Wednesday, April 28, 2010

Chicago og Miami eru hætt að spila körfubolta


Boston og Cleveland tryggðu sér í nótt sæti í annari umferð úrslitakeppninnar. Það vill svo skemmtilega til að þau mætast einmitt í næstu umferð og verður fyrsti leikurinn þar á laugardaginn.

Boston kláraði að ganga frá líkinu sem er Miami Heat. Lið sem átti ansi lítið erindi í úrslitakeppnina. Umfjöllun um fimmta leik liðanna miðast strax meira við að finna að leik Boston en fagna því að liðið sé komið áfram.

Boston náði 20+ stiga forystu á heimavelli í kvöld, en missti hana frá sér. Náði samt að klára þrátt fyrir skuggann af Michael Beasley og þrátt fyrir að þurfa að hoppa yfir hræið af Jermaine O´Neal hvað eftir annað.

"Stjórnin á eftir að hafa nóg að gera í sumar," sagði Dwyane Wade, en hafði annars lítið annað að segja eftir leikinn. Really?

Cleveland kláraði líka baráttuglaða Chicago-menn þrátt fyrir smá ströggl í lokin. Við kunnum að hafa farið aðeins fram úr okkur þegar við drulluðum yfir Bulls rétt fyrir úrslitakeppni. Sögðum að liðið ætti tæplega skilið að fara í úrslitakeppnina. Það var þó ekki með öllu óverðskulduð gagnrýni. Á lið sem tapar 10 leikjum í röð í deildakeppninni skilið að fara í playoffs? Varla.

En alveg eins og í fyrra, getum við ekki annað en tekið ofan fyrir Bulls. Sérstaklega Derrick Rose og Joakim Noah. Algjörir toppmenn báðir og fá vonandi meiri hjálp á næstunni. Ekki dónalegur kjarni að hafa.

Hvað Cleveland varðar var þessi sería ekki annað en formsatriði. Liðið var þó á köflum ekkert rosalega sannfærandi. Dálítið ruglingslegt róteisjónið hjá þeim. Eins og þeir viti ekki alveg hvernig þeir ætla að gera þetta.

Það sem er hinsvegar alveg á hreinu er að LeBron James hefur aldrei verið betri. Gaurinn er búinn að sýna tilþrif í þessu einvígi sem við hefðum með réttu átt að gera um sérstaka youtube-færslu. Það er samt morgunljóst að hann má ekki missa sig í það sem Charles Barkley kallar réttilega "one on five" sóknarleik.

Það vakti athygli þegar James virtist meiða sig á olnboga í lok leiksins og tók upp á því að skjóta víti með vinstri hendinni. Frekar kjánalegt atvik. Þetta er ekki til annars en að halda fréttamönnum við efnið fram að helgi. Kallinn er í fínu formi - ekkert að honum. Þú last það hér.

Cleveland er samt ekkert að spila eins og jarðýta - og þess vegna kæmi það okkur ekkert á óvart þó liðið asnaðist til að gera seríuna við Boston áhugaverða. Á pappírunum á Cleveland þó ekki að tapa meira en einum leik á móti Boston.

Það getur vel verið að Boston-liðið verði seigara í úrslitakeppninni en það var í deildinni á síðustu vikunum, en við sáum allt of marga leiki með grænum á vormánuðum þar sem þeir hreinlega drulluðu á sig og gátu ekkert!

Ef Cleveland væri að spila á fullu gasi, sem liðið er alls ekki að gera, myndum við standa með sannfæringu okkar og spá þessu einvígi 4-0 fyrir Cleveland. Cavs eru hinsvegar ekki búnir að finna sig almennilega og Mike Brown er enn að stýra sóknarleik liðsins, svo við gefum Boston einn sigur.

Stuðningsmenn Boston geta svo sent okkur póst og þakkað okkur sérstaklega fyrir Cleveland-jinxið ef þetta verður spennandi einvígi.