Sunday, July 18, 2010

Póstkassinn


Það er ekki auðvelt verkefni fyrir þessa ritstjórn að setjast niður viku seinna og ætla að ná utan um eitt stærsta mál sinnar tegundar í sögu NBA deildarinnar - Sirkusinn í kring um LeBron James og Samningasumarið Mikla 2010.

Ritstjórnin hefur verið á ferðalagi eins og þið vitið og því höfum við enn ekki tæklað málið. Það hefði verið mun ákjósanlegra að skrifa eitthvað um þetta strax, en því varð ekki við komið. Það er kannski eins gott. Eigandi Cleveland Cavaliers gæti bent á ókostina við að senda frá sér yfirlýsingar um leið og óveður hefur gengið yfir.

Það er samt drullu erfitt að keyra upp anda til að skrifa um þetta eftir smá frí, en þó það verði kannski enginn rjómi, getum við auðvitað ekki skorast undan.

Áður en við hellum okkur í að upplifa aftur fárviðrið sem gekk yfir deildina á dögunum, verðum við að koma á framfæri þakklæti til þeirra sem hafa sent okkur tölvupóst meðan við vorum í fríinu. Það er frábært að heyra frá ykkur og þessir póstar eru ríkuleg laun okkar fyrir vinnu vetrarins.

Það er greinilegt að NBA Ísland hefur stytt mörgum stundirnar frá því vefurinn hóf göngu sína í haust og líklega þótti okkur vænst um að heyra frá fólki sem sagði vefinn hafa endurvakið áhuga þess á NBA körfuboltanum. Það er einmitt einn helsti tilgangur þessarar síðu og gott að heyra að þessi viðleitni skuli falla í ljúfan jarðveg.

Nokkrir lesendur sögðust illa haldnir af þunglyndi skömmu eftir að við létum af daglegum skrifum hérna um daginn og það er auðvitað miður. Þetta fólk skiljum við reyndar mjög vel, sumrin geta verið erfiður tími, eins dásamleg eins og þau eru nú.

Svo finnast lesendur sem sýna velþóknun sína á frumlegan hátt eins og sá sem stofnaði þessa skemmtilegu Facebook-grúppu. Þetta fékk okkur til að íhuga að tala um okkur í þriðju persónu í smá stund.

Við hvetjum ykkur því enn og aftur til að halda áfram að láta í ykkur heyra á netfangið nbaisland (hjá) gmail.com um hvað sem ykkur dettur í hug, það er alltaf gaman að heyra frá ykkur og eflir okkur í ritandanum.

Gleymið heldur ekki að segja vinum ykkar frá NBA Ísland. Það má sannarlega deila um það hvort atburðir síðustu daga í NBA séu sniðugir eða ekki, en það breytir því ekki að línurnar eru lagðar fyrir epískan NBA vetur 2010-11.


Nú verða allir að fylgjast með. Líka rækjusamlokurnar og "ég hætti nú að fylgjast með NBA þegar Jordan hætti" -grátkórinn.