Wednesday, February 22, 2012

Abbastu ekki upp á Texas


"Abbastu ekki upp á Texas!" og "Farðu í rass og rófu, við erum frá Texas!" eru dæmi um skemmtilegar bolaáletranir sem vísa í hugmyndir Texas-búa um eigið ágæti. Þeir sjá fylkið sitt sem land út af fyrir sig og auðvitað það besta í heimi.

Það er alveg rétt að margt gott kemur frá Texas, en margt hræðilegt líka. Rétt eins og með Bandaríkin öll.  Bush-feðgar koma til að mynda frá Texas og það er lítill sómi af þeim, en á sama tíma komu þrír fjórðuhlutar hljómsveitarinnar Pantera frá fylkinu risavaxna (söngvarinn frá New Orleans).

Það eru líka þrjú körfuboltalið í Texas og þau hafa náð þeim einstaka árangri að verða öll NBA meistarar á síðustu sextán árum.

Houston vann tvöfalt árin 1994-95 með Hakeem Olajuwon í fararbroddi.

San Antonio hefur unnið alla fjóra titla sína síðan Tim Duncan kom inn í deildina árin 1999, 2003, 2005 og 2007.

Þríhyrningnum var svo lokað í fyrra þegar Dallas vann loks sinn fyrsta titil.

Ástæðan fyrir því að við fórum að skrifa um Texas var annars sú að að okkar mati eru tveir bestu þjálfarar NBA deildarinnar í Texas. Það eru Gregg Popovich hjá Spurs og Rick Carlisle hjá meisturum Dallas. Þér er velkomið að hafa aðrar skoðanir á þessu en þessi er okkar.

Gregg Popovich hefur náð lygilegum árangri með San Antonio síðan hann tók við þjálfun þess árið 1996 og hefur setið lengur í þjálfarastólnum en nokkur annar í NBA eftir að Jerry Sloan hætti.

Gengi Spurs þessi ár hefur verið með því besta sem sést hefur í sögunni. Hann hefur unnið 50 leiki eða meira á hverju einasta ári síðan árið 1997 ef verkbannsárið ´99 er undanskilið.

Það ár var reyndar eitt besta tímabil Spurs í sögunni (37 sigrar -13 töp = 74%) og endaði á titli eins og flestir muna.

Rick Carlisle hefur á sama hátt gert fátt annað en að vinna körfuboltaleiki síðan hann byrjaði að þjálfa í NBA.

Hann náði fínum árangri með Detroit Pistons og var valinn þjálfari ársins, átti svo erfitt uppdráttar hjá Indiana þar sem hann var með tóma vitleysinga í liðinu en hefur svo náð prýðilegum árangri síðan hann kom til Dallas.

Það var ekki síst fyrir tilstilli Carlisle sem Dallas náði að landa titlinum síðasta sumar og hann heldur bara áfram að klífa metorðastigann.

Eitthvað segir okkur að hann eigi eftir að ná sér í fleiri dollur áður en hann hættir að þjálfa.

Það skemmir svo ekki fyrir að hann er sómapiltur og heiðursmaður með gott orðspor. Ekki alveg jafn hrjúfur og kollegi hans Popovich, sem á það til að reyna að græta fjölmiðlamenn með eitraðir kaldhæðni sinni og stríðssvægi.

Þeir eru glæsileg eintök þessir tveir.