Tuesday, March 23, 2010
Af Manu Ginobili og Jeff Hanneman
Það er alltaf gaman að sjá flaggskip nýja og gamla tímans eigast við. Það er sama hvort það er í íþróttum, tónlist eða Útsvari.
Svona eins og þegar ungar og tápmiklar málmsveitir koma upp og eru bornar saman við Slayer.
Manstu t.d. þegar Slipknot kom fram á sjónarsviðið með látum? Þá héldu margir að nýi skólinn væri kominn til að moka þeim gamla í burtu, en raunin varð önnur.
Popparar hafa ekkert í Slayer að gera.
Nú ætlum við ekki að líkja Oklahoma City Thunder við Slipknot. Vonum að það frábæra lið lái lengra. En Thunder hitti sinn Slayer í gærkvöld þegar liðið tók á móti gömlu mönnunum í San Antonio.
Bæði lið voru að spila annað kvöldið í röð og Texas-menn á erfiðum túr. Einhver hefði haldið að ungar og ferskar lappir Oklahoma-manna hefðu haldið betur í æsingnum en skankarnir á Spursurum sem voru nýbúnir að tapa framlengdum naglbít niðri í Georgíu kvöldið áður.
Þetta var fjandi skemmtilegt einvígi með andrúmslofti og ákafa úrslitakeppninnar.
Skemmst er frá því að segja að gömlu hundarnir komust frá leiknum á reynslunni og seiglunni.
Fengu reyndar góða hjálp frá reynslulausum heimamönnum, en þess verður ekki langt að bíða að Thunder verði Spurs of stór biti kvöld eftir kvöld ef svo fer sem horfir.
George "á ég ekki bara að senda þér myndskilaboð" Hill átti frábæran leik hjá Spurs, Manu Ginobili tók sinn vanalega Jeff Hanneman á þetta og var maðurinn á bak við sigurinn í lokin. Tim Duncan er alltaf grunnurinn í öllu sem San Antonio gerir en það er Manu sem sér um grimmdina, klókindin og alla litlu hlutina í krönsinu. Gaurinn er allt í öllu í sóknarleik Spurs þessa dagana.
Svona eins og Richard Jefferson er ekkert í engu hjá liðinu. Jefferson er mesta böst síðari ára í NBA. Það er ekki flóknara. Ef Jefferson hefði skilað 80% af því sem hann átti að skila og Spurs hefði haldið sæmilegri heilsu í vetur, væri liðið í öðru sæti Vesturdeildar og helsta ógn Lakers þeim megin í deildinni.
Hjá Thunder var Kevin Durant í sínu venjulega rugl-formi með 45 stig en segja má að það hafi verið Kongó-lóin Serge Ibaka sem vann sér inn flest prik ritstjórnar í leiknum. Spilaði rosalega vörn á Tim Duncan. Þetta er drengur sem er eins og sniðinn inn í Thunder liðið vegna lengdar sinnar, hraða og íþróttamennsku.
Charley Rosen á Fox rýnir í hér einvígið af sinni valinkunnu fasista-fagmennsku.