Saturday, February 25, 2012
LeBron James og það sem við eigum til að gleyma
LeBron James er óhemju góður körfuboltamaður og nokkuð umdeildur einstaklingur.
Samkvæmt óvísindalegri könnun okkar hérna á ritstjórninn, er umfjöllun um James í fjölmiðlum aðeins í 27% tilvika beintengd spilamennsku hans í það og það skiptið.
Meira blek fer í að fjalla um drenginn persónulega, ákvarðanatöku hans, veikleika og gjarnan er dregin upp frekar dökk mynd af möguleikum hans á að ná árangri í atvinnu sinni í framtíðinni.
Við höfum komið inn á þennan punkt áður. Það er ekki víst að nokkur leikmaður hafi fengið jafn litla athygli fyrir jafn frábæra spilamennsku og LeBron James fær í dag. Tímabilið er reyndar aðeins hálfnað, en James er að skila tölfræði sem hefur ekki oft sést í annálum deildarinnar.
Eitt á það til að gleymast í öllu þessu fári. Það er að James er einhver stórkostlegasti íþróttamaður sem komið hefur fram á sjónarsviðið í heiminum. Þetta eru stór orð en pilturinn stendur undir þeim. Við verðum bara að vekja athygli á þessu aftur og trúlega ekki í síðasta skiptið.
Það er ekki með nokkru móti eðlilegt að maður vel yfir 200 sentimetra á hæð geti hreyft sig eins og James. Það var enginn mánudagur þegar genunum var raðað saman í þetta eintak sem hann er, jafnvel þó hún móðir hans hafi mögulega verið vel í glasi þegar hann var getinn.
James meiðist sjaldan og býr yfir blöndu af hraða snerpu, jafnvægi og styrk sem líklega hefði nægt til að gera hann að afreksmanni í flestum íþróttagreinum sem til eru.
Ímyndaðu þér bara LeBron James sem skyttu í handbolta, miðvörð í knattspyrnu, sem sundmann (án gríns) eða blakmann. Margir telja að hann hefði orðið frábær ruðningskappi og óhætt er að slá því föstu að hann hefði orðið rosalegur í tugþraut.
Okkur rak í rogastans þegar við sáum myndina sem við notuðum til að skreyta þessa færslu.
Horfðu á hana í smá stund og leiddu hugann að því hvað er í gangi þarna. Við gerum öll allt of lítið af því að staldra við og þefa af kaffinu á þessari öld hraða og snarminnkandi athygli.
Þetta, gott fólk, er rugl.
Efnisflokkar:
Furður veraldar
,
Fyrirbæri
,
LeBron James
,
Ógnarstyrkur