Thursday, June 13, 2013

Söguritarar eru í viðbragðsstöðu


Fjórði leikurinn í lokaúrslitaeinvígi Miami og San Antonio fer fram í Texas eftir smá stund og því er glórulaust að eyða tíma í að skrifa eitthvað sem talist gæti upphitun fyrir hann svona seint.

Ritstjórn NBA Ísland er hinsvegar skipuð einstaklingum sem hafa glatað hæfileikanum til að velja eða hafna þegar kemur að því að skrifa. Stundum þarf fólk bara að skrifa og getur ekkert að því gert. Þetta er eitt af þeim skiptum.

Ætli það sé ekki svefnleysinu undanfarið að kenna, en við kveiktum ekki á því fyrr en rétt áðan að við gætum orðið vitni að einhverju alveg sérstöku í nótt. Við gætum átt eftir að sjá NBA meistarana spóla sig ofan í drullupoll sem erfitt er að komast upp úr.

Miami er undir 2-1 gegn San Antonio eftir að hafa verið rassskellt í síðasta leik og verður því helst að vinna í kvöld. Vinna í húsinu þar sem fæstir útisigrar hafa unnist á síðustu tíu árum í NBA deildinni.

Ef Miami tekst ekki að vinna í kvöld, nær San Antonio 3-1 stöðu í einvíginu og síðast þegar liði tókst að snúa við blaðinu í þeirri stöðu, mátti reykja á sjúkrahúsum.

Fjölmiðlar fengu sannarlega það sem þeir vildu þegar Miami var hamrað í San Antonio í síðasta leik. Þeir fengu átyllu til að drulla yfir LeBron James - og þeir munu fara hamförum í því ef Miami tapar í nótt.

Enginn skilur neitt í því af hverju Miami er ekki að spila betur og við skiljum það svo sem ekki heldur, ekki nema að litlum hluta.

Það sem við vitum fyrir víst, er að Miami er ekki búið að vera á fullum styrk í þessari úrslitakeppni og ef við horfum til þess, er ekkert skrítið að Miami sé í vandræðum.

Það kom í ljós á móti Chicago að Miami var ekki alveg á fullu gasi og varð svo algjörlega augljóst á móti Indiana. Pacers er mjög sterkt varnarlið, en á ekki að vera nógu sterkt lið til að standa í NBA meisturunum - hvort sem það er Miami eða ekki. Sorry, en Miami átti ekki að þurfa neina sjö leiki til að loka Indiana.

Næsta mál á dagskrá er svo úthvílt, rútínerað og reynt lið San Antonio. Finnst þér skrítið að Miami lendi í vandræðum? Nei, ekki á miðað við það sem á undan er gengið.

Leikmenn og þjálfarar Miami segja að ástæðan fyrir tapinu í þriðja leiknum sé að þeir hafi ekki lagt nógu mikið á sig. Það hljómar fullkomlega fáránlega, en þeir virðast trúa því.

Fjölmiðlar kaupa það ekki (þetta eru lokaúrslitin, grátandi upphátt!) og kenna þreytu um allt saman. Það er skárri afsökun, en hún útskýrir ekki allt.

Það er dálítið dæmigert fyrir aumingja San Antonio að það fái ekkert kredit fyrir að vera yfir í einvíginu. Það er bara Miami-liðinu sjálfu að kenna að það er að tapa.  Staðreyndin er reyndar sú að San Antonio skilið fínt kúdós fyrir það hvernig komið er fyrir Miami, þó það skrifist ekki allt á varnarleik Texasmanna.


Nokkur gúrú hafa bent á skotkortin hans LeBron James og benda á að Spurs er að láta hann skjóta dálítið fyrir utan alveg eins og það gerði með góðum árangri árið 2007.

Við hentum hérna inn (Grantland) skotkortinu hans LBJ  fyrir ykkur til að skoða, en við ætlum ekki að hætta okkur út á of hálan ís í leikgreiningu.

Við gætum alveg farið að tala um það hvernig San Antonio er að hlaða einhverjum blönduðum bastarði af svæðis- og maður á mann vörn í veg fyrir LeBron James til að fá hann til að hika og helst skjóta, en best væri að láta fólk sem hefur vit á leiknum greina það.

Við treystum okkur betur til að greina sögulegt mikilvægi fjórða leiksins í nótt. Og það er risavaxið, eins og við komum inn á í upphafi þessarar hugleiðingar.

Það verður náttúrulega allt vitlaust ef Miami tapar í nótt. Hugsið ykkur. Ef San Antonio vinnur næsta heimaleik sinn í körfubolta, verður allt vitlaust.

Einhver gæti sagt að það væru ágætis líkur á að allt yrði vitlaust.

Rétt er að ítreka að okkur er alveg sama hvort liðið vinnur þetta einvígi. Við viljum bara sjá gæðakörfubolta og helst mikið af honum. En við vorum satt best að segja ekki alveg reiðubúin að standa frammi fyrir þeim möguleika að Miami... fengi hreinlega bara á kjaftinn í úrslitunum.

Við skulum ekki fara fram úr okkur, því Miami hefur unnið leiki á eftir tapi með yfir 20 stiga mun síðan um áramót, en það er allt í lagi að velta þessum möguleika upp. Auðvitað gætum við fengið allt annað Miami lið inn á völlinn í nótt og jafna seríu 2-2 þegar við förum að sofa. Þyrfti ekki að koma á óvart.

En pældu samt í því ef það gerist ekki...

Hvað þá?