
Odom skoraði 17 stig, hirti 19 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Ekki langt frá því að bjóða upp á 20/20/10 leik, sem er auðvitað rosalegt.
Það er óhætt að segja að hafi snjóað fyrir langtímaminnið hjá okkur þarna í gær. Og við vorum látin vita af því.
Ekki aðeins uppskárum við háðsglósur frá félögum okkar hér á ritstjórninni, heldur rigndi inn póstum frá glöggum lesendum sem rifjuðu m.a. upp fyrir okkur fáránlega línu Tim Duncan sumarið 2003.
Duncan ísaði þá sannfærandi sigur Spurs á New Jersey í sjötta leik lokaúrslitanna með línu sem er of ótrúleg fyrir Múnkhásen Barón! Timmy bauð upp á 21 stig, 20 fráköst, 10 stoðsendingar, 8 varin skot og meistaratitill. Þessi sería var kannski leiðinlegri en blackmetal, en þessi lína er auðvitað rugl!
Shaquille O´Neal bauð líka upp á 24 stig, 28 fráköst og 15 varin skot á 36 mínútum í hryðjuverki gegn New Jersey þegar hann lék með Orlando 1993.

Dipperinn fór þá fyrir liði Sixers í 131-121 sigri á Detroit og bauð upp á 25 stig, 22 fráköst og 22 stoðsendingar! Ekki fylgir sögunni hvað kappinn varði mörg skot það kvöldið enda var þá enn langt í að menn færu að halda þá tölfræði.
* -Fallegar tölur hjá Wilt, en við setjum nú alltaf * aftan við tölur frá þessum árum þegar landslagið í NBA var frábrugðið því sem það er í dag.
Það væri hægt að telja til endalausar heimildir um svona sóðaskap til að skvetta olíu á eldinn sem í sífellu logar í tölfræðiblæti okkar, en við ætlum að ljúka þessu á einum mola úr glæsilegri smiðju Larry Bird.
Í febrúar árið 1985 skilaði Bird 30 stigum, 12 fráköstum, 10 stoðsendingum og 9 stolnum boltum í útisigri Boston á Utah Jazz og var þar með aðeins einum stolnum bolta frá því að verða annar maðurinn í sögu NBA til að ná fjórfaldri tvennu. Bird sat á bekknum allan fjórða leikhlutann þar sem sigur Boston var þegar í höfn.
Nákvæmlega ári síðar upp á dag varð Alvin Robertson svo annar maðurinn í sögunni til að ná fernu (Nate Thurmond gerði það fyrst 1974). Síðar náðu Hakeem Olajuwon (1990) og David Robinson (1994) þessum áfanga.
Hakeem er reyndar með tvær fernur skráðar á sig en önnur þeirra var tekin af honum síðar vegna tölfræðiklúðurs.
Clyde Drexler var einu sinni einu frákasti - og öðru sinni einni stoðsendingu - frá því að ná fernunni.
Í síðara skiptið hrökk skot félaga hans af hringnum við lokaflautið eftir sendingu frá Drexler, en þá voru félagar hans í Houston meðvitað að reyna að koma honum í sögubækurnar. Drexler var reyndar ekki langt frá því að ná fimmu í leiknum því hann var með 7 tapaða bolta.
Þetta er auðvitað bara smá ágrip af skemmtilegri tölfræði í NBA í gegn um árin. Köllum þetta að eyða aðeins of miklum tíma í að færa rök fyrir því að Þúfnalúru-Lamar Odom hafi átt skínandi leik fyrir Lakers í gærkvöldi. Svo sjá menn ekkert nema Andrew Bynum eftir leikinn!!!
Þökkum lesendum fyrir skemmtileg innlegg sem þeir sendu okkur í pósti.