Thursday, November 3, 2011
Það er alltaf gleði á KR-KEF
KR slapp með skrekkinn á heimavelli sínum í kvöld. Var með leikinn við Keflavík í hendi sér, reyndi að tapa, en það tókst ekki. Næst-frægasti Stevie G á Íslandi reyndi að fylla skarð Arnars Freys, sem verður klár í slaginn aftur eftir helgi.
Keflvíkingar ætla að reyna að pönkast í Nonna Norðdal og fá hann inn aftur eftir áramót. Hann er búinn að fara oft í gólfið í gegn um tíðina, líklega oftar en flestir, en svona toppmenn eiga ekki að hætta á unglingsaldri. Keflavík hefði líka geta notað Nonna í kvöld. Gormurinn David Tairu á ekki að hirða 5 sóknarfráköst leik eftir leik. Sérð hann hirða eitt þeirra á myndinni hér fyrir ofan. Hann er líklega enn á uppleið.
Emil Þór hatar ekki að fá skurðina í andlitið, en lætur það ekki á sig fá. Það er töggur í honum eins og KR-liðinu. Maður titraði ekkert af ótta þegar maður skoðaði KR-hópinn fyrir mót, en þeir standa sig.
Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með Magnúsi Gunnarssyni spila körfubolta. Svægið er yfirgengilegt. Smitaðist þó ekki í félaga hans Charles Parker, sem ætla mætti að væri neyðarkarl © Keflavíkurliðsins. Hann sýndi það ekki í þessum leik. Stóri maðurinn þeirra svalt dálítið. Fór reyndar ekkert sérstaklega með þá mola sem hann fékk inn á borð til sín, en það lagast kannski þegar Arnar Freyr kemur aftur.
KR-Keflavík er einfaldlega prógramm sem klikkar ekki. Það var því upplagt fyrir Vísismenn að prófa tilraunaútsendingu frá þessum leik. Það sem meira er, er hægt að horfa á leikinn þegar manni hentar á vefnum eftir á, sem er flott þjónusta. Vísismenn ætla að gera meira af þessu á næstunni og er það einstaklega jákvætt.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Keflavík
,
KR