Monday, December 28, 2009

Vinny Del Negro verður trúlega ekki körfuboltaþjálfari bráðum


Mikið óskaplega er örugglega lítið gaman að vera Vinny Del Negro núna.

ESPN hefur lekið út frétt um það sem alla grunaði. Að Chicago sé bara að fresta því að reka hann af því félaginu gengur illa að finna eftirmann hans.

Auðvitað eru allir undir sólinni orðaðir við djobbið, en enginn ku þó hafa verið spurður formlega nema Doug Collins - sem eins og flestir vita þjálfaði liðið þegar Michael Jordan var að stíga sín fyrstu skref með Bulls fyrir aldarfjórðungi síðan.

Auðvitað vildi Collins ekki djobbið, sem hann fékk ekki þrátt fyrir augljósan áhuga sinn þegar Del Negro var ráðinn á sínum tíma.

Collins á líka að halda áfram í sjónvarpinu, þar sem hann er að okkar mati besti co-arinn í bransanum.

Avery Johnson, Byron Scott, Lawrence Frank, Sam Mitchell, Jeff Van Gundy - nefndu þá - þeir hafa allir verið orðaðir við stöðuna hjá Bulls.


Eitt er víst. Það þarf að finna einhvern almennilegan þjálfara fyrir þessa pjakka þarna í Chicago. Þeir eru að spila langt undir væntingum. Við hefðum meira að segja áhuga á djobbinu ef við værum ekki öll á kafi í að skrifa hérna á vinsælasta vefsvæði í Skandinavíu.*

*Ef marka má tölur sem við fengum frá norska fyrirtækinu sem sér um að mæla fylgi Framsóknarflokksins.