Í öðrum leik Denver og Golden State í úrslitakeppninni í nótt sem leið, tókst Warriors að gera nokkuð sem aðeins þremur liðum tókst í allan vetur.
Að vinna í Denver.
Fáir hefðu líklega reiknað með þessum sigri Golden State, enda missti liðið einn sinn sterkasta mann (David Lee) í meiðsli í fyrsta leiknum.
Við skulum samt halda því til haga að Denver er líka án eins síns besta manns (Danilo Gallinari) og með annan lykilmann á felgunni (Kenneth "Dýrmennið" Faried).
Helsta ástæðan fyrir sigri Golden State í öðrum leiknum var að skyttur liðsins áttu allar góðan dag. Þegar svo er, getur ekkert lið í heiminum unnið Warriors. Það er bara þannig.
Steph Curry skoraði 30 stig fyrir Warriors og gaf 13 stoðsendingar. Golden State hefur vissulega ekki verið mikið í úrslitakeppninni undanfarin ár og því var eðlilegt að það væri langt síðan leikmaður félagsins bauð upp á þessar tölur í leik í úrslitakeppni.
Það vill svo skemmtilega til að þessi leikmaður var Eric "Sleepy" Floyd og leikurinn sem um ræðir var fjórði leikur Golden State og LA Lakers í annari umferð úrslitakeppninnar árið 1987.
Lakers komst í 3-0 og gerði sig líklegt til að sópa dæminu, en Floyd frændi ykkar var nú ekki á því og setti NBA met með því að skora 29 stig í fjórða leikhlutanum, 38 í síðari hálfleik og 51 stig alls.
Lakersliðið var 14 stigum yfir á kafla í fjórða leikhluta en Floyd skaut Warriors yfir með því að hitta meðal annars úr tólf skotum í röð.
Met Floyd stendur enn, en gamla metið á þessum tíma var 25 stig í einum leikhluta og var reyndar sett aðeins tveimur dögum áður af Isiah Thomas.
Þessi frábæri sigur Golden State dugði þó skammt, því Lakers lokaði einvíginu í fimmta leiknum og varð síðar NBA meistari eins og margir muna.
Gaman að geta þess að þjálfari Golden State á þessum tíma var enginn annar en George Karl, sem í dag er þjálfari Denver Nuggets.
Það fór mjög í skapið á George að Lakers næði 3-0 forystu í einvíginu og tók hann því æðiskast á leikmenn sína í klefanum.
Reiðilesturinn beindist sérstaklega að Joe Barry Carroll sem seinna fékk viðurnefnið Joe Barely Cares, sem lýsti metnaði hans nokkuð vel.
"Ég rústaði skápnum hans í búningsklefanum," sagði George Karl í samtali við Denver Post í dag.
"Ég var æfur eftir tapið í þriðja leiknum en Carroll sagði mér að slappa af, við hefðum átt fínt ár en Lakersliðið væri bara rosalega gott. Ég missti mig og þrumaði körfuboltum í skápinn hjá honum með þeim afleiðingum að hurðin brotnaði af," sagði Karl.
Segja má að æðiskast þjálfarans hafi dugað til að kveikja smá neista í hans mönnum, þó hann hafi aðeins dugað í einn leik. Neistinn varð að minnsta kosti að báli í hausnum á Sleepy Floyd, sem komst svo um munaði í sögubækur þennan dag árið 1987.
Hérna sérðu svipmyndir úr "Sleepy Floyd-leiknum" eins og hann er kallaður.