Sunday, November 28, 2010

Fyrrum Miami-menn spila körfubolta


Þetta er hann Dorell Wright hjá Golden State. Var hjá Miami fyrstu sex árin sín í deildinni en var látinn fara í sumar.

Í 211 leikjum með Miami náði Wright að skora 20 stig eða meira fjórum sinnum.

Hann er nú búinn að spila 17 leiki með Golden State og hefur þegar skorað 20+ þrisvar sinnum. Er reyndar ekki að hitta sérstaklega vel úr skotunum sínum.

Þangað til í nótt. Þegar hann setti félagsmet hjá Warriors með því að setja níu þrista úr tólf tilraunum.

Það er ansi merkilegt þegar haft er í huga að stórskyttan Chris Mullin náði aldrei að afreka þetta á ferli sínum með liðinu. Og í þá daga voru Warriors-menn nú ekkert að hata að skora 130 stigin leik eftir leik.

Reyndar er kötturinn hans Chris Mullin líklega betri skytta en Dorell Wright alla jafna, en svona er körfuboltinn. Við vitum aldrei hvað gerist næst, nema að Greg Oden og Andrew Bynum verða örugglega meiddir þegar það gerist.

Dálítið skrítið að sjá piltana sem Miami lét róa í sumar vera að gera svona fína hluti með nýju liðunum sínum. Michael Beasley fer auðvitað hamförum hjá Minnesota þessa dagana og svo setur Wright 30 stig í nótt.

Sólstrandargæjarnir hittu til að mynda úr 33% skota sinna í tapi gegn Dallas í nótt. Enginn byrjunarliðsmaður setti þrist í leiknum. Ætli Wright og Beasley hefðu getað hjálpað?