Friday, April 30, 2010

Dallas og Portland eru á leið til Benidorm


Liðunum í úrslitakeppni NBA fer því miður ört fækkandi þessa dagana. Í nótt sem leið féllu Portland og Dallas úr leik við ólíkar aðstæður.

Stuðningsmenn Portland geta unað nokkuð sáttir við sitt þrátt fyrir að detta út 4-2 fyrir Phoenix. Meiðsladraugurinn hefur leikið Blazers ansi grátt í vetur og því er ekki annað en safna liði og vona að sjúkralistinn verði styttri næsta vetur.

Phoenix mætti góðri mótspyrnu frá Portland eins og við var að búast, en Suns-liðið er nú komið í aðra umferðina.

Stóra sagan í því er auðvitað sú staðreynd að hinn háaldraði en síungi Grant Hill er þarna að fara í aðra umferð úrslitakeppninnar í fyrsta skipti á ferlinum.

Hill er fyrsti maðurinn í sögu NBA til að vinna sína fyrstu seríu í úrslitakeppni eftir 15 ár í deildinni. Hann var enda hálf hrærður yfir öllu saman þessi gamli höfðingi í gær. Hann á allt gott skilið þó hann sé Duke-maður.


San Antonio komst líka í sögubækur með sigrinum á Dallas.

San Antonio kláraði einvígið heima í sjötta leik og er þetta í fyrsta sinn sem liðið í sjöunda sæti slær út lið í öðru sæti í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Hér er þó miðað við sjö leikja seríur og því er hér ekki um svo rosalega sögulegan hlut að ræða, því það eru ekki mörg ár síðan NBA deildin tók þá kjánalegu ákvörðun að fjölga leikjum í fyrstu umferð úr fimm í sjö.

Það væri auðvelt að blammera Dallas fyrir enn eitt tapið í fyrstu umferð. Metnaðurinn þar á bæ er talsvert meiri en úrslitin bera með sér.

Cuban eigandi er ekki að spandera öllum þessum milljónum í mannskapinn bara upp á grín. Hann vill vinna titla.

Margir vildu meina að Dallas væri best í stakk búið til að veita Lakers samkeppni í vestrinu í ár, en annað kom á daginn. Það er of hart að dæma þetta lið úr leik af því það var nú ekki sett saman í núverandi mynd fyrr en í febrúar á þessu ári.

Dirk ræfillinn fær alltaf sinn skerf af gagnrýni og Jason Kidd fékk skóflufylli að þessu sinni. En þegar allt er talið mætti Dallas bara ofjörlum sínum í þessari seríu.

Dallas er nýlega samsett lið. Gott lið með hörkuspilara. En liðið hefur ekki fengið nógu mikinn tíma til að gelast saman og svo spilar það ekki jafn árangursríkan körfubolta og San Antonio.

Spurs-liðið kann þetta allt saman og þó það sé ekki sama hryllingsmaskínan og það var fyrir þremur árum, er ljóst að það verður ekki auðvelt að slá það út úr keppni að þessu sinni.

Manu Ginobili er á óskiljanlegan hátt búinn að endurheimta 90% af fyrri styrk og Parker er allur að koma til.

Tim Duncan er eini maðurinn í liðinu sem hefur áberandi dalað í vetur. Sérstaklega er það sprengikrafturinn í löppunum á honum sem er farinn. Hann er búinn að missa 30% styrk þar augljóslega.

En hann er hvergi nærri búinn að gleyma því hvernig á að vinna körfuboltaleiki.

Breyturnar sem hafa vegið þungt hjá Spurs undanfarið eru þó fleiri. Þar fer fremstur í flokki strípalingurinn George Hill, sem var stærsta trompið hjá liðinu í einvíginu við Dallas. Án hans er ekki víst að Spurs hefði tekið þetta. Ekki má heldur gleyma þætti Antonio McDyess og smátröllsins Blair af bekknum.

Já - og þeirri staðreynd að San Antonio er stýrt af einum besta þjálfara í sögu NBA.

Það var gaman að sjá San Antonio fara áfram í þessari rimmu - þó ekki væri nema bara til að láta okkur hérna á ritstjórninni halda áfram að líta illa út eftir hrakspár okkar um liðið fyrir nokkrum vikum.

Nú er því ljóst að það verða Phoenix Suns og San Antonio sem bítast um laust sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar þetta vorið. Ekki í fyrsta skipti sem þessi lið mætast og við getum lofað ykkur strax að þetta verður frábært einvígi. Ekki útilokað að grátt silfur verði jafnvel rifið fram. Þetta verður eflaust sex eða sjö hörkuleikir.

Meira um það síðar.