Wednesday, March 31, 2010
Meira fyrir bolinn
Eins og valið á verðmætasta leikmanni NBA deildarinnar hafi ekki verið nógu kjánaleg seremónía fyrir.
Nú hafa forráðamenn deildarinnar ákveðið að bolurinn fái eitt af 125 atkvæðum í kjörinu framvegis.
Eitt atkvæði er kannski ekki mikið, en það eykur til muna líkurnar á því að Yao Ming, Allen Iverson og Tracy McGrady fái atkvæði.
Fólk er bara það mikið fífl.
Tuesday, March 30, 2010
Sex tvíhöfðar í apríl á NBA TV
Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að apríldagskráin á NBA TV er kominn hérna inn á síðuna. Þú nálgast hana með því að smella á tengilinn á hægri spássíu síðunnar sem á stendur "Dagskráin á NBA TV" - geimvísindi, we know.
Aðeins of margir leikir með LA Clippers þarna fyrir okkar smekk, en þó Golden State sé líka annálað rusl af liði, kunna menn við flóann amk að skemmta fólki. Svo eru þarna perlur eins og Oklahoma-Denver þann sjöunda.
Þið sjáið líka að það er mikið af tvíhöfðum í boði í apríl eins og venjulega, svo nú er um að gera fyrir þá sem ekki er búið að reka af vinnumarkaðnum að segja starfi sínu lausu og fá sér NBA TV. Lóa, smóa - það er komið vor!
Hroki og hleypidómar
Sveiflurnar í leiknum okkar fagra nú á vormánuðum jafnast á við náttúruhamfarir.
Boston pantaði tvö herbergi í viðbót á Hrafnistu í fyrrakvöld þegar liðið tapaði enn einum leiknum með ógeðslega sannfærandi hætti á heimavelli.
Það voru aðrir Hrafnistukandídatar sem sáum þessa slátrun, nefnilega San Antonio.
Það verður auðveldara með hverjum deginum að veðja á móti Boston.
Mennirnir á myndinni. Kevin Garnett og Tim Duncan, eru formlega orðnir gamalmenni. Sú ískalda staðreynd er ljós í vetur.
Tíminn er tík og það er elli kelling líka.
San Antonio fylgdi eftir þessum frábæra Boston-sigri með því að tapa fyrir New Jersey í kvöld. Það hefur ekkert með það að gera að New Jersey liðið sé rosalega heitt núna. San Antonio var án Manu Ginobili í leiknum (og auðvitað Tony Parker eins og alltaf). Hafirðu séð Manu spila síðustu leiki - veistu hvað við erum að tala um.
Dálítið átakanlegt fyrir lið eins og San Antonio að tapa svona leikjum þegar ljóst er að hvert tap færir liðið nær einvígi við Lakers í fyrstu umferðinni.
Og bara svo þú farir ekki að misskilja eitthvað - þá er New Jersey eitt af lélegustu liðum allra tíma í NBA, alveg sama hvort þetta lið vinnur sjö leiki eða tólf.
Og það þarf einhver að gera körfuboltafélaginu í Minnesota stóran greiða og leggja það niður. Strax.
Eitthvað segir okkur að liðin í efri hluta Vesturdeildarinnar séu því fegin að þurfa ekki að mæta New Orleans í fyrstu umferð. Til dæmis LA Lakers.
Monday, March 29, 2010
Netlimur mánaðarins: Dorell Wright - Miami Heat
Nýjasta gáfnaljósið til að láta myndir af sér og fermingarbróður sínum leka á netið er vandræðagemsinn Dorell Wright hjá Miami Heat.
Þetta var fyndið fyrst, en nú er þetta bara orðið sorglegt og asnalegt.
Það var hinn vel meiddi Greg Oden sem reið á vaðið með fallegri og tja, langri, myndaseríu af sér og við gátum ekki stillt okkur um að setja okkar eigið twist á það.
Þess var svo ekki langt að bíða að George Hill hjá San Antonio apaði þetta eftir honum.
Allt er þá þrennt er og nú hefur Wright bæst í hópinn eins og sjá má hér á myndunum.
Ætli við köllum þennan neyðarlega lið ekki bara Netlim mánaðarins framvegis.
Þvílík sauðnaut!
Vorbragurinn góði
Það hefur verið vorbragur á ansi mörgum leikjum sem við höfum séð undanfarið.
Klárlega vorbragur á leik Orlando og Denver í kvöld.
Vorbragur í NBA er alls ekki sama fyrirbæri og vorbragur í t.d. íslenskri knattspyrnu.
Það er alltaf vorbragur á íslenskri knattspyrnu, sama hvort það er í maí eða október.
NBA vorbragur er það þegar helstu stjörnur liðanna eru búnar á því eftir vítavert álag vetrarins og eru farnar að spara þá litlu orku sem eftir er svo eitthvað verði eftir á tanknum þegar kemur í alvöruna í næsta mánuði.
Stjörnunum líður á þessum tímapunkti eins og verkamönnum sem setjast niður í síðustu pásuna sína klukkan níu að kvöldi eftir að hafa verið að steypa frá því klukkan sjö um morguninn. Narta í kalda pizzu og reyna að safna kröftum fyrir lokasprettinn. Vona að þeir verði komnir í rúmið fyrir klukkan eitt um nóttina - enn eiga eftir að koma nokkrir bílar. En þeir vita að þeir þurfa að mæta aftur í vinnu hálfátta morguninn eftir.
Þetta á við um leikmenn og lið sem geta eitthvað, líkt og Orlando og Denver. Leikmenn og lið sem eru að fara í úrslitakeppnina.
Svo getur líka verið vorbragur á liðunum á hinum enda litrófsins - liðunum sem eru móðgun við orðið rusl (sjá: New Jersey, Minnesota, Washington, LA Clippers etc.).
Leikmenn þessara liða eru alltaf á svipinn eins og þeir séu að leita að meindýraeyði í röðum áhorfenda til að binda enda á þjáningar sínar með kindabyssu. Hafa svipaðan metnað og lífsvilja og keppendurnir í Biggest Loser.
Vorbragur er eitt, en svo eru til menn eins og Vince Carter. Menn sem draga lappirnar inn á völlinn, en haltra svo út af eftir nokkrar sekúndur af því þeir ráku tásuna í og það var svo vont.
Góðir hálsar - leyfið okkur að kynna naglann sem á að gera Orlando að NBA meistara í sumar!
Það sem kórónar vorbraginn er sú staðreynd að öll toppliðin í NBA eru búin að drulla í hárið á sér með einhverjum hætti á síðustu dögum og vikum, nema kannski Cleveland og Orlando (sem bæði hafa verið í meiðslum en hafa breidd til að dekka það).
Öll hin liðin hafa átt stinkera inn á milli. Lakers tekið í kennslustund í OKC, Dallas tapaði nokkrum í röð, Denver án þjálfara, K-Mart og tapar nokkrum leikjum illa, Utah tók rispu en tapar alltaf fyrir skítaliðum inn á milli, Boston og San Antonio taka Hrafnistuna á þetta og Atlanta... er bara Atlanta.
Það verður gaman að sjá hvernig þessi lið koma undan síðustu vikunum á tímabilinu. Nú halda stuðningsmenn bara niðri í sér andanum, vona að liðið þeirra komi á góðu róli inn í úrslitakeppnina og að meiðsladraugurinn sé farinn út að kaupa bjór.
Hvar varst þú þennan dag árið 1990?
Þegar þetta er skrifað eru nákvæmlega 20 ár síðan Michael Jordan átti sinn besta stigaleik á ferlinum þegar hann sallaði 69 stigum á Cleveland Cavaliers. Þú getur rifjað það upp, eða séð það í fyrsta skipti, með því að skoða myndbrotið hér fyrir neðan.
Sunday, March 28, 2010
Saturday, March 27, 2010
Frá gárungunum
"Figuring they both have time on their hands, Greg Oden and
Gilbert Arenas are remaking "Naked Gun."
Tilvitnun: Frank Drucker via Peter Vecsey, NY Post
Myndaútfærsla: NBA Ísland
Friday, March 26, 2010
Körfuboltaleikur drap hross
Bónda nokkrum í Kansas í Bandaríkjunum brá heldur betur í brún í kvöld þegar tólf vetra stóðhryssa hans drapst með dularfullum hætti.
Að sögn bónda var hér um að ræða tamda og hrausta verðlaunahryssu sem hafði verið í fullu fjöri fyrr um daginn.
Við nánari skoðun dýralæknis kom í ljós að merin hafði náð að fylgjast með leik Chicago Bulls og Miami Heat í sjónvarpi á kaffistofu í hesthúsinu.
Mun það hafa verið spilamennska heimamanna í Bulls sem gekk svo ómannúðlega frá dýrinu.
"Aumingja skepnan átti aldrei möguleika eftir fyrsta leikhlutann," sagði dýralæknirinn sem kallaður var til. "Það var dregið fyrir hljóðið svo ekki gat hún dregið fram lífið á lýsingu Kenny og Charles á TNT. Hún þurfti að taka þessa aftanmóðu af körfubolta beint í æð og slíkt er bara of mikið fyrir skepnu sem er bundin á bás," var haft eftir dýralækninum sem íhugar að kæra bóndann fyrir vanrækslu.
"Ég hef starfað sem dýralæknir í fjóra áratugi víða um miðvesturríkin og man reyndar eftir hundræksni sem þurfti að skjóta eftir að hann horfði á Eurovision í þrjú korter samfleytt. Það var þó ekkert í líkingu við þetta. Heilinn í dýrinu var eins og hann hefði verið í örbylgjuofni í klukkutíma."
Vitni segja að bóndinn hafi setið ölvaður inni í bæ og gengið í asnalegar Facebook-grúppur meðan þessi ljóti atburður átti sér stað en það hefur ekki verið staðfest af lögreglu.
Thursday, March 25, 2010
Ný frétt: Ráðherrabréf lekur í fjölmiðla
Ritstjórninni hefur borist harðort bréf sem virðist hafa lekið út í helstu fjölmiðla landsins í kvöld. Það er ekki á hverjum degi sem fjölmiðlar komast með jafn afgerandi hætti inn í atburðarás íslenskra stjórnmála, en hér er á ferðinni mál sem að margra mati varðar við þjóðaröryggi. Smelltu á myndina til að stækka hana, en tekið skal fram að NBA Ísland birtir þetta bréf án allrar ábyrgðar
Wednesday, March 24, 2010
Sælar stelpur, Starfslokasamningurinn hérna!
Þeir eru farnir að kalla hann "Starfslokasamninginn" og það er besta gælunafn sem við höfum heyrt lengi. Líklega það besta síðan "Þúfnalúru-Lamar" datt hérna inn fyrr í vetur.
Skotbakvörðuinn John Salmons er sjaldan talinn á meðal bestu leikmanna deildarinnar í sinni stöðu, en viðsnúningurinn sem orðið hefur á spútnikliði Milwaukee Bucks síðan það fékk hann nánast gefins frá Chicago Bulls hefur verið lygilegur.
Milwaukee er 15-2 síðan skiptin gengu í gegn. Fimmtán fokkíngs tvö!!!
Ástæðan fyrir þessu skemmtilega viðurnefni sem Salmons hefur fengið er sú að þjálfarinn Scott Skiles þáði laun frá Chicago Bulls í tvö ár eftir að honum var sparkað úr þjálfarastólnum þar á aðfangadag forðum.
Hann hefur því haft til hnífs og skeiðar blessaður og segja má að Salmons hafi því reynst hálfgerður jólabónus fyrir Skiles (ofan á alla aurana) og Bucks-liðið.
Æ, já. Og svo er Salmons að skila Bucks 20,5 stigum að meðaltali í þessum 17 leikjum sem hann hefur spilað með liðinu og er að spila sinn besta bolta á ævinni. Amk síðan hann fór hamförum með Bulls gegn Celtics í bestu seríu síðari ára í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í fyrra.
Það er ekki öll vitleysan eins í þessum bransa.
Örvæntu ekki, Anthony Tolliver...
... þú hefur þegar markað spor í sögu NBA. Andlit þitt mun hanga uppi á vegg í herbergjum margra ánægðra barna í framtíðinni. Þetta er það sem við köllum illan ásetning.
Tuesday, March 23, 2010
Af Manu Ginobili og Jeff Hanneman
Það er alltaf gaman að sjá flaggskip nýja og gamla tímans eigast við. Það er sama hvort það er í íþróttum, tónlist eða Útsvari.
Svona eins og þegar ungar og tápmiklar málmsveitir koma upp og eru bornar saman við Slayer.
Manstu t.d. þegar Slipknot kom fram á sjónarsviðið með látum? Þá héldu margir að nýi skólinn væri kominn til að moka þeim gamla í burtu, en raunin varð önnur.
Popparar hafa ekkert í Slayer að gera.
Nú ætlum við ekki að líkja Oklahoma City Thunder við Slipknot. Vonum að það frábæra lið lái lengra. En Thunder hitti sinn Slayer í gærkvöld þegar liðið tók á móti gömlu mönnunum í San Antonio.
Bæði lið voru að spila annað kvöldið í röð og Texas-menn á erfiðum túr. Einhver hefði haldið að ungar og ferskar lappir Oklahoma-manna hefðu haldið betur í æsingnum en skankarnir á Spursurum sem voru nýbúnir að tapa framlengdum naglbít niðri í Georgíu kvöldið áður.
Þetta var fjandi skemmtilegt einvígi með andrúmslofti og ákafa úrslitakeppninnar.
Skemmst er frá því að segja að gömlu hundarnir komust frá leiknum á reynslunni og seiglunni.
Fengu reyndar góða hjálp frá reynslulausum heimamönnum, en þess verður ekki langt að bíða að Thunder verði Spurs of stór biti kvöld eftir kvöld ef svo fer sem horfir.
George "á ég ekki bara að senda þér myndskilaboð" Hill átti frábæran leik hjá Spurs, Manu Ginobili tók sinn vanalega Jeff Hanneman á þetta og var maðurinn á bak við sigurinn í lokin. Tim Duncan er alltaf grunnurinn í öllu sem San Antonio gerir en það er Manu sem sér um grimmdina, klókindin og alla litlu hlutina í krönsinu. Gaurinn er allt í öllu í sóknarleik Spurs þessa dagana.
Svona eins og Richard Jefferson er ekkert í engu hjá liðinu. Jefferson er mesta böst síðari ára í NBA. Það er ekki flóknara. Ef Jefferson hefði skilað 80% af því sem hann átti að skila og Spurs hefði haldið sæmilegri heilsu í vetur, væri liðið í öðru sæti Vesturdeildar og helsta ógn Lakers þeim megin í deildinni.
Hjá Thunder var Kevin Durant í sínu venjulega rugl-formi með 45 stig en segja má að það hafi verið Kongó-lóin Serge Ibaka sem vann sér inn flest prik ritstjórnar í leiknum. Spilaði rosalega vörn á Tim Duncan. Þetta er drengur sem er eins og sniðinn inn í Thunder liðið vegna lengdar sinnar, hraða og íþróttamennsku.
Charley Rosen á Fox rýnir í hér einvígið af sinni valinkunnu fasista-fagmennsku.
Monday, March 22, 2010
Sunday, March 21, 2010
Sælir strákar, Kyle Korver hérna!
Þetta er Kyle Korver. Biblíudrengur og stórskytta. Honum er oft líkt við Ashton Kutcher, eiginmann plastbombunnar Demi Moore. Þeir eru vissulega líkir útlitslega, en þar endar samanburðurinn.
Korver er með hreint fáránlega nýtingu í þriggja stiga skotum í vetur. Leiðir deildina með 57% hittni þegar stutt er eftir af tímabilinu. Það er betri nýting en margir eru með á vítalínunni.
Það hefur aðeins sex sinnum gerst í sögu NBA að leikmaður hafi verið með 50% nýtingu í þriggja stiga skotum (miðað við ákveðinn lágmarks skotafjölda auðvitað) og í helmingi þeirra tilvika var þar um að ræða gamla refinn Steve Kerr.
Tvö af þessum þremur tímabilum hans komu reyndar á árunum 1995-97 þegar þriggja stiga línan var nær en hún var áður og er í dag og allir héldu að þeir væru langskyttur.
Það er ljóst að Korver setur NBA met í næsta mánuði nema hann kólni mjög hratt.
1990 - Steve Kerr 50,7%
1995 - Steve Kerr 52,4%*
1995 - Detlef Schrempf 51,4%*
1996 - Tim Legler 52%*
1996 - Steve Kerr 51,5%*
2007 - Jason Kapono 51,4%
2010? - Kyle Korver 57%
* - 1995-97 - Styttri lína (6,7 metrar í stað 7,23 metra)
Af Kóki, Pepsí-i og Sóda Strími
Við höfum verið spurð mikið af hverju við fjöllum ekkert um háskólaboltann hérna á NBA Ísland. Svarið er einfalt. Við fylgjumst ekkert með háskólaboltanum.
Látum okkur nægja að horfa á þessa pilta spila alvöru körfubolta þegar, og það sem meira er, EF þeir verða almennilegir atvinnumenn í greininni síðar.
Nennum ekki að eyða tíma sem getur farið í að horfa á NBA í að glápa á menn eins og Adam Morrison grenja í háskólaboltanum og skíta svo upp á bak þegar þeir reyna sig með stóru strákunum.
Ætlunin með þessum skrifum er ekki að gera lítið úr áhuga fólks á háskólaboltanum. Alls ekki.
Háskólakeppnin er vissulega spennandi og skemmtileg. Hún höfðar bara ekkert til okkar.
Ætli sé ekki best að nota gos-analógíuna til að útskýra þetta.
NBA deildin er Coca Cola. Bestu leikmennirnir, bestu lið í heimi. The Shit. Fokkar ekkert í því.
Rétt eins og kók. Kók er kók og það er bara ein leið til að gera kók. Eins og kók.
Meira að segja draslið sem er framleitt til að líkjast kóki er kallað kók. Af því það er bara til eitt fyrirbæri sem er kók og það er kók!
Háskólaboltinn er Pepsi. Ódýrari týpan. Mikið umtal og mikið skrum, en aldrei kók.
Það getur vel verið að gríðarlega margir sofi ekki fyrir áhuga á háskólaboltanum, en hann er ekki eins góður og NBA.
Það getur vel verið að Pepsi hafi skrumað sig upp með hjálp fólks eins og Beckham, Jackson og Britney, en Pepsi er alltaf annars flokks.
Úrvalsdeildin á Íslandi er svo í allt öðrum flokki. Hún er Soda Stream.
Klárlega ekki eins góð og kókið, en allt er hey í harðindum.
Það er ódýrara og maður getur lagað það heima og manni þykir vænt um það. Minnir á áhyggjulausa æsku á landsbyggðinni.
Vekur upp þægilega nostalgíu.
Saturday, March 20, 2010
Friday, March 19, 2010
Teiti í titlalausu Toyota höllinni í kvöld
Á föstudagskvöldið, en það er einmitt núna í kvöld, verður Stöð 2 Sport með beina útsendingu frá viðureign Houston Rockets og Boston Celtics.
Leikurinn fer fram í Toyota höllinni (þessari í Texas sem hefur aldrei landað titli - svo þið ruglið henni ekki saman við þessa suður með sjó) og ballið byrjar klukkan hálf eitt eftir miðnætti.
Boston er að reyna að aftra því að menn panti pláss á Hrafnistu fyrir mannskapinn og Houston á í erfiðri baráttu um að komast í áttunda sætið í Vesturdeildinni.
Það verður gaman að fylgjast með einvígi Rajon Rondo og hins snaggaralega Aaron Brooks - menn sem eru ekki metnir að verðleikum nema í hægri endursýningu.
Brooks hefur verið hetjuskapurinn uppmálaður í síðustu leikjum og kláraði m.a. Denver með sigurkörfu í einum besta leik vetrarins á mánudagskvöldið. Hann og Kevin Martin mynda hugsanlega fljótasta bakvarðapar í NBA deildinni, sem eru frábær tíðindi fyrir Boston. Eru heldur ekkert smeykir við að skjóta boltanum blessaðir.
Kíktu á þetta svo þú þurfir ekki að vera eins og leiðinlega pakkið sem reynir að eyðileggja fermingarveisluna á sunnudaginn með því að tala bara um atvinnuleysi, IceSave og myntkörfulán.
Deron Williams spilar, treður og gefur körfubolta þrátt fyrir meiddi
Þetta er leikstjórnandinn Deron Williams hjá Utah Jazz. Tróð yfir Derrick Rose (1), reyndi að troða yfir Jeff Green en fékk villu (2) og tróð svo yfir Al Jefferson (3). Allt þetta á einni viku.
Tognaður á ökkla, með tognaða öxl og illa tognaðan úlnlið. Forðast greinilega kontakt. Hefur gefið 9 stoðsendingar eða meira í hverjum einasta leik í febúar og mars (21 leikur í röð).
Eitthvað segir okkur að hann endurtaki leikinn gegn Phoenix á föstudagskvöld - ef hann kemst í búninginn.
Sumir segja að hann sé besti leikstjórnandi í heimi. En þeir hafa ekki hátt. Tja, ef við teljum Charles Barkley ekki með.
Thursday, March 18, 2010
Wednesday, March 17, 2010
Los Spurs vinnur fleiri körfuboltaleiki
Nú er tæpur mánuður síðan við skrifuðum San Antonio út af sakramentinu. Við værum ekki samkvæm sjálfum okkur ef við fylgdum þessum dauðadómspistli ekki eftir.
Til að gera langa sögu stutta er San Antonio 8-2 síðan við afskrifuðum liðið. Bara búið að tapa naumlega fyrir Houston og Cleveland á útivelli - án Tony Parker.
Manu Ginobili spilar betur með hverri vikunni sem líður. Tölfræðin snarhækkað á öllum sviðum en á sama mínútufjölda. Endalaus snillingur þessi maður.
Nú ætlum við ekkert að breyta spám okkar, en ef Spurs nær i sigur í Orlando í kvöld (miðvikudagskvöld) í seinni leiknum af Flórída back-to-back - er ekki laust við að við förum dálítið hjá okkur. Um að gera að ögra þessum gömlu hundum aðeins.
Tuesday, March 16, 2010
Borgarskyttan Dúfa
NBA Ísland lætur sig ekki vanta á völlinn í Iceland Express deildinni svona þegar vorar. Sáum frábæran leik KR og Keflavíkur í vesturbænum í gærkvöld.
Ótrúlegur viðsnúningur hjá Kef í síðari hálfleik en um leið klaufalegt hjá heimamönnum að missa þetta niður eftir að hafa sjálfir rænt Stjörnuna með svipuðum hætti á dögunum.
Við mættum aðallega til að sjá okkar man LePavel. Segir sína sögu um þann pilt að hann hafi valdið vonbrigðum þrátt fyrir að skila enn einni þrennunni.
Þú ert vafalítið að velta því fyrir þér hver hún er þessi lukkulega kona með verðlaunagripina hérna á myndinni.
Þetta er hún Dúfa Grímsdóttir frá Miðfossi í Andakílshreppi en hún stal senunni í Borgarskotinu í DHL höllinni í gær. Sett´ann í spjaldið og ofan í frá miðju og vakti gríðarlega lukku.
Dúfa er mikill KR-ingur og ærðist af fögnuði þegar hún komst að því að hún hefði unnið ferð fyrir einn til Gdańsk aðra leið.
Aðspurð sagðist hún hafa fært formanni körfuknattleiksdeildar KR vinninginn gegn því að hann laumaði honum ofan í töskuna hans Tommy Johnson.
"Ég get ekki verið að skottast til Póllands svona rétt fyrir sauðburð," sagði Dúfa í samtali við NBA Ísland. "Það eru aðrir sem eiga þangað mun brýnna erindi."
Monday, March 15, 2010
LeBron James er eltihrellir
Chase down blocks er það kallað þegar varnarmenn elta uppi andstæðinga sína í hraðaupphlaupum og verja frá þeim sniðskot.
Þetta hugtak hefur raunar verið til í nokkur ár en það komst ekki í daglegt tal fyrr en fyrir um tveimur árum síðan þegar LeBron James gerði þetta að listgrein og blaðamenn í Cleveland fóru að halda tölfræði yfir þetta.
Hið hljómfagra orð eltihrellir (stalker) hefur gjarnan verið notað til að lýsa mönnum sem gramsa í ruslatunnum og þefa af nærbuxum fræga fólksins en það lýsir ekki síður þessari skemmtilegu iðju James í körfuboltanum.
Hér sjáum við nýlega samantekt með nokkrum af bestu eltihrellum LeBron James.
-Burt með þetta léttmeti!!!
Sunday, March 14, 2010
Cleveland er búið að vinna 52 körfuboltaleiki
Cleveland var fljótast allra liða í 50 sigra í NBA í vetur. Náði í sinn 52. gegn Celtics í kvöld.
Í fyrra var það LA Lakers sem varð fyrst í 50 sigra og árið þar á undan var það Boston. Þú áttar þig á því að liðin lönduðu titlinum þessi ár sem um ræðir.
Cleveland þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að vinna Boston í kvöld. Mikill munur á þessum liðum.
Besti punkturinn í leiknum var án efa G-Ben-ummæli Mark Jackson í lýsingu ESPN.
Hann var að tala um þá furðulegu staðreynd að Antawn Jamison er einhverra hluta vegna aðeins með rétt rúmlega 40% vítanýtingu síðan hann kom til Cleveland.
"Cleveland verður nauðsynlega að endurheimta Shaquille O´Neal úr meiðslum svo hann geti hjálpað Jamison að vinna í vítaskotunum sínum," sagði Jackson alvarlegri röddu.
Ok, kannski var þetta fyndnara live, en þetta endurspeglar vel hve rosalega óspennandi leikurinn var. Cleveland er bara á krúskontról að bíða eftir úrslitakeppninni.
Lóan er komin
Það er okkur mikil ánægja að tilkynna að vorið er komið.
Við eigum reyndar enn eftir að keyra á fyrstu Lóuna hérna á Íslandi en vorið kemur alltaf hjá okkur þegar skipt er yfir á sumartíma í NBA og fyrstu leikir hefjast klukkan 23 en ekki á miðnætti.
Og það vill svo skemmtilega til að fyrsti ellefu leikurinn okkar í ár verður með spútnikliði Oklahoma nú í kvöld á NBA TV, svo þeir sem hafa trassað að horfa á þetta skemmtilega lið spila hafa nú engar afsakanir lengur.
Oklahoma tekur í kvöld á móti Utah. Þessi lið hafa verið á fínu róli að undanförnu og eru á svipuðum slóðum í hörðu kapphlaupi í ofurjafnri Vesturdeildinni.
Tékkaðu á þessu. Þú hefur ekkert betra að gera.
Saturday, March 13, 2010
Í námunda við Ámunda
Það er árshátíð hjá ritstjórninni núna. Við erum öll í sumarbústað fjarri mannabyggðum og njótum lífsins í botn.
Það aftraði okkur ekki frá því að horfa á Svala lýsa Phoenix-LA Lakers í gær.
Meistararnir hálf vandræðalegir gegn svæðisvörn heimamanna á löngum köflum en það er kannski til marks um styrk Lakers að liðið skuli klára svona leiki þrátt fyrir að líta hálf aulalega út.
Það hefði verið hægt að fylla út þrjár stílabækur af mistökum dómaranna í leiknum, en verst þótti okkur ill meðferð Lakers á honum Ámunda vini okkar, Louis Amundson.
Sáum ekki allan leikinn, en sáum Ámunda fá þrisvar mjög illa á kjaftinn. Algjör óþarfi.
Friday, March 12, 2010
Aðal Númerið - Alli á Ísbílnum tekur í trendið
Fyrst var það LeBron James sem ákvað að skipta úr treyju númer 23 yfir í númer 6 á næstu leiktíð.
Þá Gilbert Arenas, en hann hefur ákveðið að parkera númer 0 og fara líka í númer 6 - ef hann fær þá vinnu aftur í NBA. Agent Zero heyrir þannig formlega sögunni til.
Og nú síðast var það hann Alli á Ísbílnum sem ákvað að taka slaginn og taka upp númer sex.
Alli gamli hefur ekið bíl númer 6917 í Hammersmith í London frá því skömmu eftir síðari heimsstyrjöld en þótti upplagt að breyta til og ekur bifreið númer sex eftirleiðis.
"Það er eins gott að skipta um númer áður en maður fer á diskóið up in this muthafucka" sagði Alli í samtali við breska fjölmiðla.
"Ég valdi þetta númer af því ég hef ekki fengið á broddinn síðan Nottingham Forest varð enskur meistari í knattspyrnu."
Thursday, March 11, 2010
Tyreke skorar utan vallar - bókstaflega
Tyreke Evans er enn að hlaða efni inn á blandspóluna sem á líklega eftir að landa honum titlinum nýliði ársins.
Í gær bauð hann upp á 19/10/10 þrennu í sigri Kings á Raptors og smellti beri á toppinn með þessari fáránlegu körfu. Ekki laust við að okkur sé farið að lítast vel á þennan dreng. Alltaf svo ofur-vanur eitthvað.
Eins og sjá má í myndbrotinu eru Maloof-bræður ekkert að hata hann heldur. Fagna honum vel svona þegar þeir hafa tíma til að horfa á liðið sitt - svona rétt á meðan þeir eru ekki að taka upp Las Vegas þætti. Sem eru helvíti fínir þættir btw.
Illgresi í Garðinum
Allt er þá þrennt er og hér kemur þriðja Boston-færslan í röð.
Ekki veitir af að vekja athygli á þeirri staðreynd að Memphis gjörsamlega valtaði yfir Boston í Garðinum í kvöld, 111-91.
Boston sá einfaldlega aldrei til sólar í þessum leik eins og sjá má í færslunni hér fyrir neðan.
Við vorum að leiða líkum að því að stuðningsmenn Celtics hefðu baulað, en þeir gerðu meira en það og yfirgáfu margir húsið um miðjan fjórða leikhlutann þegar Boston var 25 stigum undir.
Nú ætlum við ekkert að taka neitt frá Húnunum í Memphis sem unnu þarna sinn sjöunda útileik í röð.
En ástandið á Boston er bara að verða vandræðalegt.
Lítið fyrir peninginn í Garðinum
Ekki oft sem svona lagað sést í Garðinum. Lítill meistarabragur á þeim grænu núna.
Eitthvað hefur verið baulað.
Já, það virðist vera Boston-stemming hjá okkur í dag.
Meiri en í Garðinum.
Wednesday, March 10, 2010
Sigurkarfa frá Kobe (zzzzz)
Lakers þurfti sjöttu sigurkörfunni frá Kobe að halda til að afstýra fjögurra leikja taphrinu í gær. Lakers í smá vandræðum, en það hjálpar að hafa svona slúttara. Og varnarleik eins og hjá Toronto.
Kobe kláraði þetta með tvo menn í andlitinu, en af hverju er hann ekki tvídekkaður áður en boltinn er tekinn inn?
Will you accept this Rose?
Einvígi Deron Williams og Derrick Rose í gær var safaríkt. Williams sýndi Rose að hann á eitt og annað eftir ólært í bransanum. Og þetta.
Rafer Alston spilar tæplega meiri NBA körfubolta*
Rafer Alston hefur verið sagt upp störfum hjá Miami.
Gleymdi að láta formlega vita þegar hann stakk af frá liðinu á dögunum. Er búinn að því núna.
Sagan sem hann kom með var í besta falli ofurraunsæ.
Rafer, eða "Skip 2 My Lou" eins og hann var kallaður í And 1 myndböndunum, var og er götukörfuboltamaður. Átti því alltaf erfitt uppdráttar í skipulagðri atvinnumennskunni.
Hann er líka óttalegur kjáni. Það hjálpar ekki.
* Já, þessi ósmekklega færsla mun stytta okkur leiðina til helvítis þegar að því kemur.
Örlátir tölfræðingar í New Orleans
New Orleans lagði Golden State 135-131 á mánudagskvöldið.
Leikstjórnandinn og nýliðinn Darren Collison sló nýliðamet Hornets þegar hann gaf 20 stoðsendingar í leiknum.
Ekki slæmt af gutta sem er að leysa hinn meidda Chris Paul af hólmi.
Það verður reyndar að deila aðeins í þessa tölfræði af því hún kemur gegn anarkistum Don Nelson í Golden State.
Margir leikmenn í NBA hafa átt risaleiki á skotæfingum sínum gegn Warriors.
Spyrjið bara Brandon Jennings hjá Milwaukee, sem var næstum búinn að eyðileggja nýliðaárið sitt í haust þegar hann sallaði 55 stigum á Warriors í sjöunda leik sínum sem atvinnumaður.
En það er nú samt frábær árangur að slá nýliðamet Chris Paul hjá Hornets með 20 stoðsendingum.
Eða hvað?
Sjónvarpsmaður nokkur sem var á bandi Warriors í leiknum sagði tölfræðisnáða Hornets vera allt of örláta á stoðsendingarnar til handa Collison í leiknum. Taldi þær vera nær 15 en 20.
Og samkvæmt þessari vísindalegu úttekt, hafði sjónvarpsmaðurinn rétt fyrir sér. Stoðsendingarnar voru líklega 16 og því er hér tæknilega séð ekki um neitt félagsmet að ræða.
Menn setja í framhaldinu spurningamerki við fallega tölfræði Chris Paul undanfarin ár. Hefur hún verið smurð svona hressilega af tölfræðimógúlum í New Orleans?
Tuesday, March 9, 2010
Þeir kunna körfubolta
Cleveland vann nauman sigur á San Antonio í nótt.
Þessir tveir kappar fá alls ekki nógu mikið hrós fyrir hvað þeir eru miklir töffarar. Ekki nálægt því.
-Manu Ginobili er kannski með ljótan skallablett og ónýta ökkla en hann stýrði leik Spurs frá A til Ö og sýndi glefsur af gamla Manu. Lygilegur leikmaður.
-Delonte West er kannski með ljótari blöndu valbrár og hræðilegra húðflúra en nokkur annar
Á meðan stærri stjörnur stóðu í skugganum (sumar í jakkafötum) í nótt, stálu þessir tveir örvhentu snillingar senunni. Töffuruðu yfir sig upp að því marki að eitthvað varð undan að láta.
Eins og til dæmis
Matt Bonner er San Antonio mikilvægari en Mason, Keith Bogans og Richard Jefferson til samans. Þú ræður hvort það segir meira um Bonner eða þrílíkið.
Monday, March 8, 2010
Miðherjar Portland eiga hreint ekki að fá að spila körfubolta
Það er ekki hægt að ljúga upp á miðherja Portland Trailblazers.
Hinn þegar meiddi Joel Przybilla þarf að fara aftur í hnéaðgerð eftir að hafa dottið í sturtunni heima hjá sér!
Ef Marcus Camby væri dauður - væri hann að velta sér í gröfinni.
Hvenær meiðist hann?
Og þá hvernig?
Greg Oden stefnir á að byrja að spila aftur með Portland áður en úrslitakeppnin byrjar...
Já, það er góð hugmynd!
Kjólarnir og Skartið
Já, Orlando vann nauman sigur á Lakers. Þriðja tap Lakers í röð. Í fyrsta sinn sem það gerist síðan félagið rændi Pau Gasol.
Við höfum engar áhyggjur af þessu fyrir hönd Lakers.
Nema auðvitað þær að liðið er bara með einn og hálfan varamann og byrjunarleikstjórnanda sem getur ekki haldið Agli Helgasyni fyrir framan sig í vörninni.
Ron Ron stal senunni með Rodman-klippingunni sinni. Mjög áhugaverð alveg.
Sagt er að áletrunin á hausnum á honum segi "vörn" á japönsku, hebresku og hindí. Nú eða ekki.
Tengiliður okkar í Japan segir að þetta þýði "Parker Lewis eru allir vegir færir"
Sunday, March 7, 2010
Húnunum þykir betra að spila körfubolta að heiman
Memphis er búið að tapa átta heimaleikjum í röð.
Ekki gott fyrir eitt af öskubuskuliðum vetrarins sem um tíma virtist ætla að blanda sér í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni öllum að óvörum.
En Memphis er líka búið að vinna sex útileiki í röð - sem er gjörsamlega ótrúleg staðreynd í ljósi vandræða liðsins á heimavelli.
Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem þetta gerist.
Saturday, March 6, 2010
Tempus Incognitum
Sáum leiki live með þeim báðum á fimmtudagskvöldið. Grant Hill og Brenton Birmingham.
Tveir fjölhæfir tappar sem hafa verið lengi í bransanum og geta skammlaust leyst þrjár stöður á vellinum. Hill spilaði leikstjórnandann fyrir Suns - Brenton spilaði næst flestar mínútur hjá Grindavík í sigri á Kef.
Það fer gott orð af þeim báðum. Prúðir og góðir drengir. Spila með góðum liðum sem líður áberandi betur á vallarhelmingi andstæðinganna. Eldast eins og Slayer - greinilega en vel.
Jafnvel talsvert yngri mönnum verður eflaust stundum hugsað til þessara tveggja þegar þeir standa með bakið stíft við Gústavsberginn að morgni og sjá ekki tærnar á sér fyrir ístrunni.
Ekki okkur, auðvitað.
Subscribe to:
Posts (Atom)