Friday, March 19, 2010

Teiti í titlalausu Toyota höllinni í kvöld


Á föstudagskvöldið, en það er einmitt núna í kvöld, verður Stöð 2 Sport með beina útsendingu frá viðureign Houston Rockets og Boston Celtics.

Leikurinn fer fram í Toyota höllinni (þessari í Texas sem hefur aldrei landað titli - svo þið ruglið henni ekki saman við þessa suður með sjó) og ballið byrjar klukkan hálf eitt eftir miðnætti.

Boston er að reyna að aftra því að menn panti pláss á Hrafnistu fyrir mannskapinn og Houston á í erfiðri baráttu um að komast í áttunda sætið í Vesturdeildinni.

 Það verður gaman að fylgjast með einvígi Rajon Rondo og hins snaggaralega Aaron Brooks - menn sem eru ekki metnir að verðleikum nema í hægri endursýningu.

Brooks hefur verið hetjuskapurinn uppmálaður í síðustu leikjum og kláraði m.a. Denver með sigurkörfu í einum besta leik vetrarins á mánudagskvöldið. Hann og Kevin Martin mynda hugsanlega fljótasta bakvarðapar í NBA deildinni, sem eru frábær tíðindi fyrir Boston. Eru heldur ekkert smeykir við að skjóta boltanum blessaðir.

Kíktu á þetta svo þú þurfir ekki að vera eins og leiðinlega pakkið sem reynir að eyðileggja fermingarveisluna á sunnudaginn með því að tala bara um atvinnuleysi, IceSave og myntkörfulán.