Sunday, May 2, 2010
Cleveland vann fyrsta leik en leyfði Boston að spila körfubolta
Cleveland náði í gær 1-0 forystu gegn Boston með ósannfærandi sigri á heimavelli sínum í fyrstu viðureign liðanna í annari umferð Austurdeildarinnar.
Heimamenn byrjuðu afleitlega í leiknum og þar kom tvennt til. LeBron James fór ekki einu sinni í árásarhaminn í fyrri hálfleiknum og skaut með vinstri. Þessi meintu axlarmeiðsli hans eru afar undarleg, því hann notaði hægri öxlina til að keyra inn í andstæðingana og skaut með vinstri.
Það var ekki það versta. Varnarleikur Cleveland var út úr kortinu. Þú veist að mótherjar Boston eru ekki að spila vel þegar Kevin Garnett er farinn að geta keyrt í gegn um alla vörnina og troða með annari. Það var enginn eldur í Cleveland-mönnum lengi vel í þessum leik.
Cavs fengu fínt framlag frá mörgum mönnum i þessum leik og Mo Williams skaut liðið í gang með flottri rispu í þriðja leikhlutanum.
Boston var að spila ágætlega af því Cleveland-vörnin leyfði þeim það. Cavs réðu ekkert við Rondo framan af, en þegar þeir náðu að loka á hann, fann Boston engin svör.
Rondo er besti leikmaður Boston. Þetta big three dæmi hjá Boston heyrir sögunni til. Boston fer eins langt og Rondo fer með liðið í þessu einvígi gegn Cleveland. Og það er áhugavert að meta möguleika Boston í seríunni út frá því.
Eftir fyrsta leikinn mætti ætla að Cleveland færi áfram í þessari sériu af því liðið er bara með svo miklu meiri breidd. Við setjum þó spurningamerki við marga hluti hjá Cavs.
Það er reyndar ekkert að öxlinni á LeBron, en liðið þarf að fá meira frá Antawn Jamison og spila meira á Varejao og Hickson en á O´Neal og Ilgauskas. Shaq var að taka meira frá liðinu en hann kom með inn á borðið í þessum leik.
Cavs ættu að vinna þessa seríu 4-1, en á miðað við það sem við sáum í fyrsta leik, virðast þeir hafa mikinn áhuga á að leyfa Boston að vera með í þessu einvígi. Slakur varnarleikur og skortur á drápseðli sýndu okkur það.