Wednesday, January 6, 2010

Gilbert Arenas er ekki að spila körfubolta


Það sem byrjaði sem heimskulegur hrekklaus grikkur hjá Gilbert Arenas er orðið dýrt spaug.

David Stern tók sig til nú undir kvöld og dæmdi Arenas í launalaust leikbann um óákveðinn tíma vegna hlutdeildar hans í vopnaskakinu sem átti sér stað í búningsklefa Wizards á dögunum.

Ef það er ekki nóg fyrir Arenas að fá ekki að spila, þarf hann að sætta sig við að verða af um það bil 18.537.903 krónum fyrir hvern leik sem hann tekur út í leikbanninu.

Ansi hætt við því að eitthvað af þeim tæplega 18 milljörðum króna sem eiga að tikka í vasa Arenas næstu árin frá Wizards og Adidas renni eitthvað annað á næstunni.

Þessi vitleysisgangur á eftir að koma illa við veskið og orðsporið hjá Arenas, en svona heilt yfir er kannski óþarfi að jarða hann út af þessum yfirsjónum sínum. Það sem hann gerði var vitlaust og hann þarf að þola að fá yfir sig reiðiskriðu frá David Stern, sem klárlega mun gefa út fordæmisgefandi refsingu beint úr gamla testamentinu.

Við megum samt ekki gleyma því að Arenas blessaður hefur líka gert góða hluti. Hann hefur verið mjög örlátur á fé sitt til þeirra sem minna mega sín og börnin í höfuðborginni hafa um árabil fengið að njóta góðs af því.

Stærri NBA stjörnur en Gilbert Arenas hafa verið sakaðar um alvarlegri hluti en þetta og sloppið vel frá því. Nefnum engin nöfn.