Wednesday, January 6, 2010

Þúfnalúru-Lamar spilar best með búkhlaup


Það er ekki að spyrja að miðherjaskruminu hjá pennunum vestra.

Andrew Bynum hjá LA Lakers er í sviðsljósinu eftir að hafa loksins náð að standa í lappirnar heilan leik og skila 24 stigum í sigri á miðherjalausu liði Houston Rockets.

Og við þurfum að lesa fimmhundruðustu fréttaskýringuna um það "hvað Bynum er loksins að ná þessu." Einmitt.

Ekki þykir ástæða til að minnast á framlag Lamar Odom í leiknum. Enda væntanlega á hverjum degi sem menn skila 17 stigum, 19 fráköstum og 9 stoðsendingum í einum og sama leiknum... og það með drullu! (Nei, svona í alvöru, hann var með drullu).

Íþróttaskrifstofa Elíasar sér ástæðu til að fjalla um nokkurn veginn alla aðra tölfræði en þessa í dag. Þar á meðal 20/20 leik Samúels Dalembert hjá Sixers.

Við viljum hinsvegar vita hvenær einhver toppaði tölurnar 17/19/9 - og líka hvort einhver hefur náð 20/20/10 leik.

Annars er þetta dæmigert fyrir Lamar Odom. Hann er með haug af hæfileikum sem hann hefur enn ekki hugmynd um og velur svo kvöld þar sem hann er veikur til að vakna loksins úr óstuðinu sem hann hefur verið í það sem af er vetri.

Það má vel vera að það sé vitleysa í okkur, en þessi leikur Odom í nótt er örugglega besti steinsmuguleikur allra tíma.

Þú lest kannski ekki um hann á helstu körfumiðlum vestanhafs, en sannaðu til, hann fær sitt pláss á NBA Ísland.