Sunday, February 7, 2010

Rauðkál


Það var ekki eins mikill glans á viðureign Utah og Denver eins og til stóð í gær. Chauncey Billups ákvað að taka sér frí frá leiknum vegna ökklameiðsla eins og Carmelo Anthony.  Sigur Utah var aldrei í hættu í gær en Denver vann einvígi liðanna í deildinni 3-1 í vetur og kvíðir engu að mæta Jazz í úrslitakeppni ef til þess kæmi.

Jazz er samt búið að vinna 8 í röð og 12 af 13. Af hverju spyrðu? Af því mikið af þessu er heimaleikir og af því Andrei Kirilenko er búinn að spila eins og andsetinn frá því við drulluðum yfir hann hérna fyrir nokkru.

Ekki hlæja, en það er rosalega erfitt að vinna Utah í Salt Lake City ef Kirilenko spilar eins og hann hefur gert síðan hann var settur í byrjunarliðið fyrir einhverjum 10 leikjum síðan.

Jazz þarf að sætta sig við að fá sama og ekkert fyrir Carlos Boozer og losa sig við hann núna! Millsap er miklu betri kostur þegar allt er talið. Skipta Boozer út fyrir skotblokkara og við erum að dansa.

LeBron James fór hrikalega illa með okkur í gær. Hann var kominn með 31 stig gegn New York í byrjun annars leikhluta, en slakaði svo á og skilaði ekki nema 47 stigum, 8 fráköstum og 8 stoðsendingum. Ekki nema.

Kláraði svo leikinn í lokin þegar Cleveland var búið að hleypa Knicks aftur inn í hann með kæruleysi. Cleveland með 11 sigra í röð og spilar best allra liða í deildinni um þessar mundir.

Og LeBron er ekkert að hata að spila á móti Knicks. Búinn að gera dálítið af þessu í vetur. Byrja rosalega en fara svo bara að leika sér. Sýnir hvað honum gæti ekki verið meira sama um einstaklingsmet og tölfræði.

Kobe tók sér frí frá því að spila með Lakers í fyrsta sinn í 235 leikjum, en það kom ekki í veg fyrir fyrsta sigur hans manna í Portland síðan 2005.

Brandon Roy var í jakkafötunum hjá Blazers eins og svo oft áður. Hann þarf ekki að horfa lengur en til Kobe til að sjá hvaða fórnir þarf að færa til að vera alvöru súperstjarna. Þú bara ert klár í alla leiki og meiðist ekki. 

Þið megið svo minna okkur á að senda Russell Westbrook blómvönd fyrir 21/7/10/8 leikinn hans. Ú je.