Thursday, January 7, 2010
Feitar línur í sögulegu samhengi
Í gær vorum við að dásama fallega tölfræði Lamar Odom fyrir Lakers gegn Houston í fyrrinótt og fórum þá að velta því fyrir okkur upphátt að svona tölur væru ansi hreint sjaldgæfar. Og þær eru það.
Odom skoraði 17 stig, hirti 19 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Ekki langt frá því að bjóða upp á 20/20/10 leik, sem er auðvitað rosalegt.
Það er óhætt að segja að hafi snjóað fyrir langtímaminnið hjá okkur þarna í gær. Og við vorum látin vita af því.
Ekki aðeins uppskárum við háðsglósur frá félögum okkar hér á ritstjórninni, heldur rigndi inn póstum frá glöggum lesendum sem rifjuðu m.a. upp fyrir okkur fáránlega línu Tim Duncan sumarið 2003.
Duncan ísaði þá sannfærandi sigur Spurs á New Jersey í sjötta leik lokaúrslitanna með línu sem er of ótrúleg fyrir Múnkhásen Barón! Timmy bauð upp á 21 stig, 20 fráköst, 10 stoðsendingar, 8 varin skot og meistaratitill. Þessi sería var kannski leiðinlegri en blackmetal, en þessi lína er auðvitað rugl!
Shaquille O´Neal bauð líka upp á 24 stig, 28 fráköst og 15 varin skot á 36 mínútum í hryðjuverki gegn New Jersey þegar hann lék með Orlando 1993.
Öðrum lesenda tókst svo að eyðileggja þetta allt með því að grafa upp þá staðreynd að Wilt Chamberlain toppaði þetta auðvitað allt þann 2. febrúar árið 1968.*
Dipperinn fór þá fyrir liði Sixers í 131-121 sigri á Detroit og bauð upp á 25 stig, 22 fráköst og 22 stoðsendingar! Ekki fylgir sögunni hvað kappinn varði mörg skot það kvöldið enda var þá enn langt í að menn færu að halda þá tölfræði.
* -Fallegar tölur hjá Wilt, en við setjum nú alltaf * aftan við tölur frá þessum árum þegar landslagið í NBA var frábrugðið því sem það er í dag.
Það væri hægt að telja til endalausar heimildir um svona sóðaskap til að skvetta olíu á eldinn sem í sífellu logar í tölfræðiblæti okkar, en við ætlum að ljúka þessu á einum mola úr glæsilegri smiðju Larry Bird.
Í febrúar árið 1985 skilaði Bird 30 stigum, 12 fráköstum, 10 stoðsendingum og 9 stolnum boltum í útisigri Boston á Utah Jazz og var þar með aðeins einum stolnum bolta frá því að verða annar maðurinn í sögu NBA til að ná fjórfaldri tvennu. Bird sat á bekknum allan fjórða leikhlutann þar sem sigur Boston var þegar í höfn.
Nákvæmlega ári síðar upp á dag varð Alvin Robertson svo annar maðurinn í sögunni til að ná fernu (Nate Thurmond gerði það fyrst 1974). Síðar náðu Hakeem Olajuwon (1990) og David Robinson (1994) þessum áfanga.
Hakeem er reyndar með tvær fernur skráðar á sig en önnur þeirra var tekin af honum síðar vegna tölfræðiklúðurs.
Clyde Drexler var einu sinni einu frákasti - og öðru sinni einni stoðsendingu - frá því að ná fernunni.
Í síðara skiptið hrökk skot félaga hans af hringnum við lokaflautið eftir sendingu frá Drexler, en þá voru félagar hans í Houston meðvitað að reyna að koma honum í sögubækurnar. Drexler var reyndar ekki langt frá því að ná fimmu í leiknum því hann var með 7 tapaða bolta.
Þetta er auðvitað bara smá ágrip af skemmtilegri tölfræði í NBA í gegn um árin. Köllum þetta að eyða aðeins of miklum tíma í að færa rök fyrir því að Þúfnalúru-Lamar Odom hafi átt skínandi leik fyrir Lakers í gærkvöldi. Svo sjá menn ekkert nema Andrew Bynum eftir leikinn!!!
Þökkum lesendum fyrir skemmtileg innlegg sem þeir sendu okkur í pósti.