Friday, April 30, 2010
Dallas og Portland eru á leið til Benidorm
Liðunum í úrslitakeppni NBA fer því miður ört fækkandi þessa dagana. Í nótt sem leið féllu Portland og Dallas úr leik við ólíkar aðstæður.
Stuðningsmenn Portland geta unað nokkuð sáttir við sitt þrátt fyrir að detta út 4-2 fyrir Phoenix. Meiðsladraugurinn hefur leikið Blazers ansi grátt í vetur og því er ekki annað en safna liði og vona að sjúkralistinn verði styttri næsta vetur.
Phoenix mætti góðri mótspyrnu frá Portland eins og við var að búast, en Suns-liðið er nú komið í aðra umferðina.
Stóra sagan í því er auðvitað sú staðreynd að hinn háaldraði en síungi Grant Hill er þarna að fara í aðra umferð úrslitakeppninnar í fyrsta skipti á ferlinum.
Hill er fyrsti maðurinn í sögu NBA til að vinna sína fyrstu seríu í úrslitakeppni eftir 15 ár í deildinni. Hann var enda hálf hrærður yfir öllu saman þessi gamli höfðingi í gær. Hann á allt gott skilið þó hann sé Duke-maður.
San Antonio komst líka í sögubækur með sigrinum á Dallas.
San Antonio kláraði einvígið heima í sjötta leik og er þetta í fyrsta sinn sem liðið í sjöunda sæti slær út lið í öðru sæti í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Hér er þó miðað við sjö leikja seríur og því er hér ekki um svo rosalega sögulegan hlut að ræða, því það eru ekki mörg ár síðan NBA deildin tók þá kjánalegu ákvörðun að fjölga leikjum í fyrstu umferð úr fimm í sjö.
Það væri auðvelt að blammera Dallas fyrir enn eitt tapið í fyrstu umferð. Metnaðurinn þar á bæ er talsvert meiri en úrslitin bera með sér.
Cuban eigandi er ekki að spandera öllum þessum milljónum í mannskapinn bara upp á grín. Hann vill vinna titla.
Margir vildu meina að Dallas væri best í stakk búið til að veita Lakers samkeppni í vestrinu í ár, en annað kom á daginn. Það er of hart að dæma þetta lið úr leik af því það var nú ekki sett saman í núverandi mynd fyrr en í febrúar á þessu ári.
Dirk ræfillinn fær alltaf sinn skerf af gagnrýni og Jason Kidd fékk skóflufylli að þessu sinni. En þegar allt er talið mætti Dallas bara ofjörlum sínum í þessari seríu.
Dallas er nýlega samsett lið. Gott lið með hörkuspilara. En liðið hefur ekki fengið nógu mikinn tíma til að gelast saman og svo spilar það ekki jafn árangursríkan körfubolta og San Antonio.
Spurs-liðið kann þetta allt saman og þó það sé ekki sama hryllingsmaskínan og það var fyrir þremur árum, er ljóst að það verður ekki auðvelt að slá það út úr keppni að þessu sinni.
Manu Ginobili er á óskiljanlegan hátt búinn að endurheimta 90% af fyrri styrk og Parker er allur að koma til.
Tim Duncan er eini maðurinn í liðinu sem hefur áberandi dalað í vetur. Sérstaklega er það sprengikrafturinn í löppunum á honum sem er farinn. Hann er búinn að missa 30% styrk þar augljóslega.
En hann er hvergi nærri búinn að gleyma því hvernig á að vinna körfuboltaleiki.
Breyturnar sem hafa vegið þungt hjá Spurs undanfarið eru þó fleiri. Þar fer fremstur í flokki strípalingurinn George Hill, sem var stærsta trompið hjá liðinu í einvíginu við Dallas. Án hans er ekki víst að Spurs hefði tekið þetta. Ekki má heldur gleyma þætti Antonio McDyess og smátröllsins Blair af bekknum.
Já - og þeirri staðreynd að San Antonio er stýrt af einum besta þjálfara í sögu NBA.
Það var gaman að sjá San Antonio fara áfram í þessari rimmu - þó ekki væri nema bara til að láta okkur hérna á ritstjórninni halda áfram að líta illa út eftir hrakspár okkar um liðið fyrir nokkrum vikum.
Nú er því ljóst að það verða Phoenix Suns og San Antonio sem bítast um laust sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar þetta vorið. Ekki í fyrsta skipti sem þessi lið mætast og við getum lofað ykkur strax að þetta verður frábært einvígi. Ekki útilokað að grátt silfur verði jafnvel rifið fram. Þetta verður eflaust sex eða sjö hörkuleikir.
Meira um það síðar.
Hamingjuóskir í Hólminn
Ritstjórn NBA Ísland óskar Snæfelli til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn og hreint út sagt frábæra leiktíð.
Veturinn hefur sannarlega verið ævintýri í Hólminum og við höfum þegar rætt við fjöldamarga menn og konur sem samgleðjast þeim innilega við þetta tækifæri.
Undir venjulegum kringumstæðum hefðum við skrifað dálítinn pistil um úrslitakeppnina og afrek Íslands- og bikarmeistara Snæfells - en í þessu tilviki er það óþarfi.
Myndin sem fylgir þessari færslu segir allt sem segja þarf.
Renndu aðeins yfir söguna í huganum. Yfir þrautagöngu Snæfells undanfarin ár. Yfir leið þeirra að titlinum sem þeir hömpuðu í fyrsta skipti í gær. Og skoðaðu svo myndina vandlega í góða stund. Þar hefurðu það.
Myndirnar sem drengirnir á Sport.is fönguðu af fagnaðarlátum Snæfellinga í gær voru í algjörum sérflokki.
Sérstaklega sú sem við birtum hér í leyfisleysi. Þetta er mynd ársins þangað til annað kemur í ljós.
Thursday, April 29, 2010
Jórturdýrafælni hefur slæm áhrif á körfubolta í Atlanta
Nú erum við ekki alveg með það á hreinu hvað er svona hræðilegt við hreindýr.
Við höfum til að mynda aldrei vaknað kófsveitt og öskrandi um miðja nótt eftir martröð þar sem við erum hundelt af blóðþyrstum klaufdýrum.
Fear the deer! segir slagorð Milwaukee Bucks. Hræðist hreindýrið. Ekki hrikalegasta slagorð allra tíma.
En leikmenn Atlanta Hawks virðast vera komnir með jórturdýrafælni á hæsta stigi.
Vinna fyrstu tvo leikina gegn Bucks-liði sem er án síns besta leikmanns (Andrew Bogut) en hafa síðan algjörlega tapað plottinu.
Atlanta vinnur alltaf á heimavelli en getur ekkert á útivelli. Þess vegna brá engum sérstaklega þegar Atlanta tapaði leikjum þrjú og fjögur.
En í kvöld hraunaði liðið allt út á heimavelli í fimmta leik. Var níu stigum yfir þegar fjórar mínútur voru eftir en leyfðu hreindýrunum að traðka á sér.
Horfa nú fram á að þurfa að vinna á útivelli eða fara snemma í frí. Og á miðað við andann sem ríkir í herbúðum Hawks, erum við ekkert rosalega bjartsýn fyrir þeirra hönd. Atlanta getur ekki spilað á hálfum velli og kann ekki að vera agressorinn í seríum.
Vinnumiðlunargammarnir sveima yfir Mike Woodson þó hann sé búinn að láta sér vaxa nýjar augabrúnir.
Scott Skiles er búinn að gera rosalega flotta hluti með þetta Bucks-lið. Og Brandon Jennings er dálítið að gefa þeim langt nef sem gáfu honum ekki props í kjörinu á nýliða ársins. Flottur í kvöld. Ísaði leikinn á vítalínunni. Heimtaði boltann.
---------------
Denver hélt lífi í kvöld, en það var ekki mikið meira en svo. Stemmingin í áhorfendum í Pepsi-Höllinni og leikmönnum Denver var frekar slöpp. Dálítið eins og Pepsi. Og Nene meiddist. Ekki gott. Fátt myndi opna augu okkar meira upp á gátt en Denver-sigur í Salt Lake City í sjötta leiknum.
Nema kannski ef Jamal Crawford myndi drulla í hárið á sér á heimavelli í leiknum þar sem hann tæki við nafnbótinni besti sjötti maðurinn í deildinni...
Bíddu nú við.... það gerðist í kvöld!
Ótímabær áfengisdauði í fimmta leik
Það var allt á öðrum endanum hérna á ritstjórninni í gærkvöldi. Leikur fimm í tveimur bestu rimmunum í úrslitakeppninni, Lakers-Thunder og Dallas-San Antonio.
Öll þessi spenna var dálítið endasleppt, svona eins og hjá nýnema sem drepst áfengisdauða fyrir utan busaballið - tveimur tímum áður en það byrjar.
Leikur Lakers og Oklahoma var spennandi í um það bil tvær mínútur. Lakers spilaði besta leik sinn í úrslitakeppninni og Thunder-drengirnir voru eins og enska landsliðið í vítaspyrnukeppni.
Við ætlum samt að tippa á að leikur sex verði hrikalegur - en við teljum okkur vera búin að sjá að Oklahoma hafi ekki taugar í að vinna þetta einvígi.
Og það er líka óraunhæft að ætlast til þess af tvítugum guttum.
Skrítið að sjá Phil Jackson bíða með það þangað til í fimmta leik að setja Kobe á Westbrook í vörninni. Og það er eins og Lakers-menn muni það ekki nema í nokkrar mínútur í hverjum leik að þeir eru með kjánalega mikla yfirburði inni í teig í þessu einvígi. Þeir mundu það í gær.
Spennan var aðeins meiri í Dallas í gær, en þó ekki, því heimamenn réðu ferðinni frá fyrstu mínútu. Pop þjálfari San Antonio var ekkert að flækja hlutina og kippti sínum bestu mönnum fljótlega af velli. Hann hefur séð þetta allt saman áður. Hann prófaði aðeins að sjá hvort hans menn væru í stemmara til að stela fimmta leiknum, en sá fljótlega að það var ekki að fara að gerast. Þá er bara að hlaða í og leggja allt undir heima í sjötta leiknum. Og það gerir San Antonio.
Texas-serían snýst algjörlega um tempó. Ef Dallas nær að keyra aðeins upp hraðann eins og oftast á heimavelli, vinnur liðið sigur á Spurs.
Ef San Antonio nær að halda tempóinu niðri og lemja aðeins á leikmönnum Dallas (eins og oft á heimavelli), er liðið á leið í aðra umferð.
Wednesday, April 28, 2010
Chicago og Miami eru hætt að spila körfubolta
Boston og Cleveland tryggðu sér í nótt sæti í annari umferð úrslitakeppninnar. Það vill svo skemmtilega til að þau mætast einmitt í næstu umferð og verður fyrsti leikurinn þar á laugardaginn.
Boston kláraði að ganga frá líkinu sem er Miami Heat. Lið sem átti ansi lítið erindi í úrslitakeppnina. Umfjöllun um fimmta leik liðanna miðast strax meira við að finna að leik Boston en fagna því að liðið sé komið áfram.
Boston náði 20+ stiga forystu á heimavelli í kvöld, en missti hana frá sér. Náði samt að klára þrátt fyrir skuggann af Michael Beasley og þrátt fyrir að þurfa að hoppa yfir hræið af Jermaine O´Neal hvað eftir annað.
"Stjórnin á eftir að hafa nóg að gera í sumar," sagði Dwyane Wade, en hafði annars lítið annað að segja eftir leikinn. Really?
Cleveland kláraði líka baráttuglaða Chicago-menn þrátt fyrir smá ströggl í lokin. Við kunnum að hafa farið aðeins fram úr okkur þegar við drulluðum yfir Bulls rétt fyrir úrslitakeppni. Sögðum að liðið ætti tæplega skilið að fara í úrslitakeppnina. Það var þó ekki með öllu óverðskulduð gagnrýni. Á lið sem tapar 10 leikjum í röð í deildakeppninni skilið að fara í playoffs? Varla.
En alveg eins og í fyrra, getum við ekki annað en tekið ofan fyrir Bulls. Sérstaklega Derrick Rose og Joakim Noah. Algjörir toppmenn báðir og fá vonandi meiri hjálp á næstunni. Ekki dónalegur kjarni að hafa.
Hvað Cleveland varðar var þessi sería ekki annað en formsatriði. Liðið var þó á köflum ekkert rosalega sannfærandi. Dálítið ruglingslegt róteisjónið hjá þeim. Eins og þeir viti ekki alveg hvernig þeir ætla að gera þetta.
Það sem er hinsvegar alveg á hreinu er að LeBron James hefur aldrei verið betri. Gaurinn er búinn að sýna tilþrif í þessu einvígi sem við hefðum með réttu átt að gera um sérstaka youtube-færslu. Það er samt morgunljóst að hann má ekki missa sig í það sem Charles Barkley kallar réttilega "one on five" sóknarleik.
Það vakti athygli þegar James virtist meiða sig á olnboga í lok leiksins og tók upp á því að skjóta víti með vinstri hendinni. Frekar kjánalegt atvik. Þetta er ekki til annars en að halda fréttamönnum við efnið fram að helgi. Kallinn er í fínu formi - ekkert að honum. Þú last það hér.
Cleveland er samt ekkert að spila eins og jarðýta - og þess vegna kæmi það okkur ekkert á óvart þó liðið asnaðist til að gera seríuna við Boston áhugaverða. Á pappírunum á Cleveland þó ekki að tapa meira en einum leik á móti Boston.
Það getur vel verið að Boston-liðið verði seigara í úrslitakeppninni en það var í deildinni á síðustu vikunum, en við sáum allt of marga leiki með grænum á vormánuðum þar sem þeir hreinlega drulluðu á sig og gátu ekkert!
Ef Cleveland væri að spila á fullu gasi, sem liðið er alls ekki að gera, myndum við standa með sannfæringu okkar og spá þessu einvígi 4-0 fyrir Cleveland. Cavs eru hinsvegar ekki búnir að finna sig almennilega og Mike Brown er enn að stýra sóknarleik liðsins, svo við gefum Boston einn sigur.
Stuðningsmenn Boston geta svo sent okkur póst og þakkað okkur sérstaklega fyrir Cleveland-jinxið ef þetta verður spennandi einvígi.
Tuesday, April 27, 2010
Við viljum meiri Texas-körfubolta
Úrslitakeppnin í NBA hefur ekki valdið vonbrigðum frekar en venjulega.
Austurdeildin hefur reyndar verið áberandi lakari en Vesturdeildin, en það er nú ekkert nýtt.
Undanfarið hafa verið fjögur mjög sterk lið í Austurdeildinni en nú er svo komið að þau eru bara tvö.
Það er því ekkert skrítið að fólk sé ekki nagandi á sér neglurnar af spenningi yfir fyrstu umferðinni þar, svona rétt á meðan verið er að sópa liðum sem hafa lítið sem ekkert erindi í úrslitakeppnina í burtu.
Það er ástæða fyrir því að við erum að tala um lið sem hafa ekkert í úrslitakeppnina að gera. Ástæðan er sú að annað hvort Dallas eða San Antonio þarf að sætta sig við að falla úr leik í fyrstu umferðinni og það er ekkert minna en stórskandall.
Tvö einvígi í úrslitakeppninni hafa borið af í fyrstu umferðinni. Allir eru með annað augað á viðureign LA Lakers og Oklahoma, og það réttilega, af því þar er á ferðinni magnað einvígi. Algjörlega magnað.
Og hitt er einvígi Texas-liðanna Dallas og San Antonio. Algjör klassík eins og jafnan þegar þessi lið eigast við á vorin.
Þetta einvígi hefur allt sem góð rimma þarf að hafa. Stórstjörnur, sóknartilþrif, frábæran varnarleik, óvæntar hetjur og svo auðvitað helling af blóði og látum. Texas-style ho-down!
Og annað þessara liða þarf að fara í sumarfrí. Sem er grátlegt.
Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem San Antonio er sökudólgurinn í þessari stöðu, því liðið er miklu betra en staða þess í deildinni segir til um. En það er víst ekki hægt að kenna leikmönnum um það að hafa verið meiddir af og til í allan vetur.
Það verður samt átakanlegt í alla staði að sjá á eftir öðru þessara liða út úr úrslitakeppninni á næstu dögum, á meðan lakari lið fara í aðra umferð.
Cleveland, Orlando og LA Lakers. Þetta eru liðin sem fyrir fram væru talin sigurstranglegri í seríu á móti Dallas og San Antonio ef hún byrjaði í dag. Önnur lið? Ekki svo.
Við höfum að þessu tilefni lagt fram þingsályktunartillögu um að Miami Heat verði vikið úr úrslitakeppninni og að liðið sem tapar Mavs-Spurs seríunni fái að halda áfram í staðinn.
Við völdum Miami af því liðið og stuðningsmenn þess eru í alla staði grátlegir (fyrirgefðu, Dwyane) og af því liðið hefur boðið upp á eina leiðinlegustu seríuna í úrslitakeppninni.
Við erum reyndar í alla staði opin fyrir því að senda Charlotte út í stað Miami.
Charlotte lét nú einu sinni sópa sér út og þó við elskum baráttuna og varnarleikinn hjá Köttunum, erum við blinduð af óskiptu hatri í garð Larry Brown.
Ekkert myndi gleðja okkur meira en að láta þá mann-hóru þurfa að hanga aðeins lengur í 25546356. þjálfarastarfi sínu í NBA deildinni - áður en hann mellast á næsta klúbb (verði Sixers að góðu).
Möguleikarnir eru vissulega fleiri. Hvað með Atlanta ef liðið tapar öðrum leik á móti miðherjalausu Milwaukee-liði sem var brandari fyrir þremur mánuðum síðan?
Eða Denver, sem er ekki langt frá því að detta út í fyrstu umferð þrátt fyrir heimavallarrétt á móti liði án tveggja byrjunarliðsmanna?
Tökum allt til greina.
Af því við erum fífl og af því við viljum ekki sjá bestu liðin í deildinni falla út í fyrstu umferð.
Og við vorum allt í einu að fatta að þessi nákvæmlega sama teóría gæti átt við um einvígi LA Lakers og Oklahoma... amk ef Oklahoma vinnur einn leik í viðbót í einvíginu.
Þá verður það klassík ef það er ekki þegar orðið það.
Dwight Howard spilaði lítinn körfubolta í fyrstu umferðinni
Við verðum að hrósa mönnum þegar það á við.
NBA Ísland vill nota þetta tækifæri til að óska Orlando Magic til hamingju með að verða fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í annari umferð úrslitakeppninnar með því að sópa Charlotte Bobcats út 4-0 í kvöld.
Við reiknuðum með að þessi sería yrði mun meira spennandi en raun bar vitni en þð er aldrei tilviljun þegar liðum er sópað út í sjö leikja seríum.
Leikmenn Charlotte börðust vel og fá kúdós á það, en sóknarleikur liðsins er bara ekki til staðar.
Þessi sería var nokkuð áhugaverð þrátt fyrir að vera svona ójöfn. Dwight Howard mun ekki veita af fríinu sem hann fær eftir þessa seríu, því hann er búinn að vera í ruglinu allt einvígið. Dómarar eru farnir að leggja hann í einelti af því hann biður um það.
Howard er búinn að verja rosalega mikið af skotum, en hann er með fleiri villur en varin skot að meðaltali í leik. Tölfræðin ekki beint dómínerandi. Innan við 10 stig að meðaltali í leik, innan við 10 fráköst, of margir tapaðir boltar, grátleg vítanýting og innan við 50% skotnýting. Þarna fer svokallaður besti miðherji deildarinnar, sem eyddi bróðurpartinum af þessu einvígi grátandi á bekknum í villuvandræðum.
Ekki fékk Orlando mikið meiri hjálp frá stjörnunni Vince Carter. Nægir að nefna þriggja stiga nýtinguna hans í einvíginu. Einn þristur - í sautján tilraunum. Klassík.
Orlando getur þakkað Jameer Nelson að ekki fór verr í þessu einvígi. Hann var töffari. Bætti sig um tólf stig að meðaltali frá því í deildakeppninni og kláraði tvo leiki fyrir Orlando.
Venjulega myndum við vilja hrósa Orlando að ná að sópa þessu einvígi þrátt fyrir að vera með menn eins og Howard og Carter í meira rugli en venjulega, en við tökum "glasið er hálftómt" stefnuna á þetta og kjósum að líta þannig á málið að Orlando þurfi að pappíra sig.
Larry Brown í Rauða Hverfinu
LARRY (Nýr texti við lag Police "Roxanne")
Larry, you don't have to change a team this week
Those days are over
You don't have to sell your bullshit to the league
Larry, you don't have to play the hack-a-Dwight
Fuck your teams for money
You don't care if it's wrong or if it's right
Larry, you don't have to play the hack-a-Dwight
Larry, you don't have to play the hack-a-Dwight
Play the hack-a-Dwight, play the hack-a-Dwight.
Play the hack-a-Dwight, play the hack-a-Dwight.
Play the hack-a-Dwight, oh
I hate you since I knew ya
I love to talk down to ya
I have to tell you just how I feel
Wouldn´t touch you with a ten foot pole
I know my mind is made up
You always make me throw up
Told you once I won't tell you again it's a bad way
Larry, you don't have to play the hack-a-Dwight
Larry, you don't have to play the hack-a-Dwight
You don't have to play the hack-a-Dwight
Hackin-da-Dwight, hackin-da-Dwight
Sunday, April 25, 2010
Drengirnir í Oklahoma City Thunder eru góðir í körfubolta
Einvígi LA Lakers og Oklahoma er stórkostlegt. Ekkert minna en það.
Það er með ólíkindum hvernig þessir ungu og óreyndu Oklahoma-drengir eru að gefa öllum sérfræðingum langt nef með frammistöðu sinni. Tóku meistarana og flengdu þá í fjórða leiknum. Létu þá líta út eins og viðvaninga.
Stemmingin í Oklahoma hefur verið lygileg. Stemmingin á klósettunum þar er betri en á heimavelli Miami þegar Dwyane Wade skorar 46 stig og bjargar liðinu einn síns liðs frá því að fara í sumarfrí.
Talandi um klósett. Við leggjum til að Pat Riley ráði Jermaine O´Neal í að þrífa klósettin í American Airlines Arena á næstu leiktíð. Michael Beasley gæti kannski aðstoðað hann við verstu blettina.
Þið verðið að afsaka hvað er lítill andi í okkur til skrifa í augnablikinu. Það er svona að vera í þriðju veikindasveiflunni síðan um páska. Nóg til keyra hvern mann og konu í algjöra geðveiki.
Hey, var það búið að koma fram hérna að LeBron James er langbesti körfuboltamaður í heimi?
Tími fyrir næsta lyfjaskammt og Spurs-Mavs #4.
Það verður hressandi.
Saturday, April 24, 2010
Þetta vitum við í dag
Við vitum að Miami hafði ekkert í þessa úrslitakeppni að gera. Einvígi Boston og Miami er búið og síðarnefnda liðið gleymdi áhuganum, stoltinu og hjartanu heima.
Við vitum að Oklahoma ætlar að gefa Lakers hrikalega seríu og að sú undarlega staða er komin upp að ef Lakers fer áfram í aðra umferð, fær liðið auðveldari andstæðing þar en í fyrstu umferðinni. Leikmenn LA Lakers horfðu skælbrosandi á Utah bursta grátlega Denver-menn í gær.
Við vitum að Chicago gaf Cleveland eitthvað til að hugsa um í þriðja leiknum og minnti á hvað liðið væri hættulegt ef það næði sér í góðan leikmann í sumar.
Og við vitum að einvígi Dallas og San Antonio er skemmtilegasta og jafnasta einvígið í úrslitakeppninni.
Það er nú eitthvað.
Friday, April 23, 2010
Miami-Boston í beinni í kvöld
Stuðningsmenn Boston og Miami fá eitthvað fyrir peninginn í kvöld þegar þriðji leikur liðanna verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 23:00.
Það kemur í ljós í kvöld hvort Miami-menn ætla að gera seríu úr þessu eða hvort þeir ætla að halda áfram að leika gólfmottur á móti Boston.
Staðan er 2-0 fyrir þá grænu og hefur Miami-liðið vægast sagt valdið vonbrigðum í einvíginu. Við höfum oft óreynd lið finna sig betur þegar þau koma á heimavöllinn og vonandi fyrir Miami-aðdáendur verður eitthvað slíkt uppi á teningnum hjá Heat í kvöld - annars er þessi sería búin.
Fjórði leikur liðanna á sunnudagskvöldið verður líka í beinni á Stöð 2 Sport og hefst hann klukkan 17:00.
Thursday, April 22, 2010
Ósýnilegi maðurinn sást í Dallas
Við sögðum ykkur að einvígi Dallas og San Antonio yrði líklega eitt það skemmtilegasta í fyrstu umferðinni og það er sennilega eini spádómur okkar sem er ekki farinn til helvítis.
San Antonio mætti grönnum sínum af hörku í kvöld og hefur jafnað metin í 1-1. Næstu tveir leikir í San Antonio.
Það var allt annað að sjá til Spurs í þessum leik en þeim fyrsta, enda hraunaði Popovic þjálfari yfir sína menn eftir fyrsta leikinn.
Kallaði þá rakka og óskaði eftir því að þeir færu að spila "eins og þeim væri ekki skítsama."
Það hjálpaði að Dirk Nowitzki var ekki með 300% skotnýtingu í þessum leik, en nokkur atriði skiptu mestu máli í þessum viðsnúningi.
San Antonio passaði betur upp á boltann og frákastaði betur en í leik eitt. Vörn Dallas var ekki eins góð og svo poppaði ósýnilegi maðurinn, Richard Jefferson, upp á hárréttum tíma og sallaði 17 af 19 stigum sínum niður í fyrri hálfleik. Sýndi nánar tiltekið af hverju hann var fenginn til liðsins á sínum tíma.
Og Tim Duncan datt í retro-gírinn og ísaði áhlaup Dallas í fjórða leikhlutanum.
Mjög flottur sigur hjá Spurs, sem hafa ekki sagt sitt síðasta í þessu einvígi. Spáum að liðin skipti með sér leikjunum tveimur í San Antonio.
Það er svo greinilegt að San Antonio spilar ekki sömu vörn og áður. Dallas getur alltaf náð smá áhlaupum á þá, en sóknarleikur Spurs hefur batnað til muna eftir að það fékk alla sína menn aftur úr meiðslum.
--------
Einvígi Orlando og Charlotte hefur valdið okkur nokkrum vonbrigðum. Það fór vel af stað, en Charlotte er bara ekki með næg vopn til að gera seríu úr þessu.
Þeim hefur tekist að klippa Dwight Howard mikið út, en þú ert ekki að fara að vinna einvígi við Orlando ef þú ert bara með tvo menn í liðinu sem geta skorað 20 stig á góðum degi.
Leikmenn og þjálfarar Orlando gráta mikið yfir því að Dwight Howard fái enga virðingu frá dómurum. Við verðum að taka undir það að villurnar sem er verið að dæma á hann eru sumar hverjar gjörsamlega fáránlegar.
Staðreyndin er hinsvegar sú að menn ávinna sér virðingu. Og það er Howard ekki búinn að gera. Hann gerir nokkra hluti mjög vel, en hann er enn klaufskur, brýtur asnalega af sér og er ekki með "virðingarverðan" sóknarleik.
Wednesday, April 21, 2010
Næstum því
Staðan í einvígi Oklahoma og LA Lakers er orðin 2-0 fyrir Lakers, sem vann nauman sigur í öðrum leik liðanna í gær.
Það var greinilegt að guttarnir í Oklahoma eru ekki alveg tilbúnir í meistarana ennþá, en það þýðir ekki að þeir hafi ekki barist hetjulega. Með smá heppni hefðu þeir geta stolið leiknum í gær.
Nú fer einvígið til Oklahoma þar sem stemmingin verður vafalítið rosaleg í leikjum þrjú og fjögur. Þyrfti ekki að koma á óvart þó heimamenn næðu að gera seríu úr þessu þar.
Lakers-liðið virkar ekki eins sterkt og það hefur verið. En þegar öllu er á botninn hvolft, er liðið búið að vinna tvo fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni og það er víst ekki hægt að gera betur.
Atlanta virðist ekki ætla að verða í miklum vandræðum með miðherjalaust Milwaukee-liðið. Atlanta er búið að vera undir í samtals eina og hálfa mínútu eða svo í fyrstu tveimur leikjunum.
Miami og Boston á skjánum um helgina.
Boston er líka í góðum málum eftir að hafa varið heimavöllinn gegn Miami. Tökum það ekki af Boston að liðið er að spila sína bestu vörn á árinu, en Miami er að bregðast væntingum okkar algjörlega það sem af er. Grátlega lélegt.
Miami-mönnum er hollara að spila betur á heimavelli sínum, því leikir þrjú og fjögur verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport um helgina (föstudag og sunnudag).
Við vorum búin að greina frá því að leikur fjögur hjá San Antonio og Dallas yrði á dagskrá á sunnudagskvöldið, en það er tóm vitleysa. Það voru engir aðrir leikir í boði fyrir stöðina en þessir Boston-leikir og þannig er það bara.
Tuesday, April 20, 2010
Undirmannað lið Jazz spilaði körfubolta
Það eru liðnir ansi margir klukkutímar síðan Utah jafnaði metin í 1-1 í einvígi sínu við Denver með ótrúlegum útisigri.
Það þýðir ekki að við séum enn búin að átta okkur á því hvað við eigum að segja um það allt saman. Spurningarnar eru svo margar.
Það fyrsta sem ber að taka fram er auðvitað að við tippuðum á það áður en úrslitakeppnin byrjaði að Denver og Phoenix ættu nokkuð viðráðanleg verkefni fyrir höndum.
Það kemur því ekki á óvart að Utah og Portland séu einu liðin sem hafa unnið á útivelli í úrslitakeppninni til þessa. Hvað getum við sagt? Flengið okkur og kallið okkur Klíngenberg!
Ástæðan fyrir því að við vitum ekki hvað við eigum að segja um leik Denver og Utah í gær er sú, að við vitum ekki hvort við eigum að stökkva upp úr stólnum yfir hugrekki og baráttu Utah-manna - eða hrauna yfir Denver. Líklega væri réttast að gera bæði.
Denver á eftir að vinna þessa séríu, svo það er engin ástæða fyrir þá til að örvænta, en lítum á stöðuna sem liðið var í fyrir leik tvö í gær.
*Denver var yfir 1-0 og með sálfræðilegt tak á Jazz eftir öruggan sigur í fyrsta leiknum.
*Utah er án Mehmet Okur og Andrei Kirilenko, sem jafngildir því að Denver væri án Nene og J.R. Smith.
*Utah fann engin svör við Carmelo Anthony í fyrsta leiknum.
*Meiðslin hjá Utah þýða að lykilmenn þurftu að bæta á sig mínútum og voru því lúnir.
*Denver breytti varnarleiknum til að stöðva Deron Williams eftir framgang hans í leik 1.
*Denver var á heimavelli gegn andstæðingi sem var særður.
Eins og þú veist nú þegar náði Denver ekki að klára verkefnið. Þeim er hollara að vinna þessa seríu.
Verðum að gefa Utah kúdos fyrir að vinna þennan leik, hvað svo sem verður.
Það hefði verið rosalega auðvelt að velta sér á bakið og tapa eftir að Denver náði 14-0 spretti í þriðja leikhlutanum, en leikmenn Jazz hafa líklega verið hræddari við Jerry Sloan en áhorfendur Denver.
Fjölmiðlar hafa verið að ausa líkið Kyrylo Fesenko lofi eftir leikinn. Það er hinn svokallaði miðherji sem hljóp í skarðið í 20 mínútur fyrir Utah. Hann var mjög taugaóstyrkur ræfillinn, enda ekkert fengið að spila í allan vetur og það er reyndar alls óvíst að hann kunni yfir höfuð körfubolta.
Til að gera langa sögu stutta, náði hann aðeins að vera fyrir, en hann spilaði ekki vel. Súrt að vera með svona stóran mann á bekknum og geta ekki notað hann.
Utah getur að mestu þakkað Deron Williams fyrir sigurinn í þessum leik. Alltaf einn og einn maður sem kallar hann besta leikstjórnanda í NBA. Skrítið að svoleiðis maður sé bara búinn að slefa inn í eitt stjörnulið. Alltaf frábær í deildakeppninni - en betri í úrslitakeppninni. Tekur sinn leik á annað level þrátt fyrir að varnarplön andstæðinganna gangi út á það númer eitt, tvö og þrjú að halda honum niðri.
Það á mikið blóð eftir að renna áður en þetta einvígi klárast.
LeBron setur James Johnson á veggspjald
Það er engin furða að Joakim Noah sé illa við Cleveland. Okkur væri líka illa við plássið ef einhver veggspjaldaði okkur svona...
Joakim Noah er með þetta
Þegar maður er að fara að spila við Cleveland í fyrstu umferð, stendur maður frammi fyrir nógu erfiðu verkefni. Óþarfi að reita LeBron James, Shaq og félaga til reiði líka. Eða það hefur að minnsta kosti verið mat forráðamanna Chicago Bulls og líklega flestra annara.
Miðherjinn Joakim Noah hjá Chicago er á öðru máli. Hann talar sínu máli. Cleveland fer í taugarnar á honum. Ekki borgin, þannig séð, heldur stælarnir í leikmönnum liðsins. Hann er ekki búinn að gleyma því þegar LeBron bauð upp á riverdance-bullið í leik liðanna í vetur - framkoma sem í raun og veru bar vott um vanvirðingu.
Menn eiga auðvitað að reyna að bera sig fagmannlega, en við getum ekki annað en borið virðingu fyrir því hvað Joakim Noah er ekkert hræddur við Cavaliers. Honum er skítsama. Og honum finnst Cleveland vera skítapleis. Og það sem meira er - hann er að bakka kjaftbrúkið upp inni á vellinum. Það er töff.
Við verðum að viðurkenna að Joakim Noah hefur fram að þessu farið mikið í taugarnar á okkur, en við stóðum með honum í riverdance-málinu og nú hefur hann algjörlega unnið okkur á sitt band. Hann er góður leikmaður og hann er með vaðandi óld-skúl viðhorf. Meira svona.
Monday, April 19, 2010
Þetta gerðist í gær
LA Lakers 1 - Oklahoma 0
Fyrsti leikur LA Lakers og Oklahoma fór eftir bókinni ef marka mátti fræðiupphitanir fyrir þessa seríu.
Oklahoma átti erfitt uppdráttar frá fyrstu mínútu, en það er gríðarlega erfitt að slá þetta lið út af laginu. Til þess er varnarleikur liðsins allt of góður.
Einhver á eftir að benda á að Kevin Durant hitti ekkert í sínum fyrsta leik í úrslitakeppninni - með Ron Artest í grímunni, en það gerði Kobe Bryant ekki heldur.
Mikið var búið að spá í það hvernig Lakers-liðið myndi mæta til leiks í úrslitakeppninni og þeir gulu eru eflaust ágætlega sáttir við sig eftir þennan fyrsta leik. Vörnin hjá þeim flott og sömu sögu er að segja um Oklahoma.
Flott frumraun hjá þeim, en stóru strákarnir hjá Lakers eru bara of mikið fyrir þessa gutta og það eru þeir frekar en nokkuð annað sem tryggir Lakers sigur í þessari seríu. Hún gæti þó klárlega orðið mjög skemmtileg.
Orlando 1 - Charlotte 0
Fyrsti leikur Orlando og Charlotte var mjög flottur. Það verður skemmtileg sería út í gegn ef Kettirnir klóra svona harkalega frá sér eins og þeir gerðu í þessum leik. Yndisleg geðveiki í þessu liði. Flott vörn og harka. Vantar ekkert rosalega mikið upp á að gera þetta að hörkuliði.
Orlando byrjaði eftir bókinni og sullaði þristum. Jameer Nelson heitari en allt og Dwight Howard hótaði 20 vörðum skotum. Þar með var það upp talið.
Charlotte hefði líklega unnið þennan leik ef Vince Carter (4-19 í skotum) hefði ekki farið af velli með sína sjöttu villu þegar nokkrar mínútur lifðu leiks.
Súrt að sjá höfðingja eins og Mikael Pietrus og JJ Redick sitja á tréverkinu meðan Vince raðar múrsteinum sem fengju Tommy Johnson til að gretta sig.
Dwight Howard var líka dómínerandi í sóknarleiknum og náði meira að segja að jafna þar framlag Theo Ratliff (2-4 í skotum, 5 stig), hirða 7 fráköst og fá 6 villur (fékk bara 5 skráðar á sig af því dómararnir þorðu ekki að dæma þá sjöttu á hann þegar hann lamdi Gerald Wallace í hausinn þegar nokkuð var eftir af leiknum).
Howard og Carter skvettu þarna einu stykki 20 lítra olíubrúsa á eineltiseldinn okkar hérna á NBA Ísland og verða bara að gjöra svo vel að lifa með því.
Dallas 1 - San Antonio 0
Einvígi Dallas og San Antonio ætlar að verða algjör rjómi eins og við vonuðum. Mikið áhyggjuefni fyrir Spurs að þeirra bestu menn voru að spila ágætlega í þessum leik en samt áttu þeir ekki breik í Dallas.
Dirk Nowitzki var fullkomlega í ruglinu heitur og menn eins og Butler og Marion stigu á stokk og bættu fyrir slakan leik Jason Terry. Þá er lengdin á Dallas í miðjunni ekkert að hjálpa Spurs.
Ó, já - og var einhver búinn að hringja í Hreinsitækni og panta tankbíl til að þrífa upp eftir Richard Jefferson? Gaurinn heldur bara áfram að skilja eftir sig úrgang af áður óþekktum toga á vellinum.
Fyndið hvað Manu er bara orðinn allt í spilinu hjá liðinu. Parker ekki að keyra mikið, enda nær Dallas alltaf að fela Kidd í vörninni. Ekki gott fyrir þá svörtu.
Phoenix 0 - Portland 1
Og síðast en ekki síst. Einvígið sem við spáðum að yrði það ójafnasta í fyrstu umferðinni.
Það fór að sjálfssögðu þannig að Portlant varð eina liðið í fyrstu átta leikjunum í úrslitakeppninni til að vinna á útivelli.
Spádómsgáfa okkar hérna á ritstjórninni er ævintýralega léleg og við erum stolt af því.
Þetta einvígi er auðvitað ekki búið og Phoenix vinnur það, en þegar svona er þurfa menn bara að taka ofan hattana.
Taka ofan fyrir Nate McMillan, sem er frábær þjálfari. Fyrir Andre Miller og Marcus Camby og fyrir frábærri baráttu, karakter og varnarleik Portland.
Amare Stoudemire fær hinsvegar engan Thule fyrir frammistöðu sína í fyrsta leik.
Sunday, April 18, 2010
Þetta vitum við í dag
Fyrstu leikirnir í úrslitakeppninni í gær voru misspennandi og misáhugaverðir.
Cleveland var ekki í teljandi vandræðum með Chicago í fyrsta leik. Þar kom ekkert sérstaklega á óvart nema kannski hve frískur Shaquille O´Neal virkaði í leiknum.
Hann var bara eins og Ledley King. Hafði ekki spilað síðan í febrúar en kom inn og stóð sig vel eins og hann hefði aldrei misst úr leik.
Einvígi Atlanta og Milwaukee verður ekki áhugavert fyrr en Milwaukee fer að vinna leiki.
Og það tókst liðinu ekki í gær, þrátt fyrir fínan leik frá nýliðanum Brandon Jennings. Stjörnumiðherjinn Al Horford mæti að ósekju vera pínulítið dómínerandi í þessu einvígi.
Denver á auðvelt verkefni framundan gegn Utah, ekki síst eftir að Utah missti enn einn manninn í meiðsli. Mehmet Okur gagnast liðinu ekki meira í þessari seríu - sem er búin.
Utah á engan miðherja eftir (Koufos og Fesenko eru tveir lélegustu leikmennirnir í allri NBA deildinni) og finnur ekki svör við Carmelo Anthony, JR Smith og Ty Lawson. Átakanlegt hvað Adrian Dantley nýtur engrar virðingar sem þjálfari. Það var drullað yfir hann alla útsendinguna úr öllum áttum. "With George Karl out, Carmelo Anthony needs to be the leader of this team (!)"
Þá eigum við bara eftir fyrsta leik Boston og Miami.
Ef þú ert hörundsár Celtics-maður, mælum við með því að þú sleppir því að lesa restina af þessari færslu, af því við skrifuðum hana með ristlinum.
Leikurinn þróaðist eins og við áttum von á, nema hvað Miami skeit aðeins meira blóði í fjórða leikhluta en við töldum að væri mannlega mögulegt.
Miami hefur alla burði til að vinna Boston, en aukaleikarar liðsins eru allir dauðhræddir og hafa ekki kjark í verkefnið.
Tökum það ekki af Boston að liðið sýndi þokkalegan varnarleik í síðari hálfleik, en liðið er samt lakara en við þorðum að vona ef eitthvað er. Lokakaflinn í þessum leik var svo leiðinlegur að það drápust tveir kaktusar hérna á skrifstofunni.
Paul Pierce er orðinn svo leiðinlegur leikmaður að við höfum enn ekki náð okkur upp úr þeirri geðlægð sem við sukkum í þegar við horfðum á hann detta vælandi út af hliðarlínunni þarna í lokin. Gaurinn er í standandi Didier Drogba-eftirhermum! Pierce var einu sinni nagli, en hann er það ekki lengur. Pierce var besti leikmaður deildarinnar í úrslitakeppninni fyrir tveimur árum, en er það ekki lengur. Núna er hann bara leiðinlegur.
Kevin Garnett fékk okkur svo endanlega til að æla yfir okkur galli með tilþrifum sínum í pústrunum sem upphófust í kjölfarið. Hvaða rugl var þetta?
Það var gaman að sjá að Steven Tyler í Aerosmith var að horfa á þennan leik í Boston. Það að horfa á Boston spila þessa dagana - og þá sérstaklega Paul Pierce - er eins og að vera læstur inni í skúringakompu í þrjá klukkutíma og þurfa að hlusta á "I don´t wanna miss a thing" á repeat í botni allan tímann. Nóg til að fella fjóra hektara af kartöflugrösum.
Svo erum við búin að fá nóg af því að allir séu að kalla Pierce, Garnett og Allen "The Big Three" og bestu leikmenn Boston. Það er kjaftæði. Rajon Rondo er besti leikmaður Boston og heilt yfir mikilvægasti leikmaður liðsins. Og ekki orð um það meir!
Það var alls ekki ætlunin að fara út í eitthvað Boston-hatur hérna. Þetta lið er bara að gera okkur, og ansi marga aðdáendur sína, geðveika í vetur. Reynið að láta ykkur vaxa par, grænir!!!
Saturday, April 17, 2010
Úrslitakeppnin er byrjuð - Spáin komin í hús
Í dag er sannkallaður hátíðardagur. Úrslitakeppnin í NBA er að byrja.
Leikar hefjast nú um klukkan 19 og teitinu lýkur ekki fyrr en undir morgun.
Eins og fram hefur komið hefur ritstjórnin legið í heljarpestum síðan á páskum og því varð ekkert úr því að við gerðum rándýra upphitun fyrir úrslitakeppnina.
Ætlum samt að reyna að klóra í bakkann með smá pælingu sem tæplega verður þó tímamótaverk.
Fyrst gerðum við heimatilbúinn úrslitabrakka með heildarspá okkar fyrir úrslitakeppnina (smelltu til að stækka myndina). Hann er eingöngu til þess að þið lesendur getið hlegið ykkur máttlausa yfir ævintýralega lélegum spádómsgáfum okkar hérna á ritstjórninni. Allt fyrir ykkur.
Svo er ekki úr vegi að líta aðeins á einvígin í fyrstu umferðinni:
AUSTURDEILD:
Cleveland (1) - Chicago (8): Þessi rimma ætti með öllu að verða ein sú ójafnasta í allri úrslitakeppninni. Við gefum Bulls einn sigur þarna af því þeir eru svo seigir og af því lykilmenn Cleveland gætu orðið dálítið ryðgaðir í byrjun. Það kæmi ekkert rosalega á óvart ef Bulls næði aðeins að stríða Cavs, en Cleveland vinnur þessa rimmu örugglega.
Boston (4) - Miami (5): Þetta verður mjög áhugaverð rimma. Veltur mjög mikið á því hvort Boston nennir að taka þátt í henni eða ekki. Miami er alls ekki gott lið, en Dwyane Wade er um það bil helmingi betri leikmaður en nokkur annar spilari í þessari seríu. Wade gæti gefið leikmönnum Celtics martraðir og það gætu ferskir fætur Miami-manna gert líka. Boston á að vinna þessa seríu en við erum með óbragð í munninum eftir að hafa horft upp á liðið spila undanfarnar vikur og því ætlum við að spá Miami sigri í oddaleik.
Orlando (2) - Charlotte (7): Orlando ætti að vinna þessa seríu án mikilla vandræða, en x-faktórarnir eru rosalega margir. Til dæmis Larry Brown, Stephen Jackson og Vince Carter. Þetta er sú sería sem við eigum hvað erfiðast með að lesa í. En Orlando ætti að vinna þetta nokkuð örugglega. Nóg pláss fyrir óvænta hluti þarna samt.
Atlanta (3) - Milwaukee (6): Atlanta er betra lið og vinnur þessa seríu. Andrew Bogut er meiddur hjá Bucks og Brandon Jennings er nýliði. Gefum Bucks tvo sigra af því Atlanta er ekki alveg nógu sannfærandi og af því Milwaukee er seigt lið þjálfað af Scott Skiles - og hefur engu að tapa.
VESTURDEILD:
LA Lakers (1) - Oklahoma (8): Við rennum blint í sjóinn þarna og segjum að Oklahoma vinni tvo leiki í þessari seríu. Við höfum ekki hugmynd um hvernig Lakers-liðið mætir til leiks í þessa seríu. Það kæmi okkur ekkert á óvart þó Lakers myndi rúlla þessu upp, en við ætlum að tippa á að hvolparnir stríði þeim aðeins.
Denver (4) - Utah (5): Þessi sería er stór ráðgáta. Ef George Karl væri að þjálfa Denver, færi þessi sería 4-1 fyrir Denver af því liðið er með heimavöllinn og meiðsli gera það að verkum að Jazz á engin svör við Carmelo Anthony (og hafði þau ekki fyrir heldur). Við gefum Jazz þó tvo sigra í þessu af því Denver er búið að vera í vandræðum og af því Sloan hlýtur að nýta sér að vera miklu betri þjálfari en Dantley. Denver vann einvígið við Utah í vetur og þar af einu sinni án Anthony og Billups. Go figure.
Dallas (2) - San Antonio (7): Við tippum á að þetta verði skemmtilegasta serían í fyrstu umferð. Hvert einasta bein í okkur langaði að spá Spurs sigri, en betri vitund kom í veg fyrir það. Dallas hefur rúllað Spurs upp undanfarin ár og af hverju ætti það að breytast núna? Við yrðum þó alls ekki hissa ef Spurs stælu þessu (og færu fyrir vikið í úrslit Vesturdeildar).
Phoenix (3) - Portland (6): Phoenix er heitasta liðið í Vesturdeildinni í dag og Portland er vængbrotnara en venjulega án Brandon Roy. Blazers leggjast ekki niður og grenja í þessari seríu, en eiga engan séns. Formsatriði hjá Phoenix og líklega auðveldasta rimman til að spá fyrir um í allri úrslitakeppninni.
Friday, April 16, 2010
Nauðsynlegar sjónvarpsupplýsingar
Nú liggur fyrir hvaða leikir verða sýndir beint á NBA TV fyrstu dagana í úrslitakeppninni og höfum við uppfært það á dagskrársíðunni okkar.
Ef þér er um megn að finna hana, geturðu smellt hér.
Eins og þið vitið sér NBA TV frekar um liðin á smærri mörkuðum í deildinni og er því síður með "stóru" liðin í beinni. Stöðin sýnir grimmt frá fyrstu tveimur umferðunum en síðan leggjast útsendingar af.
Hefð hefur verið fyrir því að þá taki Stöð 2 Sport við og sýni megnið af undanúrslitaviðureignunum og svo auðvitað alla leiki í lokaúrslitum. Svipað verður uppi á teningnum að þessu sinni.
Stöð 2 Sport fer af stað með beinar útsendingar um aðra helgi (24.-25. apríl).
Föstudagur 23. apríl kl. 23:00: Miami-Boston (leikur 3).
Sunnudagur 25. apríl kl. 17:00: San Antonio-Dallas (leikur 4).
Það verða auðvitað allir að vita þetta og þú lesandi góður verður að vera duglegur að breiða út fagnaðarerindið. Láta alla vita að úrslitakeppnin sé að byrja. Enginn má missa af þessu. Fylgjumst spennt með.
Við erum með óráði
Sextíu þúsund dollarar.
Það er upphæðin sem NBA deildin er búin að hrifsa úr vösum Kevin Garnett og nú síðast Phil Jackson fyrir að gagnrýna meinta sérmeðferð sem Kevin Durant hjá Oklahoma á að vera að fá hjá dómurum í NBA.
Það er hægt að gera ansi margt fyrir þennan pening. Annað en að rífa kjaft eins og unglingur í uppreisn.
Ætli það sé að fara í taugarnar á gömlu hundunum að sé að koma upp frískur Doberman-hvolpur sem ógnar veldi þeirra?
Nei, varla. Garnett og Jackson verða væntanlega báðir hættir áður en Durant nær að spila til úrslita um NBA titilinn.
Nema hann ætli að gera það í sumar.
Þið sem fylgist eitthvað með gangi mála í NBA ættuð að vita að Philadelphia er búið að reka Eddie Jordan og að Kim Hughes hefur verið rekinn frá LA Clippers. Ekki beint óvænt tíðindi - né fréttir sem fá fréttamenn til að yfirgefa gosstöðvarnar.
Spurning yfir höfuð af hverju við erum að minnast á það hér. Kannski til að reyna að framkalla uppköst, sem í besta falli gætu flýtt fyrir bata ritstjórnarinnar. Flensan hefur herjað hér á menn og mýs síðustu daga. Og það er farið að hafa neikvæð áhrif á ritstörf.
En póstarnir sem við fáum frá ykkur, kæru lesendur, hjálpa okkur mikið í þessum ónotum. Hlaða í okkur góðum anda.
Það er í raun ótrúlegt, að á miðjum hamfaratímum í efnahagsmálum, pólitík og meira að segja í náttúrunni, skuli fólk enn nenna að setjast við tölvu og láta í sér heyra ef það er ánægt með eitthvað. Slíkt heyrum við ekki úti á götu eða lesum á Facebook.
En inboxið á NBA Ísland er alltaf fullt af góðum anda. Fegurð leiksins nær langt út fyrir völlinn. Takk fyrir okkur.
Um hvað snerist þessi færsla aftur...?
Thursday, April 15, 2010
Kevin Durant skorar stig í körfubolta þrátt fyrir ungan aldur
Kevin Durant hjá Oklahoma varð í gær yngsti stigakóngur í sögu NBA.
Þessi 21 árs gamli skorari var með 30 stig að meðaltali í vetur með einu yngsta liði deildarinnar og er ein helsta ástæða þess að það vann 50 leiki. Hann er ekki bara frábær sóknarmaður, heldur einnig prúður drengur og þeir eru ekki of margir í deildinni.
Thunder bætti sig um 27 sigurleiki frá því í fyrra, þegar það byrjaði leiktíðina 3-29 á sínu fyrsta tímabili í Oklahoma.
Það er ekki hægt að hrósa þessu liði og þjálfaranum Scott Brooks nógu mikið fyrir veturinn. Og nú fær þetta spútniklið alvöru eldskírn í úrslitakeppninni á móti meisturunum í LA Lakers.
Phil Jackson þjálfari Lakers virðist vera smeykur við guttana, því hann er farinn í sálfræðistríð við Kevin Durant í fjölmiðlum. Endurómar 25 þúsund dollara skoðun Kevin Garnett frá því um daginn og segir að Durant fái sérmeðferð frá dómurum.
Nákvæmlega enginn klassi í þessum ummælum Jackson. Við höfum alveg séð Durant fara nokkrum sinnum ódýrt á vítalínuna, en hann er ekki sá eini sem fær slíka meðferð. Og ekki fékk hann stjörnumeðferðina í leiknum á móti Utah um daginn.
Við vonum að Oklahoma-menn nái sér vel á strik á móti Lakers og geri úr þessu hörku seríu.
Wednesday, April 14, 2010
Allt á suðupunkti í kvöld
Í kvöld fer fram lokaumferðin í NBA deildinni. Spennan í Vesturdeildinni er rosaleg, þar sem enn geta orðið gríðarlegar sveiflur í töflunni á lokakvöldinu.
Það eina sem liggur fyrir er að meistarar LA Lakers (1) fá það erfiða verkefni að mæta Oklahoma City (8) í fyrstu umferðinni.
Allt annað er upp í loft og innbyrðisviðureignir gætu skorið úr um niðurstöðuna einhverjum tilvikum. Það er tvíhöfði á NBA TV.
Charlotte-Chicago 0:00
Utah-Phoenix 2:30
Leikir kvöldsins
Staðan í deildinni fyrir lokaumferðina
Hér fyrir neða ná sjá hvernig málin geta þróast í vestrinu í kvöld:
Dallas will be seeded:
No. 2 if Mavericks win vs. Spurs or Jazz lose to Suns
No. 3 if Mavericks lose and Utah wins
Utah will be seeded:
No. 2 if Jazz beat Suns and Mavericks lose to Spurs
No. 3 if Jazz beat Suns, Mavericks beat Spurs
No. 5 if the Jazz lose to the Suns
Denver will be seeded:
No. 4 if Suns beat the Jazz
No. 5 if Jazz beat the Suns
Denver wins the Northwest Division if the Jazz lose tonight
Phoenix will be seeded:
No. 3 if the Suns beat the Jazz
No. 4 if Suns lose to the Jazz
Portland will be seeded:
No. 6 if Blazers win OR Spurs lose
No. 7 if Blazers lose and Spurs win
San Antonio will be seeded:
No. 6 if Spurs win and Blazers lose
No. 7 if Spurs lose OR Blazers win
Rasheed Wallace toppar sig með sjálfskörfu
Einmitt þegar við héldum að ömurleikinn gæti ekki orðið mikið meiri hjá Rasheed Wallace og Boston Celtics, gerist eitthvað svona. Þetta er dálítið lýsandi fyrir gengi Boston síðustu vikurnar. Mjög neyðarlegt.
Það kemur stundum fyrir að menn blaki boltanum ofan í eigin körfu í slagsmálunum í teignum, en eins og sjá má á myndbandinu fyrir ofan er ekki nokkur pressa á Wallace þegar hann aular boltanum ofan í eigin körfu. Þetta er bara blanda einbeitingarleysi og kæruleysi.
Og þetta var besta skot Wallace í allan vetur.
Hvernig ætli stuðningsmönnum Celtics líði núna? Við höfum alvöru áhyggjur af þeim.
Svona vinnur Golden State körfuboltaleiki
Við verðum að viðurkenna að það kemur okkur mjög mikið á óvart þegar Golden State vinnur leiki.
Þjálfari liðsins er óður vísindamaður í sókn og níhílisti í vörn, liðið hefur keyrt á sjö til átta mönnum í allan vetur af því helmingurinn af liðinu er alltaf á sjúkralista og þar fyrir utan er liðið hreint ekki vel skipað.
Leikmenn Warriors hafa misst úr um 500 leiki samtals í vetur, sem er eiginlega bara fyndið frekar en nokkuð annað.
Hvernig fer þetta lið þá eiginlega að því að vinna körfuboltaleiki?
Jú, það er af því mótherjar liðsins vita ekki hvernig þeir eiga að haga sér þegar þeir mæta Warriors.
Að spila á móti Warriors er eins og að fara inn í hnefaleikahring á móti átta ára gamalli stelpu. Þú kannt bara ekki við að rota hana. Þó þú getir það og eigir að gera það.
Stóru mennirnir fá boltann niðri á blokkinni og það kemur enginn að dekka þá. Bakverðir fá eina hindrun og eru galopnir. Menn eru ekki vanir þessu. Þeir vita ekki hvað þeir eiga af sér að gera.
Stephen Curry er svo bókstaflega gott dæmi um þetta. Hann er álíka ógnandi og Lára í Húsinu á Sléttunni. Menn bara fá sig ekki til þess að fara að gefa honum olnbogaskot í rifbeinin eða lemja hann í gólfið þegar hann fer upp í sniðskot.
Svo keyrir hann framhjá þér og smellir tveimur þristum í andlitið á þér, þú ferð að elta, missir sjónar af leikplaninu, lætur frábæra áhorfendur æsa þig upp og allt í einu ertu búinn að tapa fyrir Golden State.
Svona er lífið skrítið í NBA.
Af nautaati og nautabönum
Fréttamiðlar ytra gera sér nú mat úr gamalli frétt sem lak út í kvöld.
Þar er sagt að John Paxon, forseti Chicago Bulls, hafi reynt að pikka slagsmál við Vinny Del Negro þjálfara liðsins eftir leik þann 30. mars sl.
Deilur þeirra félaga voru að sögn vegna ágreinings spilatíma Joakim Noah. Spes.
Þetta er nokkuð skondið mál. Það fyrsta sem okkur datt í hug þegar við heyrðum þetta var hvort Del Negro væri virkilega ekki búinn að fá nóg af skít frá Paxon og hans mönnum í brúnni.
Þið munið væntanlega eftir því í vetur þegar það lak út að Paxon væri búinn að ákveða að reka Del Negro eftir dapurt gengi Chicago, en ekkert varð af því þegar tókst ekki að finna annan þjálfara. Mjög neyðarlegt.
Chicago kom virkilega á óvart í úrslitakeppninni í fyrra, en í stað þess að byggja á því, sendi félagið frá sér skotbakverðina Ben Gordon og John Salmons, sem síðan hefur farið á kostum með Milwaukee Bucks.
Annað sem okkur datt í hug.
Nú er mjög tvísýnt hvort það verður Chicago eða Toronto sem nær áttunda sætinu í Austurdeildinni og þar með síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina. Toronto stendur betur þegar þetta er skrifað, er með betri stöðu í innbyrðisviðureignum, en það yrði áfall ef Toronto færi inn í stað Chicago.
Bulls-liðið er miklu betur byggt til að fara í úrslitakeppni en nautabanarnir í Toronto, sem auk þess eru án Chris Bosh.
Það þýðir þó ekki að þessi lið eigi skilið að fara í úrslitakeppni. Toronto-liðið er illa samansett og hefur ekkert í úrslitakeppni að gera, en þó Chicago henti betur í slaginn, þykir okkur liðið ekki eiga skilið að komast í bónusumferðina í ár.
Chicago hefur á margan hátt verið óstöðugasta liðið í NBA í vetur. Eitthvað af því skrifast jú á meiðsli og allt það, en samt. Chicago og Toronto eru ekki nógu góð til til að eiga skilið að fara í úrslitakeppni á meðan miklu betri lið í vestrinu sitja heima og horfa á þetta í sjónvarpinu. Það er bara þannig.
Meiri neikvæðnin sem vellur upp úr okkur í þessari flensu.
Mellan leitar að nýjum kúnnum
Himininn er blár, vatn er blautt og Larry Brown er hóra.
Góður þjálfari, en óþolandi karakter. Gjörsamlega óþolandi mella. Ef við værum forsetar Charlotte Bobcats, atvinnuveitenda Larry Brown þessa stundina, myndum við sparka í mjöðmina á honum.
Undir venjulegum kringumstæðum myndum við fagna því að Brown væri orðaður við LA Clippers, því sá sorrý skíthaugur af liði á skilið að fá þjálfara eins og Brown. En við viljum bara losna við hann.
Hvað þarf að gera svo þessi maður hætti og láti NBA deildina í friði?
Það er nákvæmlega engin tilviljun að svona slúður um Brown skuli leka út nákvæmlega á þessum tímapunkti. Brown hefur einstakt lag á því að eyðileggja fyrir liðum sínum þegar þau eru að sigla inn í úrslitakeppni.
Hann gerði þetta þegar hann var að reyna að koma Detroit í úrslitin á sínum tíma og því ekki að kasta svona sprengju inn hjá Bobcats núna þegar liðið er að fara í sína fyrstu úrslitakeppni í sögu félagsins?
Fáviti.
Tuesday, April 13, 2010
Monday, April 12, 2010
Sunday, April 11, 2010
Saturday, April 10, 2010
Blóði blandnar hægðir á gólfinu í Garðinum
Rajon Rondo var í kvöld sæmdur Red Auerbach-verðlaununum hjá Boston Celtics.
Verðlaunin eru veitt þeim leikmanni sem þykir hafa sýnt hvað mestan Celtics-anda það tímabilið. Mikill heiður fyrir besta leikmann Boston í vetur.
En við megum ekki láta hrifningu okkar á Rondo leiða okkur á villigötur. Þessi færsla hefur ekkert með hrifningu að gera og Auerbach-andinn hvarf eins og reykur út í loftið um leið og var búið að heiðra Rondo.
Það er nefnilega þannig að Red gamli hringsnýst í gröfinni þegar þetta er skrifað.
Boston SKÍTtapaði heima í kvöld fyrir Washington, einu lélegasta liði deildarinnar. Celtics-menn áttu aldrei möguleika í leiknum. Hafa tapað fjórum af síðustu fimm heima og þessi eini sigur var kraftaverkið á móti Cleveland um síðustu helgi.
Og hvað fannst stuðningsmönnum Celtics um þessa frammistöðu? Við biðum og biðum þegar flautað var af, en aldrei kom baulið. Eru stuðningsmennirnir orðnir jafn áhugalausir og liðið? Hvar er þetta Celtic pride núna?
Þetta er skammarlegt. Skammarleg frammistaða liðsins, skammarlegt sinnuleysi áhorfenda og fullkomið virðingarleysi við anda Red Auerbach. Við höldum ekki með Celtics, en við ældum í munninn yfir þessum viðbjóði.
Þessir gaurar geta ekki beðið eftir að falla út úr úrslitakeppninni svo þeir geti farið beint heim að horfa á júróvisjón og borða McDonald´s.
Bara-ba-ba-baaaa!
Subscribe to:
Posts (Atom)