Hér eigum við auðvitað við goðsagnirnar Wilt Chamberlain og Bill Russell. Þeir voru ólíkir persónuleikar, ólíkir leikmenn og gerðu ólíka hluti á ferlinum í NBA deildinni. Það eina sem tengir þá er sú staðreynd að þeir voru áhrifamestu og bestu körfuboltamenn samtímans og því lágu leiðir þeirra oftar en ekki saman í úrslitakeppninni á vorin.
Við gætum auðvitað skrifað 200 blaðsíðna ritgerð* um hvorn leikmann fyrir sig, en það var ekki ætlunin með þessum pistli. Honum er ekki aðeins ætlað að drepa tíma þinn fram að oddaleik Miami og Indiana í kvöld, heldur einnig að taka upp hanskann fyrir Wilt Chamberlain heitinn.
Þá spyr kannski einhver: Til hvers þarf að taka upp hanskann fyrir magnaðasta fyrirbæri körfuboltasögunnar? Það er af því að Wilt fær ekki nógu mikla ást. Það er sorgleg staðreynd sem við rekum okkur allt of oft á og við viljum gera eitthvað í því.
Hér fyrir neðan ætlum við að sem sagt að segja þér af hverju Wilt fær ekki næga ást og færa rök fyrir því af hverju á að vera mynd af honum uppi á vegg hjá öllum körfuboltaáhugamönnum.
Ofurmannleg frammistaða Wilt Chamberlain á körfuboltavellinum tryggði að hann mun hvorki hverfa úr annálum NBA deildarinnar né af vörum þeirra sem fylgjast með.
Wilt á enn fjöldan allan af ótrúlegum tölfræðimetum og þar á meðal þekktasta einstaklingsmetið í öllum körfuboltageiranum - 100 stiga leikinn árið 1962 sem flestir kannast við sem á annað borð fylgjast með íþróttum.
Tvö lið - Boston vinnur
Þó ferill Chamberlain hafi verið eins og lygasaga, er það allt of algengt að umræða um hann fari strax að snúast um Bill Russell, Boston Celtics og þá staðreynd að Wilt átti aldrei roð í þá grænu.
Alltaf skal Wilt borinn saman við Russell - og þó Wilt hafi alltaf verið með miklu betri tölfræði - vann Boston alltaf.
Boston vann bara alltaf á þessum árum. Þeir sem þekkja söguna vita að Boston hirti alla titla nema einn sem í boði voru í NBA frá árinu 1959 til 1969 og það er allt nema útilokað að við sjáum annan eins áratug aftur í sögunni.
Wilt var einstaklega óheppinn að hafa verið atvinnumaður meðan Rómarveldi NBA deildarinnar var í sínum mesta blóma í Boston undir stjórn Red Auerbach þjálfara og Bill Russell inni á vellinum.
Nú væri kannski freistandi að snúa dæminu við og fara að hrauna yfir Boston, en það gerum við auðvitað ekki. Þetta Boston lið er mesta stórveldi í sögu NBA og á skilið ómengaða virðingu.
Það er samt óþarfi að drulla yfir Wilt Chamberlain þó Boston hafi alltaf unnið. Það getur vel verið að Russell og Celtics hafi oftast haft betur gegn liðunum hans Wilt (Warriors, Sixers, Lakers) en við hvetjum fók til að kynna sér aðeins söguna áður en það fer að taka undir með fólki sem heldur að það sé skylda að tala illa um Wilt Chamberlain af því hann vann "ekki nema" tvo meistaratitla.
Yngri lesendur eru sérstaklega beðnir að gefa eftirfarandi góðan gaum.
NBA deildin var allt öðruvísi á sjöunda áratugnum en hún er í dag og segja má að drögin að nútíma körfubolta hafi verið lögð á lokaárunum hans Wilt Chamberlain eftir 1970.
Aðvörun: Fáránleg tölfræði
Wilt kom inn í NBA deildina árið 1959 og gerði allt vitlaust strax á nýliðaárinu sínu.
Hvorki fyrr né síðar hefur maður byrjað með eins miklum látum og Wilt gerði þennan vetur.
Hvað var hann með mikil læti, spyrðu?
Hann varð stigakóngur (37,6 stig), frákastakóngur (27 fráköst), spilaði flestar mínútur (46,4), var valinn í Stjörnulið og var verðmætasti leikmaður Stjörnuleiksins (23 stig, 25 fráköst), nýliði ársins, var í fyrsta úrvalsliði deildarinnar og var valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar.
Alls sló hann átta met á fyrsta árinu sínu í deildinni og þó hann hafi löngu verið búinn að prýða forsíður allra helstu blaða og tímarita í Bandaríkjunum á háskólaárum sínum - var hann nú á góðri leið í að verða fyrsta ofurstjarnan sem sportið ól af sér.
Árið 1962 afrekaði Chamberlain svo að skora 100 stig í einum og sama leiknum. Það er lang frægasta metið hans (tölfræði hans yfir bólfélaga hefur ekki verið staðfest, en sögð geigvænleg) en þar með var ekki öll sagan sögð.
Wilt var fjórum sinnum kjörinn verðmætasti leikmaður ársins í NBA, hann var sjö sinnum í fyrsta úrvalsliði deildarinnar, spilaði 13 stjörnuleiki, varð stigakóngur sjö ár í röð (met sem Jordan jafnaði 1988-93), ellefu sinnum frákastakóngur og leiddi meira að segja deildina í stoðsendingum (8,6 í leik) árið 1968 þegar hann vildi sanna að hann gæti líka gefið boltann.
Þá leiddi hann deildina einu sinni í skotnýtingu, þegar hann nýtti tæplega 73% skota sinna á lokaárinu sínu með Lakers og setti met sem enginn nema hann sjálfur hefur komið nálægt. Hann á líka næst bestu nýtinguna (68,3%) og á þrjú af bestu fimm tímabilum í sögu deildarinnar á þessu sviði.
Kannski er samt svakalegast af öllu að hugsa til þess að Chamberlain var með 50,4 stig og 25,7 fráköst að meðaltali í leik veturinn 1962, sem eru náttúrulega kolgeðveikar tölur.
Íþróttamaður á heimsklassa.
Við vitum að við gerumst sek um gróflega ofnotkun á orðinu "íþróttamaður" þegar við erum að lýsa líkamlegu atgervi NBA leikmanna, en það vill svo til að það hefði getað verið mynd af Wilt Chamberlain fyrir aftan orðið íþróttamaður í orðabókinni - slíkur garpur var hann.
Fyrir það fyrsta var Chamberlain ekki bara snöggur og fljótur, heldur var hann nautsterkur. Hann var ekki með mikið kjöt utan á sér á fyrstu árum sínum í deildinni en fór stækkandi eftir því sem leið á ferilinn og til eru ótal sögur af hrikalegum styrk hans.
Wilt stundaði það mikið að kasta einum félaga sínum hjá Harlem Globetrotters** upp í loftið eins og barni og grípa hann og einu sinni tróð hann bolta í körfuna þó maður væri hangandi á boltanum - hann tróð honum bara líka. Þá er til saga af Chamberlain þar sem hann ku hafa troðið svo fast í eitt skiptið að maður sem varð fyrir boltanum á niðurleiðinni hafi fótbrotnað, en það er reyndar ansi mikill Múnkhásen-þefur af þeirri sögu.
Wilt var ekki bara sterkur, heldur líka fljótur og fjölhæfur íþróttakappi. Hann lagði stund á m.a. þrístökk, hástökk, kringlukast og lang- og spretthlaup. Sagan segir að hann hafi klárað 100 metrana á 10,9 sekúndum í menntaskóla, sem er tími í heimsklassa, ekki síst í þá daga þegar enginn hafi náð að hlaupa vegalendina á innan við 10 sekúndum. Sá múr var ekki rofinn fyrr en árið 1968, meira en áratug síðar.
Yfirburðir Chamberlain.
Það má vel vera að Bill Russell geti alltaf bent á meistarahringana sína ellefu ef einhver fer að tala við hann um Wilt Chamberlain, en þó menn sem vinna eigi skilið sitt respekt, er afrekaskrá Russell þar fyrir utan ekki merkileg við hliðina á þeirri sem Wilt státaði af og við töldum upp hérna fyrir ofan.
Ekki misskilja, 99% leikmanna sem spilað hafa í NBA hefðu fegnir tekið því að vera með afrekaskrá Russell. Hann var fimm sinnum kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar (þrátt fyrir að vera aðeins þrisvar í 1. úrvalsliði deildarinnar), var tólf sinnum í Stjörnuliðinu og leiddi deildina fimm sinnum í fráköstum.
En tölfræði Russell bliknar í samanburði við tölurnar hans Chamberlain. Wilt var með 30 stig, 23 fráköst, 4 stoðsendingar og 54% skotnýtingu á ferlinum. Russell skoraði 15 stig, hirti yfir 22 fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og hitti úr 44% skota sinna.
Þess má geta að varin skot voru ekki viðurkennd tölfræði á þessum árum og vilja kunnugir meina að þeir félagar hafi verið ansi duglegir við þá iðju, sem er trúlegt. Eins og það er klisjulegt, átti Chamberlain það til að nýta ótrúlega íþróttahæfileika sína til að hamra skot mótherjanna upp í stúku, en Russell var þekktur fyrir að vanda sig við að verja skotin, leggja mikið upp úr því að halda þeim í leik og helst búa til hraðaupphlaup upp úr þeim.
Þá var aðeins nýbyrjað að velja varnarlið ársins undir restina á ferli þeirra Russell og Chamberlain og ætla má að sá fyrrnefndi hefði verið fastamaður þar allan ferilinn.
Chamberlain gat reyndar alveg spilað fantavörn ef honum sýndist svo og lagði meiri áherslu á þann hluta leiksins á árunum með Lakers undir stjórn Bill Sharman.
Magnaðir molar.
Okkur lék mikil forvitni á að vita hvernig Wilt vegnaði gegn Russell maður á mann í viðureignum þeirra í gegn um tíðina.
Það er gömul tugga að Russell hafi oftast unnið leikina, gott og vel, en hvernig ætli tölfræðin hans Chamberlain hafi verið á móti varnarjaxlinum Russell?
(Mynd: Wilt og Arnold í hlutverkum sínum í kvikmyndinni Conan the Destroyer árið 1984)
Við rákumst á nokkra skemmtilega mola um viðureignir þeirra sem við ætlum að nota til að slá botninn í þessa hugleiðingu, sem ætlað var að vekja fólk til umhugsunar.
Chamberlain fær of lítið respekt að okkar mati, því hann er ekki aðeins mesti skorari í sögu körfuknattleiksins heldur í alla staði eitt stórkostlegasta fyrirbæri sem stigið hefur á parketið.
Við notum orðið fyrirbæri til að lýsa leikmönnum sem brjóta í bága við algengustu lögmál íþrótta- og eðlisfræðinnar. Og það gerði Wilt Chamberlain svo sannarlega.
Þið takið eftir því að í yfirfyrirsögninni á þessum pistli segjum við að Wilt Chamberlain sé magnaðasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar.
Hann var (lang) hæfileikaríkasti körfuboltamaður sinnar kynslóðar og enginn, hvorki fyrr né síðar, hefur ruslað deildinni upp eins og hann gerði á sínum tíma. Það er útilokað að leika afrek Chamberlain eftir í nútíma körfubolta - nema Köngulóarmaðurinn sé á leiðinni í NBA.
Wilt var risi í kúltúr og risi að burðum. Allt sem hann gerði var hrikalegt og Twitter hefði brunnið til kaldra kola ef það apparat hefði verið til þegar Wilt var að setja metin (og hitta sautján konur á einni helgi - pældu í Wilt á Instagram!).
Annað sem hafa verður í huga þegar spólað er svona til baka er að átökin í deildinni voru mikið mun harðari á þessum tíma en þau eru í dag. Þá þótti ekkert tiltökumál að lemja andstæðinginn í gólfið þegar hann keyrði á körfuna og gefa honum svo á kjaftinn ef hann ætlaði að gera eitthvað í því. Þetta hljómar kannski villimannslegt, en svona var þetta stundum í þá daga.
Chamberlain íhugaði meira að segja að leggja skó sína á hilluna snemma á ferlinum, því hann var orðinn svo leiður á þeim gegndarlausu barsmíðum sem hann mátti þola í hverjum einasta leik. Ekki gat tröllið svarað fyrir sig, því þá hefði einhver endað á líkbörunum.
Bleyðuhátturinn sem viðgengst í NBA í dag er genginn yfir allt meðalhóf, þar sem menn fá tæknivillur fyrir það eitt að horfa í áttina að mótherjum sínum. Það væri gaman ef hægt væri að finna meðalhóf milli slagsmálanna á sjöunda og áttunda áratugnum - og bridge-hörkunnar sem tíðkast í NBA í dag.
Að lokum eru hér nokkrar tölur sem Wilt bauð upp á í leikjum gegn Russell:.
- 1959: Strax á nýliðaárinu sínu átti Wilt 44 stiga og 43 frákasta leik gegn Russell.
- 1960: Var hann með þrefalda tvennu í leik gegn Russell. 39 stig, 25 fráköst og 14 varin skot.
- 1961: Setti NBA met með 55 fráköstum í einum leik. Russell hirti 19 en vann leikinn.
- 1961: Var með þrefalda tvennu upp á 44 stig, 35 fráköst og 15 varin skot gegn Russell.
- 1962: Fagnaði árinu ´62 með því að salla 62 stigum á Russell.
- 1965: Tvær þrennur gegn Russell í úrslitakeppninni. Fyrst 33/31/11 og svo 30/26/13.
- 1967: Nær fernu gegn Russell í úrslitakeppninni - 24 stig, 32 frák, 13 stoð og 12 varin.
- 1968: Var með þrefalda tvennu (stig, frák, stoð) í þremur af fjórum leikjum gegn Russell.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Auðvitað varð þetta þá að 200 blaðsíðna ritgerð - bjóstu við öðru?
** - Wilt spilaði með Harlem Globetrotters fyrsta árið sitt sem atvinnumaður og gerðist þá svo frægur að spila m.a. í Rússlandi. Hann sagði alltaf að honum hefði liðið vel með Globetrotters, þar sem aðalatriðið var að skemmta fólki og hann var ekki laminn af varnarmönnum í hverri sókn.
Pé Ess. - Ekki missa vatnið þó við köllum Wilt magnaðasta leikmann sögunnar.
Það þýðir ekki endilega að hann sé besti leikmaður sögunnar, frekar að enginn leikmaður hafi notið annara eins yfirburða og hann gerði á sínum tíma.
Við erum ekki svo vitlaus að ætla að fara að bera saman körfuboltamenn frá gjörólíkum tímabilum og jafnvel menn í ólíkum leikstöðum (t.d. Jordan vs Wilt). Kannski skrifum við pistil um þetta einhvern daginn, en Wilt er klárlega og auðveldlega einn af tíu bestu körfuboltamönnum allra tíma í okkar bókum.
Ef allt væri eðlilegt, myndi merki NBA deildarinnar vera hannað eftir útlínum Wilt Chamberlain en ekki liðsfélaga hans Jerry West - með fullri virðingu fyrir Jerry.