Wednesday, March 24, 2010

Sælar stelpur, Starfslokasamningurinn hérna!


Þeir eru farnir að kalla hann "Starfslokasamninginn" og það er besta gælunafn sem við höfum heyrt lengi. Líklega það besta síðan "Þúfnalúru-Lamar" datt hérna inn fyrr í vetur.

Skotbakvörðuinn John Salmons er sjaldan talinn á meðal bestu leikmanna deildarinnar í sinni stöðu, en viðsnúningurinn sem orðið hefur á spútnikliði Milwaukee Bucks síðan það fékk hann nánast gefins frá Chicago Bulls hefur verið lygilegur.

Milwaukee er 15-2 síðan skiptin gengu í gegn. Fimmtán fokkíngs tvö!!!

Ástæðan fyrir þessu skemmtilega viðurnefni sem Salmons hefur fengið er sú að þjálfarinn Scott Skiles þáði laun frá Chicago Bulls í tvö ár eftir að honum var sparkað úr þjálfarastólnum þar á aðfangadag forðum.

Hann hefur því haft til hnífs og skeiðar blessaður og segja má að Salmons hafi því reynst hálfgerður jólabónus fyrir Skiles (ofan á alla aurana) og Bucks-liðið.

Æ, já. Og svo er Salmons að skila Bucks 20,5 stigum að meðaltali í þessum 17 leikjum sem hann hefur spilað með liðinu og er að spila sinn besta bolta á ævinni. Amk síðan hann fór hamförum með Bulls gegn Celtics í bestu seríu síðari ára í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í fyrra.

Það er ekki öll vitleysan eins í þessum bransa.