chicago voru ekki miklar en þetta átti eftir að verða áhugaverðasta rimman í fyrstu umferðinni í Austurdeildinni.

Hvern hefði órað fyrir því að stuðningsmenn Chicago ættu eftir að tala um eitthvað sem héti "Nate Robinson-leikinn" í annálum framtíðar? Ekki marga.

Chicago var með meira en vængbrotið lið í þessu einvígi, en karakterslaust lið Nets mátti að lokum sætta sig við að tapa fyrir strákunum hans Thibs, gifsuðum og geggjuðum.

Við erum ekki viss hvort þetta segir meira um karakterinn í liði Bulls eða aumingjaganginn í liði Nets, en þessi sería náði að verða sæmilegasta skemmtun þrátt fyrir allt.

Bæði þessi lið eiga erfið verkefni fyrir höndum til að komast á næsta stig, en Chicago á Derrick Rose enn inni svo eitthvað ætti hann að geta létt róðurinn þegar hann kemur loksins til baka.


Önnur umferðin í Vesturdeildinni var heilt yfir ekki mjög spennandi, þó gæði leikjanna milli Golden State og San Antonio væru mikil.

Lemstrað lið Golden State fór liklega eins langt og efni stóðu til, en við óttumst því miður að miðað við lykilmannskap Warriors, eigi það eftir að verða sama sagan í framtíðinni.

Menn eins og Stephen Curry og Andrew Bogut virðast einfaldlega alltaf vera lemstraðir.

Westbrook-laust Oklahoma náði að setja spennu í einvígi sitt við Memphis með því að sigra í fyrsta leik, en eftir það var allt á bandi Húnanna. Kjötaðir Memphis-menn fóru illa með Oklahoma og voru of rútíneraðir í varnarleiknum til að láta lið með einn sóknarmann slá sig út af laginu.

Chicago hélt áfram að koma á óvart með því að vinna fyrsta leikinn sinn gegn Miami, en það reyndist um leið síðasti sigur liðsins í úrslitakeppninni.

Miami vann næstu fjóra leiki, en Chicago náði að sýna fram á ákveðna veikleika í liði meistaranna - veikleika sem voru svo sem ekkert leyndarmál.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum reyndu hvað þeir gátu að gera úlfalda úr mýflugunni sem einvígi Indiana og New York var í annari umferðinni.

Tvennt stóð upp úr í þessari rimmu. Hæð og varnarleikur Indiana var of mikið fyrir Knicks sem þýddi að liðið náði aldrei að spila þann leik sem hafði virkað svo vel lengst af yfir veturinn.

Og byssur New York, þeir Carmelo Anthony og JR Smith, voru einfaldlega lélegar. New York á langt í land eftir sem áður.

Flestir hefðu reiknað með því að sería San Antonio og Memphis í úrslitum Vesturdeildarinnar yrði slöggfest hið mesta og æsispennandi.

Annað liðið mætti hinsvegar áberandi betur tilbúið í einvígið og San Antonio gerði sér lítið fyrir og sópaði útsendurum Elvis.

Þegar þarna var komið við sögu, var enginn leikmaður að spila betur í úrslitakeppninni en Tony Parker leikstjórnandi Spurs. Við þurfum ekki að taka það fram að öllum var nákvæmlega sama.

Einvígi Miami og Indiana í úrslitum Austurdeildar var nokkuð skemmtilegt. Þar fengu meistararnir loksins almennilega samkeppni og létu Indiana ýta sér alla leið í sjö leiki. Eins og fram hefur komið, er Indiana gjörsamlega frábært varnarlið og fór svona langt í úrslitakeppninni á því og sterku byrjunarliði sínu - engu öðru.

Það verður erfitt að eiga við Indiana ef þetta lið nær að búa sér til eitthvað sem heitir varamannabekkur í framtíðinni, en þangað til, fer liðið ekki lengra en í undanúrslit.

Sem í sjálfu sér er auðvitað frábær árangur hjá svona ungu liði með ENGA breidd.

Eins og verða vill í úrslitakeppninni verða til nokkrar hetjur og ein þeirra var án nokkurs vafa Paul George hjá Indiana.

Stóri strákurinn Roy Hibbert átti fína spretti, en George sýndi að hann hefur alla burði til að verða ein af stórstjörnum deildarinnar á næstu árum.

George er fjölhæfur og snjall leikmaður, sem spilaði sig sannarlega inn í hjörtu ritstjórnarinnar í rimmunum við Knicks og Heat.

Þá eigum við bara lokaúrslitin eftir en þau eru nú flestum í góðu minni enn sem komið er. Eftir á að hyggja er auðvitað stórfurðulegt að San Antonio hafi ekki verið nema fimm sekúndum frá því að tryggja sér meistaratitilinn.

Þá hefðum við ekki aðeins þurft að éta alla okkar hatta, heldur hefði Miami - með fullri virðingu fyrir Spurs - fengið yfir sig snjóflóð réttmætrar og óréttmætrar gagnrýni næstu óteljandi mánuði.

Öll lið þurfa að hafa heppnina með sér til að verða NBA meistarar og meistarar Miami 2013 eru sko engin undantekning á þeirri reglu.

Sjaldgæft sóknarfrákast frá engum öðrum en Chris Bosh og baneitruð þriggja stiga karfa frá Ray Allen - í bland við netta skitu og óheppni frá Spurs - varð til þess að við fengum
sjö leiki í skemmtilegasta lokaúrslitaeinvígi aldarinnar.

Það var hrikalega sárt að horfa upp á gömlu snillingana í San Antonio þurfa að tapa einvíginu með þessum hætti, en því miður varð bara einhver að tapa þessu einvígi. Okkur er alveg sama hvað hver segir, þetta var síðasti séns Spurs.

Tim Duncan nær ekki að keyra sig upp í annað eins tímabil og hann átti í vetur og Danny Green og Kawhi Leonard eiga ekki aðra eins leiki í úrslitakeppninni næsta vor.

San Antonio sleppur aldrei við meiðsli lykilmanna og því miður er ekki gott að sjá að svo verði næsta vetur.

Og ekki gleyma því að Manu Ginobili vinur okkar hefur víst lokið keppni á efsta stigi, þó hann hafi rekið það ofan í okkur með því að eiga einn stórán í viðbót eftir að við bak-jinxuðum hann í drasl fyrir leik fimm.

Eitt af því sem stendur upp úr við lokaúrslitaeinvígið er auðmýktin sem hrokagikkurinn Gregg Popovich sýndi þegar hann óskaði leikmönnum Miami til hamingju með titilinn. Eins er vert að geta þess að við höfum aldrei séð úrslitaeinvígi jafn prúðmannlega leikið og þetta.  Dómarar dæmdu hvorki tæknivillu né óíþróttamannslega villu allt einvígið, sem þó fór alla leið.

Hann hafði sannarlega heppnina með sér í síðustu tveimur leikjunum og fékk góða hjálp, en besti körfuboltamaður heims notaði þá til að finna drullugustu og verst lyktandi tusku sem hann fann og troða henni upp í kjaftinn á hatursmönnum sínum. Hafi LeBron James ekki verið búinn að sýna hvers hann var megnugur nú þegar, er hann búinn að því núna.

Öll munum við eftir því hvernig hann reif sig lausan úr álögunum í fyrra með því að fara að pósta upp og keyra á körfuna. Eins og til að gefa þessu öllu langt nef - ákvað hann hinsvegar að tryggja Miami sigurinn í sjöunda leiknum með því að raða niður stökkskotum og þristum.

Já, já. Hann hafði heppnina með sér og San Antonio var fimm sekúndum frá því að láta þessa sögu hljóma allt öðruvísi, en í guðanna bænum hættið að reyna að troða kassalaga James ofan í hringlaga gat. Það gengur ekki.

James er búinn að vinna fjórar MVP styttur á fimm árum, vinna tvo meistaratitla, eitt Ólympíugull og fá tvær MVP styttur í lokaúrslitunum á tveimur árum. Þetta gera bara Heiðurshallarmeðlimir.

Hann LeBron okkar gerði þetta auðvitað ekki einn og Miami átti sínar ólíklegu hetjur alveg eins og San Antonio. Titillinn hefði sannarlega ekki hafnað í höndum Sólstrandargæjanna ef ekki hefði verið fyrir frammistöðu Ray Allen, Fuglamannsins, Shane Battier og Mike Miller. Meira að segja Chris Bosh átti sína spretti, þó við munum aldrei láta hann í friði.

Það fór samt svo að lokum að maðurinn sem við uppnefndum x-faktórinn fyrir Miami fyrir lokaúrslitaeinvígið - Dwyane Wade - reyndist svo sannarlega x-faktór liðsins og meira en það.

Þú vinnur ekkert Miami þegar LeBron James og Dwyane Wade spila vel og aukaleikararnir eiga sæmilegan dag. Það er bara þannig. Og Dwyane Wade-  með öll sín draugameiðsli og dramatík - náði að gera nóg til að hjálpa LeBron James til að vinna meistaratitilinn annað árið í röð og sinn þriðja.

Framtíð Miami veltur algjörlega á því hvernig eigendum félagsins (eins og eigendum allra annara félaga í deildinni) tekst að halda í sem flesta leikmenn og galdra launatölur undir launaþakið.

Það er nær ómögulegt nú þegar reglur þess efnis eru alltaf að verða strangari. Nú fer að skipta máli hvort menn eru tilbúnir að borga geðbilaðan lúxusskattinn til að keppa um titla, eða hvort menn neyðast til að spara.

Hvað svo sem verður með það, er ljóst að framtíð Miami Heat og möguleikar félagsins á að vinna þriðja árið í röð, velta gjörsamlega á heilsu Dwyane Wade. Auðvitað verða allir leikmenn liðsins að vera heilir til að það vinni titilinn - það segir sig nokkurn veginn sjálft - en heilsa Wade er algjört lykilatriði. Ef Wade heldur áfram að standa í þessu endalausa hnjádrama sínu, á Miami ekki möguleika á að verja titilinn.

Menn eins og Steve Kerr hafa haldið því fram að það sé ekki séns að Miami fari í lokaúrslitin fjögur ár í röð, það taki einfaldlega allt of mikið frá mönnum að fara svona langt ár eftir ár.

Það er mikið til í þessu, en enn og aftur, ef lykilmenn Miami halda heilsu - er ekki svo gott að sjá hvaða lið eiga að velta þeim úr sessi.

Miami er nú þegar líklegast til að vinna meistaratitilinn á næstu leiktíð og við þurfum enga Vegas-veðbanka til að segja okkur það.

Eins og við höfum sagt 3000 sinnum, settu meiðsli leiðindasvip á úrslitakeppni NBA deildarinnar árið 2013. Lokaúrslitaeinvígið var hinsvegar algjör bomba og tvímælalaust það besta á öldinni. Við förum því öll í sæluvímu inn í sumarið og getum ekki beðið eftir næsta vetri, þar sem við fáum vonandi að sjá menn eins og Derrick Rose á fullu á ný.

Gleðilegt sumar elskurnar og takk fyrir veturinn.