Tuesday, January 22, 2013

Áfram skal drullað yfir góða stuðningsmenn



Það væri lélegt ef við segðum ekki okkar skoðun á því að nú virðast vera 99% líkur á því að Sacramento sé að missa körfuboltafélagið sitt til Seattle. Hið rétta er að við höfum ekki með nokkru móti nennt að setja okkur almennilega inn í þetta mál af því það er svo mikil skítalykt af því.

Það fór gríðarlega í taugarnar á okkur eins og öllum (nema Oklahoma-búum) þegar Supersonics var stolið frá Seattle og því er það óendanlega kaldhæðnislegt að hinir flottu stuðningsmenn í Seattle séu nú aftur að fá NBA lið - og það stolið alveg eins og Sonics forðum.

Undirmálsmennirnir Maloof-bræður hafa verið milli tannanna á fólkinu í Sacramento í mörg ár, en þessir drulluhalar sem voru búnir að lofa að liðið færi ekki frá Sacramento, stukku auðvitað beint á að losa það þegar ljóst varð að þeir fengju þessar fáránlega háu upphæðir fyrir Kings. Þetta félag er ekki nálægt því að vera 500 milljón dollara virði, það er brandari.

Nú erum við þegar búin að skrifa allt of mikið um þetta. Því miður eru þessi mál fastur partur af lífinu í NBA og þegar þessi bisness er annars vegar, er öllum skítstama um alla.

Fólkið í Sacramento, með fyrrum NBA leikmanninn og borgarstjórann Kevin Johnson í fararbroddi, hefur barist blóðugri baráttu fyrir því að fá að halda liðinu sínu í borginni og hefur gert allt sem til þurfti.

Það er bara ekki nóg.

Vissulega er það þannig að Kings hefur verið brandari í NBA deildinni og að undanskildum árunum með Chris Webber, hefur það verið að gólfmotta í besta falli. Það verður því enginn söknuður af liði Sacramento Kings - ekki nokkur - en við erum bókstaflega í rusli fyrir hönd stuðningsmanna Kings.

Þetta fólk er búið að vera ótrúlega duglegt að styðja við bakið á liðinu þó það hafi verið drullandi á sig áratugum saman og loksins þegar liðið byrjaði að geta eitthvað um aldamótin, voru stuðningsmennirnir ef til vill þeir háværustu og bestu í deildinni.

Ef við skoðum hina hliðina á peningnum, er gaman að fólkið í Seattle sé að fá NBA lið aftur, en alveg eins og með Oklahoma, er ekki hægt að gleðjast að fullu fyrir hönd félagsins á næstu árum út af drullunni sem gengið hefur á í sögu þess.

Drullusekkurinn sem á Oklahoma City var búinn að lofa því að Seattle gæti fengið Supersonics nafnið aftur ef borgin fengi lið á ný (hann á réttinn á nafninu) en það er einskis virði ef félagið fær ekki sögu sína til baka. Við sjáum ekki að svo geti orðið, þó auðvitað eigi að slíta sögu Sonics frá Thunder og miða sögu OKC við árið þegar það flutti til Oklahoma.

Við botnum ekkert í þessari hringavitleysu.

Skál fyrir þér og þínum skítaplönum enn eina ferðina David Stern. Gangi þér vel í að hrauna frekar yfir deildina áður en þú drullast loksins til að hætta, elliæra fífl.

Allt snýst þetta um peninga og pólitík og það eru einmitt atriðin sem okkur leiðast mest.
Sérstaklega fyrra atriðið. Pólitík á ekki heima í jafn fallegum leik og körfubolta. Á ekki að sjást.