Friday, February 5, 2010
Gleði í Borg Engla
Það er rétt að nota þetta tækifæri og óska NBA liðunum í Los Angeles til hamingju með daginn.
Phil Jackson tók í gær fram úr Pat Riley og er orðinn sigursælasti þjálfari í sögu Lakers. Þá er átt við að Jackson sé sá þjálfari sem unnið hefur flesta sigra með Lakers á ferlinum eða 534. Tekur þar fram úr sjálfum Pat Riley.
Svo er jú ekkert að því að skila fjórum titlum á áratug svona sem bónus.
Þá er hamingjan ekki síðri í rauða helmingi Los Angeles í kvöld, því Mike Dunleavy er hættur/rekinn sem þjálfari LA Clippers. Þetta eru bestu tíðindi í sögu Clippers í mörg ár - betri en þegar liðið landaði réttinum til að velja Blake Griffin númer eitt í nýliðavalinu síðasta sumar.
Slæmu tíðindin eru reyndar þau að Dunleavy situr áfram í stöðu framkvæmdastjóra hjá félaginu og hefur því enn full tök á að leggja liðið enn frekar í rúst.
Eins og bent hefur verið á áður, er hreint út sagt ótrúlegt að Dunleavy hafi verið jafn lengi hjá Clippers og raun ber vitni. Nema þér finnist auðvitað töff að hafa þjálfara sem er með 39% vinningshlutfall og skilar þér einu sinni í úrslitakeppnina á sex árum. Já við segjum sex árum, af því Dunleavy er þegar búinn að sjá til þess að Clippers komist ekki í úrslitakeppnina næsta vor eftir 50 leiki eða svo.