Monday, December 6, 2010

Það er af sem áður var í körfubolta


Það er ekki langt síðan leikur milli Detroit Pistons og Cleveland Cavaliers var eitthvað sem enginn mátti missa af.

Hlutirnir eru fljótir að breytast í NBA deildinni og lukkan skiptir um rekkjunauta þegar henni sýnist.

Það er eins og það hafi gerst í gær þegar þessi lið mættust í úrslitum Austurdeildar og LeBron James bauð upp á einn eftirminnilegasta leik í sögu úrslitakeppninnar.

Skoraði 48 stig í sigri Cavs í Detroit. Skoraði 25 síðustu stig liðsins. Stimplaði sig endanlega inn þarna sem últra-mega-stjarna.

Þarna voru þessi lið í elítunni. Detroit hrundi eftir þetta og nú er Cleveland komið í sama gæðaflokk.

Í dag er leikur milli þessara liða álíka sexí og salernið á Múlakaffi á Þorláksmessu.

Við höfum áður skammast yfir Joe Dumars og Detroit-liðinu og líklega er engu við það að bæta. Það er bara svo átakanlegt að horfa á neðri helminginn af Austurdeildinni. Ef þessi lið væru í Kattholti, væri búið að svæfa þau. 

Toronto væri inni í úrslitakeppninni ef hún byrjaði í dag og það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það! Munurinn á neðsta liðinu og liðinu í sjötta, sjöunda eða áttunda sæti er lítill sem enginn. Menn þurfa aðeins að fara að pappíra sig þarna í austrinu.