Saturday, January 16, 2010
Zo fær prik frá NBA Ísland
NBA deildin, í samstarfi við leikmannasamtökin, hefur ákveðið að gefa milljón dollara til hjálparstarfsins á hamfarasvæðunum á Haiti. Þetta verður í gegn um UNICEF.
Það er ágætt og ekki veitir af. Talað er um að þrjár milljónir manna hafi orðið fyrir barðið á hamförunum. 300-500 þúsund hafi misst heimili sín.
Einhver hafði eftir Rauða Krossinum að tala látinna væri í kring um 50 þúsund, en heimamenn óttast að sú tala sé nær 100 þúsund.
Samuel Dalembert, miðherji Philadelphia sem á ættir að rekja til Haiti, gengur skrefinu lengra og gefur í kvöld 100 þúsund dollara til UNICEF og mun um leið hvetja áhorfendur til að leggja sitt af mörkum.
Hann ætlar svo að bæta við framlag sitt sömu upphæð og safnast í Wachovia Center í kvöld.
Það sem er kannski flottast af þessu öllu er að Alonzo Mourning, fyrrum leikmaður Miami Heat, er hvorki meira né minna en mættur niður til Haiti þar sem hann ætlar að taka til hendinni sjálfur. Er líka að áforma söfnun með fyrrum liðsfélaga sínum Dwyane Wade.
Og ÞAÐ þykir okkur svalt.