Sunday, March 21, 2010

Sælir strákar, Kyle Korver hérna!


Þetta er Kyle Korver. Biblíudrengur og stórskytta. Honum er oft líkt við Ashton Kutcher, eiginmann plastbombunnar Demi Moore. Þeir eru vissulega líkir útlitslega, en þar endar samanburðurinn.

Korver er með hreint fáránlega nýtingu í þriggja stiga skotum í vetur. Leiðir deildina með 57% hittni þegar stutt er eftir af tímabilinu. Það er betri nýting en margir eru með á vítalínunni.

Það hefur aðeins sex sinnum gerst í sögu NBA að leikmaður hafi verið með 50% nýtingu í þriggja stiga skotum (miðað við ákveðinn lágmarks skotafjölda auðvitað) og í helmingi þeirra tilvika var þar um að ræða gamla refinn Steve Kerr.

Tvö af þessum þremur tímabilum hans komu reyndar á árunum 1995-97 þegar þriggja stiga línan var nær en hún var áður og er í dag og allir héldu að þeir væru langskyttur.

Það er ljóst að Korver setur NBA met í næsta mánuði nema hann kólni mjög hratt.

Leikmenn sem hafa hitt yfir 50% 
í þristum á tímabili í sögu NBA:


1990 - Steve Kerr 50,7%
1995 - Steve Kerr 52,4%*
1995 - Detlef Schrempf 51,4%*
1996 - Tim Legler 52%*
1996 - Steve Kerr 51,5%*
2007 - Jason Kapono 51,4%


2010? - Kyle Korver 57%


* - 1995-97 - Styttri lína (6,7 metrar í stað 7,23 metra)