Wednesday, March 10, 2010

Örlátir tölfræðingar í New Orleans


New Orleans lagði Golden State 135-131 á mánudagskvöldið.

Leikstjórnandinn og nýliðinn Darren Collison sló nýliðamet Hornets þegar hann gaf 20 stoðsendingar í leiknum.

Ekki slæmt af gutta sem er að leysa hinn meidda Chris Paul af hólmi.

Það verður reyndar að deila aðeins í þessa tölfræði af því hún kemur gegn anarkistum Don Nelson í Golden State.

Margir leikmenn í NBA hafa átt risaleiki á skotæfingum sínum gegn Warriors.

Spyrjið bara Brandon Jennings hjá Milwaukee, sem var næstum búinn að eyðileggja nýliðaárið sitt í haust þegar hann sallaði 55 stigum á Warriors í sjöunda leik sínum sem atvinnumaður.

En það er nú samt frábær árangur að slá nýliðamet Chris Paul hjá Hornets með 20 stoðsendingum.

Eða hvað?

Sjónvarpsmaður nokkur sem var á bandi Warriors í leiknum sagði tölfræðisnáða Hornets vera allt of örláta á stoðsendingarnar til handa Collison í leiknum. Taldi þær vera nær 15 en 20.

Og samkvæmt þessari vísindalegu úttekt, hafði sjónvarpsmaðurinn rétt fyrir sér. Stoðsendingarnar voru líklega 16 og því er hér tæknilega séð ekki um neitt félagsmet að ræða.

Menn setja í framhaldinu spurningamerki við fallega tölfræði Chris Paul undanfarin ár. Hefur hún verið smurð svona hressilega af tölfræðimógúlum í New Orleans?