Saturday, February 12, 2011























Við erum enn að velta okkur upp úr uppsögn Jerry Sloan í gær. Svo stór tíðindi voru þetta að meira að segja risaslagur Celtics og Lakers (og metið hans Ray Allen) féll í skuggann. Það gerist ekki á hverjum degi að maður eins og Sloan taki sig til og hætti bara sí svona.

Sumir eru enn að velta því fyrir sér hvað gerðist þarna í Utah á síðustu tveimur sólahringum. Við erum komin með það á hreint og getum útskýrt það hér með blöndu af staðreyndum og okkar kenningum (sem eru auðvitað staðreyndir út af fyrir sig).

Samsæriskenningarnar fóru strax af stað eftir að ljóst var að Sloan ætlaði að hætta. Blóraböggullinn var Deron Williams, ekki síst af því þeir hnakkrifust kvöldið sem Utah lá fyrir Chicago Bulls í því sem átti eftir að verða síðasti leikur Sloan hjá Jazz.

Williams er spilar stóra rullu í því að Sloan er að hætta núna, en það er ekki honum að kenna. Williams er þrjóskur eins og Sloan og hatar að tapa. Og hann hefur sínar hugmyndir um hvernig á að stýra liðinu. Ekki endilega þær sömu og Sloan. Þetta á við nokkra aðra leikmenn hjá Jazz.

Sloan hefur oft og mörgu sinnum tekið heiftarlegar rimmur við leikmenn sína í gegn um tíðina. Skemmst er að minnast rifrildanna sem hann átti við Karl Malone á sínum tíma, en Malone var nú ekki alltaf auðveldasti maðurinn í umgengni. Það jafnaði sig venjulega fljótlega, ekki síst vegna afskipta Larry heitins Miller eiganda félagsins.

En það er af sem áður var. Sloan er orðinn 68 ára gamall og nærri hálf öld í kring um atvinnumennsku og óguðlegt magn af sígarettum og áfengi (á sínum tíma) er farið að taka sinn toll á gamla manninn. Hann fann það með öðrum orðum að hann nennti ekki þessum slag. Hafði ekki orku í hann.

Hingað til hefur Jerry alltaf bent óþekkum leikmönnum á þá einföldu staðreynd að það eru yfirgnæfandi líkur á því að hann eigi eftir að verða lengur hjá félaginu en þeir - og því sé þeim hollara að gera eins og hann segir eða finna sér annað að gera.

Við höfum séð það á Sloan í viðtölum í vetur að hann virkaði dálítið þreyttur og argur. Liðinu hefur ekki gengið vel og Williams hefur átt það til að fara í fýlu. Hefur látið orð falla í viðtölum sem voru pen gagnrýni á þjálfarann.

Það er hundleiðinlegt að horfa á eftir Sloan, það er bara þannig, en þegar allt er tekið með í reikninginn er líklega fínt mál að hann fái einhver ár til að njóta lífsins í einhverju öðru en geðveikinni í NBA. Við höfum ekki oft pælt í því hvað yrði um Utah Jazz ef Sloan hætti. Nú er endanlega komið nýtt tímabil í sögu félagsins. Stockton og Malone hættir, Larry Miller dáinn og Sloan (og Phil Johnson) hættir. Við reiknuðum með að fyrr frysi í helvíti en Sloan hætti að þjálfa Jazz svona upp úr þurru, en þetta er nú orðið að veruleika.

Sloan hefur verið einn besti þjálfari deildarinnar í rúma tvo áratugi en deildin hefur breyst gríðarlega á þeim tíma. Nú fær eftirmaður hans og lærlingur Tyrone Corbin tækifæri til að taka við af honum. Maður með svipaðan grunn en allt aðrar áherslur auðvitað. Ógerningur að spá því hvað tekur við.

Það eina sem við vitum er að Deron Williams og félögum hans er hollast að standa sig vel það sem eftir lifir tímabils og á næstu árum - nú þegar þeir eru loksins "lausir við Jerry Sloan."

Nokkrir af þessum leikmönnum verða eflaust fegnir að losna við gamla. Okkur kemur í hug Andrei Kirilenko sem er búinn að hanga í Utah út af Stokkhólms heilkenninu sínu allt of lengi.

Það liggur við að við vonum að Utah drulli á sig eftir að Jerry fór. Yrði gott á þessa krakka vitleysinga. Svona erum við af gamla skólanum og svona eru tvær hliðar á öllum málum.

Eitthvað segir okkur þó að þetta félag eigi aldrei eftir að toppa þann stöðugleika og velgengni sem það hefur notið frá fyrsta degi undir stjórn Jerry Sloan.