Monday, March 29, 2010
Vorbragurinn góði
Það hefur verið vorbragur á ansi mörgum leikjum sem við höfum séð undanfarið.
Klárlega vorbragur á leik Orlando og Denver í kvöld.
Vorbragur í NBA er alls ekki sama fyrirbæri og vorbragur í t.d. íslenskri knattspyrnu.
Það er alltaf vorbragur á íslenskri knattspyrnu, sama hvort það er í maí eða október.
NBA vorbragur er það þegar helstu stjörnur liðanna eru búnar á því eftir vítavert álag vetrarins og eru farnar að spara þá litlu orku sem eftir er svo eitthvað verði eftir á tanknum þegar kemur í alvöruna í næsta mánuði.
Stjörnunum líður á þessum tímapunkti eins og verkamönnum sem setjast niður í síðustu pásuna sína klukkan níu að kvöldi eftir að hafa verið að steypa frá því klukkan sjö um morguninn. Narta í kalda pizzu og reyna að safna kröftum fyrir lokasprettinn. Vona að þeir verði komnir í rúmið fyrir klukkan eitt um nóttina - enn eiga eftir að koma nokkrir bílar. En þeir vita að þeir þurfa að mæta aftur í vinnu hálfátta morguninn eftir.
Þetta á við um leikmenn og lið sem geta eitthvað, líkt og Orlando og Denver. Leikmenn og lið sem eru að fara í úrslitakeppnina.
Svo getur líka verið vorbragur á liðunum á hinum enda litrófsins - liðunum sem eru móðgun við orðið rusl (sjá: New Jersey, Minnesota, Washington, LA Clippers etc.).
Leikmenn þessara liða eru alltaf á svipinn eins og þeir séu að leita að meindýraeyði í röðum áhorfenda til að binda enda á þjáningar sínar með kindabyssu. Hafa svipaðan metnað og lífsvilja og keppendurnir í Biggest Loser.
Vorbragur er eitt, en svo eru til menn eins og Vince Carter. Menn sem draga lappirnar inn á völlinn, en haltra svo út af eftir nokkrar sekúndur af því þeir ráku tásuna í og það var svo vont.
Góðir hálsar - leyfið okkur að kynna naglann sem á að gera Orlando að NBA meistara í sumar!
Það sem kórónar vorbraginn er sú staðreynd að öll toppliðin í NBA eru búin að drulla í hárið á sér með einhverjum hætti á síðustu dögum og vikum, nema kannski Cleveland og Orlando (sem bæði hafa verið í meiðslum en hafa breidd til að dekka það).
Öll hin liðin hafa átt stinkera inn á milli. Lakers tekið í kennslustund í OKC, Dallas tapaði nokkrum í röð, Denver án þjálfara, K-Mart og tapar nokkrum leikjum illa, Utah tók rispu en tapar alltaf fyrir skítaliðum inn á milli, Boston og San Antonio taka Hrafnistuna á þetta og Atlanta... er bara Atlanta.
Það verður gaman að sjá hvernig þessi lið koma undan síðustu vikunum á tímabilinu. Nú halda stuðningsmenn bara niðri í sér andanum, vona að liðið þeirra komi á góðu róli inn í úrslitakeppnina og að meiðsladraugurinn sé farinn út að kaupa bjór.