Thursday, February 10, 2011
Takk fyrir okkur Jerry Sloan
Mikið djöfull er skrítið að Jerry Sloan skuli vera hættur að þjálfa Utah Jazz eftir 26 ár hjá félaginu.
Ákvað óvænt að hætta í gærkvöldi og aðstoðarmaður hans Phil Johnson ákvað að hætta um leið. Innanbúðarmaðurinn Tyrone Corbin tekur við þjálfun liðsins í staðinn.
Uppi eru ýmsar getgátur um tilurð uppsagnar Sloan en við tippum á að það hafi 40% með það að gera að karlinn er orðinn of gamall í þetta og 60% séu uppreisn hjá leikmönnum liðsins.
Deron Williams á ekki von á góðu ef satt reynist að hann hafi gert sitt til að bola Sloan í burtu, þó það hljómi reyndar ótrúlega.
Við höfum af og til verið að telja upp ótrúlega tölfræði Sloan sem þjálfara og nennum ekki að gera það aftur. Það sem okkur þykir standa upp úr er það risastóra skarð sem Jerry skilur eftir sig í deildinni. Hann á engan sinn líkan, hvorki sem þjálfari né persóna.
Dálítið sérstakt að hann hætti án þess að hafa nokkru sinni verið valinn þjálfari ársins. Báðir aðalþjálfarar Utah Jazz sem voru á undan honum hlutu þá nafnbót, en náðu ekki broti af þeim árangri sem Jerry náði. Var einu sinni með neikvætt vinningshlutfall á 23 árum sem aðalþjálfari, sem er bara fáránlegt.
Fari það í helvíti, við vorum ekki alveg tilbúin í að þurfa að skrifa minningargrein um Jerry Sloan núna. Eigum örugglega eftir að skrifa meira um karlfauskinn síðar.
Gangi þér vel, Jerry.