Thursday, April 29, 2010
Ótímabær áfengisdauði í fimmta leik
Það var allt á öðrum endanum hérna á ritstjórninni í gærkvöldi. Leikur fimm í tveimur bestu rimmunum í úrslitakeppninni, Lakers-Thunder og Dallas-San Antonio.
Öll þessi spenna var dálítið endasleppt, svona eins og hjá nýnema sem drepst áfengisdauða fyrir utan busaballið - tveimur tímum áður en það byrjar.
Leikur Lakers og Oklahoma var spennandi í um það bil tvær mínútur. Lakers spilaði besta leik sinn í úrslitakeppninni og Thunder-drengirnir voru eins og enska landsliðið í vítaspyrnukeppni.
Við ætlum samt að tippa á að leikur sex verði hrikalegur - en við teljum okkur vera búin að sjá að Oklahoma hafi ekki taugar í að vinna þetta einvígi.
Og það er líka óraunhæft að ætlast til þess af tvítugum guttum.
Skrítið að sjá Phil Jackson bíða með það þangað til í fimmta leik að setja Kobe á Westbrook í vörninni. Og það er eins og Lakers-menn muni það ekki nema í nokkrar mínútur í hverjum leik að þeir eru með kjánalega mikla yfirburði inni í teig í þessu einvígi. Þeir mundu það í gær.
Spennan var aðeins meiri í Dallas í gær, en þó ekki, því heimamenn réðu ferðinni frá fyrstu mínútu. Pop þjálfari San Antonio var ekkert að flækja hlutina og kippti sínum bestu mönnum fljótlega af velli. Hann hefur séð þetta allt saman áður. Hann prófaði aðeins að sjá hvort hans menn væru í stemmara til að stela fimmta leiknum, en sá fljótlega að það var ekki að fara að gerast. Þá er bara að hlaða í og leggja allt undir heima í sjötta leiknum. Og það gerir San Antonio.
Texas-serían snýst algjörlega um tempó. Ef Dallas nær að keyra aðeins upp hraðann eins og oftast á heimavelli, vinnur liðið sigur á Spurs.
Ef San Antonio nær að halda tempóinu niðri og lemja aðeins á leikmönnum Dallas (eins og oft á heimavelli), er liðið á leið í aðra umferð.