Tuesday, January 10, 2012
Fjörutíu ár frá lengstu sigurgöngu sögunnar
Um þessar mundir eru 40 ár síðan Los Angeles Lakers setti met með því að vinna 33 deildarleiki í röð.
Þetta er ekki bara lengsta sigurganga í sögu NBA, heldur sú lengsta í öllum stóru atvinnudeildunum í Bandaríkjunum.
Það var 9. janúar 1972 sem Lakers-liðið tapaði loksins eftir að hafa verið á sigurgöngu í tvo mánuði.
Lakers tapaði þá fyrir meisturum Milwaukee Bucks sem keyrðir voru áfram af þeim Kareem-Abdul Jabbar og Oscar Robertson. Þetta Lakers-lið er af sumum talið það besta í sögu félagsins, enda var þar valinn maður í hverju rúmi. Jerry West, Wilt Chamberlain, Gail Goodrich voru helstu stjörnur liðsins, en þar voru líka menn eins og Pat Riley sem síðar átti eftir að gera Lakers að meisturum sem þjálfari.
Það var nokkuð kaldhæðnislegt að loksins þegar Lakers-liðið undir forystu Jerry West náði að verða meistari, var það þjálfað af Boston manni, Bill Sharman. Sharman var fjórfaldur NBA meistari sem leikmaður hjá Boston og hann innleiddi nýja hugmyndafræði hjá Lakers. Helst munaði þar um að hann fékk Wilt til að kaupa það að einbeita sér að varnarleiknum.
Þegar tímabilið var nýbyrjað urðu miklar breytingar á liði Lakers, því þá ákvað goðsögnin Elgin Baylor að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla. Um leið og Baylor hætti byrjaði liðið að vinna hvern leikinn á fætur öðrum.
Menn flugu ekki með einkaflugvélum í þá daga heldur þurftu að sætta sig við að troða löngum löppunum í þröng sæti á almennu farrími flug eftir flug. Þá spiluðu menn líka oft þrjá daga í röð eins og þeir gera nú til að spara tíma eftir verkbannið. Lakers spiluðu fjórum sinnum þrjú kvöld í röð á 33 leikja sigurgöngunni.
Það þarf svo vart að taka fram að Lakers urðu meistarar árið sem þeir tóku þessa metrispu sína, en þeir þurftu svo að bíða í nokkur ár eftir næsta titli, því menn eins og Wilt og West voru komnir á aldur þegar þetta var.
Sannarlega ótrúlegt met, sem óvíst er að verði nokkru sinni slegið.