Tuesday, March 16, 2010

Borgarskyttan Dúfa


NBA Ísland lætur sig ekki vanta á völlinn í Iceland Express deildinni svona þegar vorar. Sáum frábæran leik KR og Keflavíkur í vesturbænum í gærkvöld.

Ótrúlegur viðsnúningur hjá Kef í síðari hálfleik en um leið klaufalegt hjá heimamönnum að missa þetta niður eftir að hafa sjálfir rænt Stjörnuna með svipuðum hætti á dögunum.

Við mættum aðallega til að sjá okkar man LePavel. Segir sína sögu um þann pilt að hann hafi valdið vonbrigðum þrátt fyrir að skila enn einni þrennunni.

Þú ert vafalítið að velta því fyrir þér hver hún er þessi lukkulega kona með verðlaunagripina hérna á myndinni.

Þetta er hún Dúfa Grímsdóttir frá Miðfossi í Andakílshreppi  en hún stal senunni í Borgarskotinu í DHL höllinni í gær. Sett´ann í spjaldið og ofan í frá miðju og vakti gríðarlega lukku.

Dúfa er mikill KR-ingur og ærðist af fögnuði þegar hún komst að því að hún hefði unnið ferð fyrir einn til Gdańsk aðra leið.

Aðspurð sagðist hún hafa fært formanni körfuknattleiksdeildar KR vinninginn gegn því að hann laumaði honum ofan í töskuna hans Tommy Johnson.

"Ég get ekki verið að skottast til Póllands svona rétt fyrir sauðburð," sagði Dúfa í samtali við NBA Ísland. "Það eru aðrir sem eiga þangað mun brýnna erindi."