Grindavík er Íslandsmeistari í körfubolta annað árið í röð eftir 79-74 sigur á Stjörnunni í frábæru úrslitaeinvígi. Það er ekki hægt að komast mikið nær titlinum án þess að hirða hann, en Stjörnumenn urðu að sætta sig við að fara tómhentir heim í Garðabæinn.
Stemningin í Röstinni í kvöld hefur örugglega hjálpað heimamönnum eitthvað og ekki kom það þeim illa þegar Jarrid Frye þurfti að fara af velli hjá Stjörnunni eftir aðeins þrettán leikmínútur vegna ökklameiðsla.
Heimamenn voru með leikinn í hendi sér lengst af, en við verðum að gefa Stjörnunni stórt kúdós fyrir að ná að jafna leikinn undir lokin með gríðarlegum karakter.
Það var eins og þeir ætluðu að stela þessu, en Grindavíkurliðið var ekkert að fara að tapa þessum leik - mætti í jötunmóð.
Það er aldrei auðvelt að lesa í svona hreina úrslitaleiki. Tölfræðinni er hent út um gluggann og oftar en ekki breytast þessir leikir í slöggfest þar sem gráðugra liðið vinnur. Það var dálítið þannig í þessum leik.
Þú púlar heilan vetur til að byggja upp gott lið og ná þér í góða stöðu fyrir úrslitakeppnina, en svo kemur lykilmaður þinn niður á löppina á mótherja eftir skot, snýr sig og er úr leik.
Ömurlegt dæmi, en því miður er ekkert við þessu að gera.
Við gætum alveg farið út í eitthvað ef og hefði. Gætum farið að leita að sökudólgum og blórabögglum. En við ætlum ekki að gera það að þessu sinni. Við fengum ósk okkar uppfyllta með fimm frábærum leikjum í úrslitunum og meira getum við ekki farið fram á.
Í þessu einvígi voru tvímælalaust á ferðinni tvö bestu körfuboltalið landsins. Óhemju vel mönnuð og með mestu breiddina í deildinni.
Nú er spurning hvernig þau ætla að gera þetta næsta vetur þegar skorið verður niður í útlendingadeildinni og íslenskir leikmenn öðlast meira vægi.
Vonandi halda bæði þessi lið í lykilmenn sína og reyna aftur að ári. Sérstaklega á þetta við um Stjörnuna. Eins og það er mikill viðbjóður að tapa oddaleik um titilinn eftir að hafa verið 2-1 yfir, geta Garðbæingarnir þó huggað sig við það að þeir skildu allt eftir úti á gólfinu í Grindavík.
Vonandi sjáum við menn eins og Justin og Jovan halda áfram í Garðabænum og vonandi verður oddaleiksblúsinn fljótur að fara af þjálfurunum Teiti og Snorra.
Þetta er vont fyrst, eins og þeir segja. Hungrið kemur fljótt til baka og það mætti segja okkur að það verði ekki erfitt að mótívera mannskapinn á næstu leiktíð eftir svona sárt silfur í kvöld.
Við þökkum ykkur, Dómínós, liðum og leikmönnum og KKÍ fyrir frábæran vetur. Okkur er strax byrjað að hlakka til haustsins þegar boltinn byrjar að skoppa á ný.