Friday, June 8, 2012

Miami og Boston spila oddaleik um helgina:


Á einhverjum tímapunkti hefur Boston örugglega ætlað að koma vel einbeitt til leiks í sjötta leiknum gegn Miami. Setja kraft í þetta frá fyrstu mínútu og slá andstæðinginn út af laginu líkt og þeir gerðu niðri í Miami í fimmta leiknum.

Það varð ekkert úr þessum áformum. Eins gott að taka það strax fram bara.
Boston náði aldrei tökum á þessum mikilvægasta heimaleik sínum í vetur, af því LeBron James leyfði það ekki.

Frá fyrstu mínútu tók hann yfir leikinn og skoraði 30 af 45 stigum sínum strax í fyrri hálfleik. Gaurinn var sjóóóðandi og alveg sama hvaðan hann skaut - það var allt í hjá honum.


 Tólf stig frá Kevin Garnett, tíu frá Ray Allen, níu frá Paul Pierce. Þetta er ekki nóg.
Rondo reyndi að hrista upp í þessu með 21 stigi og 10 stoðsendingum, en tapaði boltanum sjö sinnum.

Það er hæpið að þú vinnir ef stigahæstu menn skila 21, 12, 12 og 10 stigum - aðrir minna.

Þetta var auðvitað leikurinn sem Boston átti/þurfti að taka. Líkurnar og sagnfræðin er alls ekki á bandi Boston núna.

Liðið vann síðast sjöunda leik á útivelli árið sem Derek Fisher fæddist og þá voru Kareem Abdul-Jabbar og Oscar Robertson hjá Milwaukee mótherjar þeirra.

Miami er enn ekki að þóknast okkur. Það eina sem kom í veg fyrir að liðið drullaði á sig í þessum leik var atmennið LeBron James.

Það eru forréttindi að fá að fylgjast með þessu fyrirbæri spila körfubolta í þessum ham.

Drengurinn skilaði 45 stigum, hitti 19 af 26 skotum, 15 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Tölfræði sem hefur ekki sést síðan hjá Wilt Chamberlain um miðjan sjöunda áratuginn.

Dwyane Wade var enn og aftur dálítið fjarverandi verður að segjast. Átti enn einn "bleh" leikinn í kvöld.

Hann var ekki jafn hræðilegur og Paul Pierce, en ekki til eftirbreytni, útflutnings eða undaneldis.


Krúttið hann Chris Bosh er kominn aftur á fullt og farinn að spila langar mínútur eins og ekkert hafi í skorist. Furðulegt mál verður að segjast.

Nú langar stuðningsmenn beggja liða eflaust að vita hvernig við spáum að sjöundi leikurinn fari, af þvi við hérna á ristjórninni höfum einstaklega gott lag á að jinxa góð lið í ruglið. Vonum að það fari ekki þannig, en ef við byggjum á því sem við sáum í kvöld, hlýtur Miami auðvitað að taka þetta létt á laugardaginn (kl. hálfeitt í beinni á Sportinu).

Boston var ekki tilbúið í leikinn í kvöld og engin ástæða til að ætla að liðið verði ákafara niðri á Flórida um helgina. Heimavöllur Miami er reyndar óttalegur kattarsandur og skiptir því kannski ekki eins miklu máli.Whatever - þetta fer einhvern veginn. Sjöundi leikurinn verður flottur, hvernig sem hann fer.

Verðum samt að gefa stuðningsmönnum Celtics feitt kúdós fyrir stuðninginn sem þeir sýndu gömlu mönnunum sínum þegar þeir sungu samfleitt "áfram Celtics" síðustu mínúturnar til að sýna stuðning sinn í verki - jafnvel þó liðið hefði drullað feitt á sig í kvöld. Þetta eru alvöru stuðningsmenn.