Thursday, January 19, 2012
Lesendur NBA Ísland styrkja Barnaspítala Hringsins
Eins og þið munið vorum við hér á NBA Ísland að selja boli á síðustu vikum ársins 2011.
Tilgangurinn með bolasölunni var ekki aðeins að klæða lesendur síðunnar í falleg föt, heldur lofuðum við að allur hagnaður af bolasölunni færi í gott málefni.
Við tókum þá ákvörðun fyrir jólin að Barnaspítali Hringsins myndi fá að njóta góðs af þessum krónum sem söfnuðust í bolasölunni og nú höfum við komið þeim til skila.
Í stað þess að fara og versla fyrir jólin ákváðum við að bíða fram að útsölum í janúar og óhætt er að segja að það hafi margborgað sig. Keyptir voru tveir stórir kassar af kubbum fyrir mismunandi aldurshópa, stærðarinnar Playmo-spítali og fjórar DVD myndir með fjölbreyttu barnaefni.
NBA Ísland fékk mjög góðar móttökur á Barnaspítalanum. Það var hún Gróa Gunnarsdóttir leikskólakennari sem tók við gjöfunum og skilar hún þakklæti til rausnarlegra lesenda NBA Ísland sem lögðu sitt af mörkum í þessu skemmtilega verkefni.
NBA Ísland þakkar þeim lesendum sem keyptu boli kærlega fyrir þáttökuna. Framlag ykkar skiptir heldur betur máli og á vonandi eftir að gleðja mörg börn í framtíðinni.