Tuesday, April 20, 2010
Joakim Noah er með þetta
Þegar maður er að fara að spila við Cleveland í fyrstu umferð, stendur maður frammi fyrir nógu erfiðu verkefni. Óþarfi að reita LeBron James, Shaq og félaga til reiði líka. Eða það hefur að minnsta kosti verið mat forráðamanna Chicago Bulls og líklega flestra annara.
Miðherjinn Joakim Noah hjá Chicago er á öðru máli. Hann talar sínu máli. Cleveland fer í taugarnar á honum. Ekki borgin, þannig séð, heldur stælarnir í leikmönnum liðsins. Hann er ekki búinn að gleyma því þegar LeBron bauð upp á riverdance-bullið í leik liðanna í vetur - framkoma sem í raun og veru bar vott um vanvirðingu.
Menn eiga auðvitað að reyna að bera sig fagmannlega, en við getum ekki annað en borið virðingu fyrir því hvað Joakim Noah er ekkert hræddur við Cavaliers. Honum er skítsama. Og honum finnst Cleveland vera skítapleis. Og það sem meira er - hann er að bakka kjaftbrúkið upp inni á vellinum. Það er töff.
Við verðum að viðurkenna að Joakim Noah hefur fram að þessu farið mikið í taugarnar á okkur, en við stóðum með honum í riverdance-málinu og nú hefur hann algjörlega unnið okkur á sitt band. Hann er góður leikmaður og hann er með vaðandi óld-skúl viðhorf. Meira svona.