Tuesday, March 30, 2010
Hroki og hleypidómar
Sveiflurnar í leiknum okkar fagra nú á vormánuðum jafnast á við náttúruhamfarir.
Boston pantaði tvö herbergi í viðbót á Hrafnistu í fyrrakvöld þegar liðið tapaði enn einum leiknum með ógeðslega sannfærandi hætti á heimavelli.
Það voru aðrir Hrafnistukandídatar sem sáum þessa slátrun, nefnilega San Antonio.
Það verður auðveldara með hverjum deginum að veðja á móti Boston.
Mennirnir á myndinni. Kevin Garnett og Tim Duncan, eru formlega orðnir gamalmenni. Sú ískalda staðreynd er ljós í vetur.
Tíminn er tík og það er elli kelling líka.
San Antonio fylgdi eftir þessum frábæra Boston-sigri með því að tapa fyrir New Jersey í kvöld. Það hefur ekkert með það að gera að New Jersey liðið sé rosalega heitt núna. San Antonio var án Manu Ginobili í leiknum (og auðvitað Tony Parker eins og alltaf). Hafirðu séð Manu spila síðustu leiki - veistu hvað við erum að tala um.
Dálítið átakanlegt fyrir lið eins og San Antonio að tapa svona leikjum þegar ljóst er að hvert tap færir liðið nær einvígi við Lakers í fyrstu umferðinni.
Og bara svo þú farir ekki að misskilja eitthvað - þá er New Jersey eitt af lélegustu liðum allra tíma í NBA, alveg sama hvort þetta lið vinnur sjö leiki eða tólf.
Og það þarf einhver að gera körfuboltafélaginu í Minnesota stóran greiða og leggja það niður. Strax.
Eitthvað segir okkur að liðin í efri hluta Vesturdeildarinnar séu því fegin að þurfa ekki að mæta New Orleans í fyrstu umferð. Til dæmis LA Lakers.