Sunday, February 13, 2011
Orminn í Elítuna
Forráðamenn Detroit Pistons hafa ákveðið að hengja treyjuna hans Dennis Rodman upp í rjáfur hjá sér og það kunnum við vel að meta.
Þeir hefðu reyndar mátt vera löngu búnir að þessu. Vel við hæfi að athöfnin fari fram 1. apríl næstkomandi. Rodman var alltaf lygilegur leikmaður.
Eitthvað gæti biðin orðið lengri eftir því að sjá Rodman í heiðurshöllinni.
Hegðun hans og framkoma innan sem utan vallar var oft ekki beint til fyrirmyndar og það kemur til með að standa í elítunni í einhverja stund.
Við sjáum þó ekki að Rodman verði haldið frá heiðurshöllinni mjög lengi.
Rodman er líklega besti frákastari í sögu NBA deildarinnar, átti sér engan líkan í varnarleiknum og hafði frábæran leikskilning.
Honum þótti líka gaman að klæða sig í kjóla og brjóta agareglur félaganna sem hann spilaði með, en hann var alltaf tilbúinn í slaginn þegar flautað var til leiks og vann fimm meistaratitla á skrautlegum ferlinum.
Það er fullt af fólki í heiðurshöllinni sem hefur afrekað mun minna en Rodman. Inn með hann og það strax.