Tuesday, May 28, 2013

San Antonio er komið í lokaúrslit


San Antonio er komið í lokaúrslit NBA deildarinnar í fimmta skipti eftir nokkuð öruggan 93-86 sigur á Memphis í fjórða leik liðanna í nótt. San Antonio sópaði Memphis út í úrslitum Vesturdeildarinnar. Gefðu þér tíma til að melta þetta í smá stund. Engum hefði dottið í hug að spá þessu. Nákvæmlega engum.

En hingað eru þeir komnir, gömlu hundarnir í San Antonio. Svo fór að lokum að þeir töpuðu aðeins tveimur leikjum á leið sinni í úrslitin. Auðvitað spáðir þú því að eina liðið sem myndi ná að vinna Spurs á leið í úrslitaeinvígið væri Spútnikliðið hans Mark Jackson. Einmitt.

Tim Duncan er nú að fara með San Antonio liðið sitt í lokaúrslit þriðja áratuginn í röð. Hugsið ykkur. Þetta hljómar dálítið klikkað, en svona er þetta.

San Antonio vann fyrsta titilinn í sögu félagsins þegar Duncan var gutti árið 1999. Svo fylgdu þrír í viðbót eftir að þeir Parker og Ginobili mættu til sögunnar - árið 2003, 2005 og 2007.

Síðast þegar Spurs fór í úrslit, var mótherjinn LeBron James og Cleveland-lið hans. James dró þá Cavs-lið sem var ekkert sérstaklega gott alla leið í úrslit. Þegar þangað var komið, var hinn meira en efnilegi James kominn á leiðarenda. Gregg Popovich setti hann og fyrrum lærling sinn Mike Brown í hakkavélina og sópaði þeim 4-0.

Nú er ekki ólíklegt að LeBron James fái tækifæri til að hefna sín á Popovich, Duncan og félögum, en í þetta skiptið með alvöru lið á bak við sig. Það verður einhver skákin. Vá. Það er gjörsamlega ómögulegt að spá því hvað gerist ef þessi lið mætast.

Tölum aðeins um Húnana í Memphis. Það er erfitt að segja það eftir aðra eins útreið og Griz fékk hjá Spurs, en strákarnir í Memphis stóðu sig bara nokkuð vel í vetur.

Við gefum þeim reyndar D- mínus fyrir einvígið gegn Spurs, en það er mikið til af því Spurs sýndi spilamennsku upp á A. Húnarnir börðust af öllum mætti í fyrstu þremur leikjunum en okkur fannst þeir allt of daufir í leik fjögur.

Það má vel vera að mannskapurinn hafi verið búinn að missa trú á að vinna einvígið eftir að hafa lent 3-0 undir, en fjandakornið að menn hafi ekki stolt í að reyna að minnsta kosti að láta ekki sópa sér út á eigin heimavelli. Það þykir okkur bara lélegt. Sorry. Memphis á að vera betra lið en þetta.

En, eins og við sögðum, má Memphis vel við una eftir dramatískan vetur. Enn er hægt að bæta við og gera þetta lið sterkara en framtíð þess í þjálfaramálum er alveg upp í loft. Það er samt engin ástæða til að ætla annað en að Memphis verði með samkeppnishæft lið á allra næstu árum.

Nú fórum við allt í einu að hugsa um San Antonio aftur. Hugsaðu þér, San Antonio sópaði Memphis í úrslitum Vesturdeildarinnar! Þvílík frammistaða.

Það var engin tilviljun að Zach Randolph blessaður gat EKKERT í einvíginu. Hann var tekinn úr umferð og Memphis fékk ekki að gera neitt sem það vildi gera í sókninni.

Húnunum líður alltaf betur í varnarleiknum en sóknarleiknum, en þeim tókst ekki heldur að finna svör við sóknarleik San Antonio - þar sem Tony Parker reif þá í sig sókn eftir sókn.

Tony flippin Parker.

Menn tala ALDREI um Tony Parker þegar rætt er um bestu leikstjórnendur heimsins, en alltaf skal hann vera síðasti leikstjórnandinn á lífi - spila lengst inn í sumarið af öllum þessum hetjum. Nú ætlum við ekki að halda því fram hér að Parker sé sá besti, en við hvetjum fólk til að staldra aðeins við og pæla í því hvað drengurinn er góður leikmaður.

Hann bar sóknarleik San Antonio uppi í einvíginu við Memphis.

Mike Conley, leikstjórnandi Memphis, náði að halda eins vel aftur af Chris Paul í fyrstu umferðinni og hægt er.

Hann og Tony Allen (sem er almennt álitinn einn besti - ef ekki besti - varnarmaður úti á velli í NBA) reyndu allt sem þeir gátu, en hraði og útsjónarsemi Parker og heimsklassa hindranir Splitter og Duncan gerðu það að verkum að Memphis fann aldrei svar við honum.

Og svo þakkar hann bara liðsfélögum sínum þegar verið er að hrósa honum. Alvöru maður.

Nú fær San Antonio líklega yfir viku hvíld þangað til ræðst hver mótherji þess verður í lokaúrslitunum.

Það er óhemju mikilvægur þáttur fyrir þessar gömlu lappir og meiddu skanka í liðinu.

Einhver lið myndu hafa áhyggjur af því að ryðga á viku, en Spurs fagna hvíldinni, enda hefur þreyta verið óvinur liðsins númer eitt í úrslitakeppninni. Það var sérstaklega áberandi í einvíginu gegn Golden State.

Eins og staðan er núna verður að teljast líklegt að það verði meistarar Miami sem mæta San Antonio í úrslitunum (jinx).  Það verður ekkert minna en skákeinvígi með flugeldasýningu eftir hvern leik. Réttast væri að rukka þrefalt inn á þetta.

Og við sem vorum búin að skrifa San Antonio út sem meistarakandídat og halda jarðarför því tengt. Það var ekki annað hægt, eftir að liðið drullaði á sig í úrslitakeppninni ár eftir ár eftir ár.

Nei, svo dúkka þessir herramenn upp, SEX árum eftir síðasta titil og ætla bara alla leið!

Það sem fólk leggur ekki á sig til að láta okkur líta illa út!