Sunday, December 19, 2010
Af innmat og álitlegri tölfræði
Það ætti að vera löngu ljóst að við fáum ekki nóg af Blake Griffin hérna á NBA Ísland. Höfum á tilfinningunni að lesendur hafi líka gaman af nýliðanum hrikalega hjá LA Clippers.
Griffin veit fátt skemmtilegra en að troða boltanum mjög fast í andlitið á fólki sem er að þvælast fyrir honum í teignum.
Hann hefur líka gefið sagnorðinu "slátra" alveg nýja merkingu eftir að hann tróð yfir hinn rússneska Mozgov hjá Knicks forðum (sjá mynd).
Það var ekki beint troðsla, en upp fór Griffin og það svo hátt að hann nuddaði þessum líkamshluta sem kenndur er við innmat úr sauðfé í andlitið á andstæðingi sínum.
En Griffin er ekki bara háloftafugl og troðari. Það vill nefnilega svo til að síðan í umræddum leik gegn New York þann 20. nóvember síðastliðinn, hefur Griffin verið með tvöfalda tvennu í hverjum einasta leik. Það eru fjórtán tvöfaldar tvennur í röð.
Ekki bara það, heldur hefur Griffin verið með að minnsta kosti 20 stig og 15 fráköst í þremur síðustu leikjum sínum og er aðeins fimmti nýliðinn á síðustu 35 árum til að skila þremur slíkum í röð. Kíktu endilega á leikjalistann hans Griffin og haltu áfram að fylgjast með pilti. Það er ekkert leiðinlegt.
Hér fyrir neðan getur þú svo rifjað upp troðsýninguna hans Griffin gegn New York fyrir mánuði. Svona gaurar koma ekki inn í deildina á hverjum degi. Kemp-Shaq-Amare-Griffin osfv.