Saturday, May 1, 2010

Þetta þarft þú að vita um Vesturdeildina


Nú er að koma mynd á fyrstu umferðina í úrslitakeppninni.

Atlanta á enn eftir að pappíra sig og klára leik sjö í einvíginu við Milwaukee (klukkan 17 á sunnudag á nbatv), en annars er fyrstu umferðinni lokið.

Í gær, föstudag, náðu LA Lakers og Utah að tryggja sér sæti í annari umferð og mætast því í annari umferð þriðja árið í röð.

Leikur eitt þar í beinni á einhverri af rásum Stöðvar 2 á sunnudaginn klukkan 19:30.

Denver er búið að toppa

Utah kláraði Denver 4-2 eftir sigur á heimavelli sínum í leik sex í gær. Það kom ekkert sérstaklega á óvart úr því sem komið var í þessari sériu - ekki frekar en allar tæknivillurnar sem dæmdar voru á leikmenn Denver þegar þeir töpuðu kúlinu í leiknum.

Það er dálítið grimmdarlegt að segja svona, en við ætlum að segja það núna. Þetta Denver-lið á aldrei eftir að ná lengra en það hefur þegar náð. Toppaði í fyrra og þó það hafi ekki haft heppnina með sér að þessu sinni, er farið að hausta á þennan mannskap.

Denver er slakt varnarlið, agalaust fyrir utan Chauncey Billups, með einstaklinga sem hafa ekki burði eða hjarta til að fara lengra - og er með sýstem sem mun aldrei skila almennilegum árangri í úrslitakeppni. Það er bara þannig.

Vissulega var slæmt fyrir Denver að missa George Karl þjálfara í þessi veikindi og vera án hans á lokasprettinum, en við gefum liðinu enga fría passa út á það. Ekki í seríunni gegn Utah.

Kirilenko og Okur eru mikilvægari en þú heldur

Utah var án Andrei Kirilenko og Mehmet Okur í þessari seríu og Denver hafði heimavöllinn.

Þessir tveir leikmenn eru miklu mikilvægari fyrir Jazz en flestir gera sér grein fyrir.

Utah er nefnilega með sýstem - ólíkt Denver. Og þessir tveir leikmenn sem liðið missti í meiðsli eru gríðarlega mikilvægir hlekkir í þessu sýstemi.

Það þýðir ekkert að horfa á saklausa tölfræði Andrei Kirilenko og segja "Hann skorar innan við 12 stig að meðaltali í leik - af hverju ætti liðið að sakna hans?"

Kirilenko er sá maður sem er búinn að spila lengst undir stjórn Jerry Sloan, kann öll kerfi aftur á bak og áfram, stýrir oft á tíðum spili liðsins og er að auki fjölhæfasti (og eini) almennilegi varnarmaðurinn og skotblokkarinn í öllu liðinu.

Okur er ekki hefðbundinn miðherji. Hann tekur virkan þátt í spili liðsins, hefur mikla reynslu og teygir mikið á vörn andstæðinganna af því hann er ógnandi skotmaður út á tólf metra. Bara sú staðreynd að þau tæplega sjö fet sem Okur er á hæðina skuli vera farin alveg út úr hópnum hjá Utah er rándýrt fyrir þetta smávaxna lið.

Dýrt, af því samanlögð reynsla varamiðherja Utah af því að spila í deildakeppni er nánast engin - hvað þá reynsla í úrslitakeppni. Þetta reynsluleysi stafar ekki bara af því að þeir eru ungir að árum - heldur af því þeir geta ekkert. Ekki. Neitt.

Utah tæki því grínlaust fagnandi ef því stæði til boða að fá Guðmund Bragason eða Baldur Ólafsson inn í hópinn í dag.

Lakers kláraði dæmið - Hvað segir það okkur?

Það fór svo að lokum að meistarar LA Lakers reimuðu á sig skó sína og kláruðu erfitt verkefni sitt gegn Oklahoma City í gær.

Það segir sína sögu um seigluna og baráttuna í ungu liði Oklahoma að það hafi verið einu litlu atviki frá því að ýta meisturunum sjálfum alla leið í oddaleik. Hvaða atviki segirðu? Þeirri staðreynd að Serge Ibaka hafi klikkað algjörlega á að stíga Pau Gasol út í síðustu heilu sókninni í leiknum. Rándýr byrjendamistök.

Það væri samt enginn að tala um það ef Kevin Durant hefði verið með meira en 22% skotnýtingu í þessum leik. Svona er að vera ungur og óreyndur (og með Ron Artest límdan við endajaxlana á sér).

Það er klisja að afsaka ung lið frá svona löguðu með því að segja að þeirra sé framtíðin og gangi betur næst og allt það kjaftæði, en það á raunverulega við um Oklahoma-liðið. Meðalaldurinn í þessu liði er fáránlegur og framtíðin er björt hjá Thunder ef haldið verður rétt á spöðunum þar næstu ár. Nokkuð sem þó er alls ekki gefið í NBA.

Hvað vitum við um meistarana eftir þessa seríu? Eitthvað aðeins meira en áður en hún hófst. Við spáðum því að Lakers tæki þetta 4-2 og það kom á daginn (leyfið okkur að monta okkur aðeins - brakketið okkar er farið til helvítis).

Við vitum að Kobe Bryant gengur ekki alveg heill til skógar (þó hann hafi verið mjög flottur í síðustu tveimur leikjunum), Pau Gasol fær ekki nóg af boltanum, Artest er að hitta illa, Lamar Odom er enn að hverfa mikið, Fisher er orðinn of gamall til að halda kartöflupoka fyrir framan sig í vörninni og að bekkurinn er í besta falli vafasamur.

Það verður þó ekki tekið af þeim gulu að þeir kláruðu verkefnið gegn Thunder með sóma og fengu meira að segja flottan leik frá varamönnum sínum í sjötta leiknum. Kom okkur á óvart. Við skulum segja að Lakers-liðið sé í aðeins betri málum en ástæða var að ætla fyrir seríuna.

Þessi færsla er orðin allt of löng, svo við ætlum að geyma það að spá fyrir um einvígi Lakers og Jazz. Það hefur enginn undir fertugu athygli í að lesa meira í einu.