Thursday, April 25, 2013
Við fáum oddaleik
Úrslitin í einvígi Grindavíkur og Stjörnunnar ráðast í oddaleik um helgina. Það er draumur allra þeirra sem hlutlausir eru og vilja bara sjá sem flesta leiki. Við erum í þeim flokki.
Grindavíkurliðið var svo sannarlega ekki tilbúið til að fara í sumarfrí í kvöld og vann sanngjarnan sigur í Ásgarði 88-82 í fjórða leik liðanna. Staðan er því orðin 2-2 í einvíginu og allt undir um helgina.
Það hjálpar að hafa stigamaskínur eins og Broussard (37/12) í liðinu sínu, en sóknarfráköstin voru heimamönnum líka dýr. Munaði þar mest um frammistöðu Davíðs Inga Bustion, sem er eins og svar Íslands við Kenneth Faried. Drengurinn hirti 13 fráköst (8 í sókn) á aðeins 18 leikmínútum og varnarleikur hans og barátta eru smitandi og skemmtilegt.
Stjörnumenn voru yfirspenntir og fundu ekki taktinn í kvöld. Það er eins og það hafi farið eitthvað í þá að sjá dolluna á hliðarlínunni. Þeir munu laga þetta fyrir oddaleikinn, sem verður sögulegur. Glæsilegur sigur hjá Íslandsmeisturunum í kvöld og draumaúrslitaleikur fram undan í Grindavík á sunnudaginn.
Efnisflokkar:
Grindavík
,
Heimabrugg
,
Stjarnan
,
Úrslitakeppni 2013