Wednesday, January 20, 2010
Meira af launamálum
Hérna er yfirlit yfir launahæstu leikmenn NBA deildarinnar og skoðanir harðbrjósta ritstjórnar NBA Ísland þar á. Við áttuðum okkur á því þegar við vorum búin að teikna þetta upp, að stundum segja myndir í raun og veru meira en þúsund orð.
Það er líka dásamlegt að geta slengt einhverju svona fram í blindum hroka og yfirlæti - án allrar ábyrgðar eða rökstuðnings. Aaaah. Nú líður okkur eins og fólkinu sem skilur eftir gremjublandnar athugasemdir á moggablogginu og eyjunni þegar því líður illa inni í sér.
Ef þessi listi er skoðaður aðeins betur kemur í ljós að minnst 17 af 30 launahæstu leikmönnum deildarinnar eru á of háum launum.
Þessi of háu laun eru svo flokkuð frá því að vera of há (Allen, Lewis, Stoudemire osfv), fáránlega há (Shaq og Yao) upp í Jesús, María og Jósep, af hverju er maðurinn sem gerði þennan samning ekki í grjótinu? -samninga frá helvíti (McGrady, Jermaine O´Neal, Michael Redd osfv.)
Að lokum eru svo menn sem eru í raun og veru að vinna fyrir kaupinu sínu og ættu sannarlega að vera ofar á þessum lista af því þeir eru einfaldlega í hóp allra bestu leikmanna heims. ( LeBron, Wade osfv).
Jú, svo eru reyndar nokkur nöfn þarna sem eru ólituð. Kobe og Duncan ráða laununum sínum sjálfir af því þeir unnu flesta titla sem í boði voru á síðasta áratug, Dirk af því hann er með svo geggjað hár og Pierce af því hann er einn af þremur vanmetnustu leikmönnum deildarinnar osfv.
Takið eftir að Dwight Howard, sem hefur verið með skotskífu í grillinu hjá okkur í allan vetur, sleppur við rauða litinn í þessari samantekt. Það þykir okkur dálítið merkilegt. Kannski til marks um að fyrirbærið miðherji er svo nálægt því að heyra sögunni til.