Monday, February 1, 2010
Vince gengur upp og ofan að hitta körfuboltanum ofan í körfuna
Eftir að hafa flækt málin of mikið og hent þremur færslum sem við vorum búin að skrifa um afreksverk Vince Carter með Orlando í janúar - ákváðum við að eftirfarandi lína væri nóg.
Carter var með 8,7 stig að meðaltali í janúar og 28% skotnýtingu. Er að vísu eitthvað meiddur, en samt.
Kallaðu það hvað sem þú vilt. Þetta heitir að vera með úrgang upp á herðablöð. Og það er enginn að tala um þetta! Nema auðvitað NBA Ísland. Hér er hvert tækifæri nýtt til að vera með leiðindi.
Það er eins og þetta sé bara að versna. Nýtingin hans í síðustu þremur leikjum: 5 af 28. Spurning hvenær er bara betra að fá sér sæti á bekknum og láta sárin gróa þar.
Eins og við sögðum fyrir nokkrum dögum. Það er eitthvað við Orlando sem fer óstjórnlega í taugarnar á okkur. Í haust virkaði Orlando á okkur sem liðið með mestu eða næst mestu breiddina í NBA. Í dag er þetta bara... kjánalegt.
Það verður reyndar ekki tekið af þessu liði að það heldur sæmilega sjó þrátt fyrir öldugang, en við sjáum þetta lið bara ekki sem kontender. Við vorum ekki sannfærð þegar Orlando fékk Carter í sínar raðir og enn sem komið er, hefur ekkert fengið okkur ofan af því.
Einhver hefði haldið að Carter ætti eftir að njóta sín betur en nokkru sinni þegar hann var loksins kominn með sæmilegan mannskap í kring um sig - fengi loksins smá pláss og fleiri opin skot. En hann var með nákvæmlega sömu 40% skotnýtinguna í nóvember og desember áður en hann hrundi svo í klósettið í janúar.
Það verður áhugavert hvort og þá hvernig Stan Van Gundy nær að púsla þessu liði saman fyrir átökin í vor, en eitthvað segir okkur að allir þessir flottu bitar sem fyrir eru í liðinu séu bara ekki rétta blandan.