Wednesday, May 29, 2013

Allt í járnum í austrinu


Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um fjórða leik Miami og Indiana í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar. Við þurfum þess ekki. Indiana varð að vinna þennan leik, sérstaklega í ljósi þess hvernig fór í vestrinu. Við viljum ekki sjá sóp (4-0) og herramannasóp (4-1) í undanúrslitarimmunum. Það væri bara glatað. Lokatölurnar urðu 99-92.

Indiana slapp ekki aðeins við að lenda undir 3-1 og eiga næsta leik á útivelli, heldur er liðið nú búið að jafna metin í seríunni - sem er allt í einu orðin galopin á ný. Það er ekkert stórfurðulegt að Indiana hafi unnið þennan leik. Þeir áttu inni að spila betur en í leik þrjú og Miami gat fjandakornið ekki haldið áfram að hitta eins og það gerði í leiknum á undan.

Nú er því tryggt að við fáum amk eina undanúrslitarimmu sem verður spennandi og á meðan safna Tim Duncan og félagar í San Antonio ryki heima í Texas. Sjá fram á níu eða tíu daga frí.

Þegar Indiana vinnur Miami, er það af því liðið leikur góða vörn (39% hittni hjá Heat), frákastar vel (+19) og fær gott stigaframlag frá Lance Stephenson (20 stig,  9 af 15 í skotum). Svo var sláninn okkar Roy Hibbert líka að standa sig, bauð upp á þriðja 20/10 leikinn í röð og hirti sóknarfráköstin sem tryggðu Pacers sigurinn í nótt.

Það er skammt stórra högga á milli. Eftir öruggan sigur Miami í þriðja leiknum, sáu margir ekki fram á að liðið myndi tapa öðrum leik í þessu einvígi og Indiana átti að vera alveg búið á því. Sem betur fer var það ekki þannig og heimamenn kipptu því í liðinn sem þeir þurftu að laga fyrir fjórða leikinn. Þessi sería búin að vera hin besta veisla og ætlar að vera það áfram. Sérdeilis prýðilegt.