Sunday, May 2, 2010
LA Lakers vinnur fyrsta körfuboltaleikinn gegn Jazz í kvöld
Í kvöld klukkan 19:30 verður fyrsti leikur LA Lakers og Utah Jazz í annari umferð Vesturdeildarinnar. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 samkvæmt þeim gögnum sem við höfum undir höndum.
Þetta er þriðja árið í röð sem þessi lið mætast í úrslitakeppninni og þess má til gamans geta að í síðustu fimm skipti sem þessi lið mættust í úrslitakeppni, fór sigurvegarinn í seríunni í lokaúrslit.
Við vonum að við drögum ekki úr eftirvæntingu neins þegar við segjum að þetta einvígi á aldrei eftir að verða spennandi. Ekkert lið í NBA deildinni hentar öðru eins vel í úrslitakeppni og Jazz hentar Lakers. Og það hefur enda sýnt sig síðustu þrjú ár.
Utah ætti ekki möguleika gegn Lakers, jafnvel þó liðið væri með þá Mehmet Okur og Andrei Kirilenko heila - og þá skiptir engu máli hvort Andrew Bynum er heill heilsu eða ekki.
Utah vann síðast í Staples Center á nýársdag árið 2006 í leik þar sem Kobe Bryant tók út leikbann.
Kíktu á leik liðanna í kvöld og taktu eftir því hvernig miðherjinn Fesenko hjá Jazz fær tvær villur og tapar 2-3 boltum strax í fyrsta leikhluta.
Taktu eftir því að fyrsta skot Deron Williams verður þristur sem klikkar.
Taktu eftir því hvað Carlos Boozer verður skíthræddur við stóru mennina hjá Lakers og hikar við að koma nálægt teignum. Hann er alltaf hræðilegur á móti Lakers og á því verður engin breyting.
Taktu eftir því þegar Derek Fisher skorar tvo til þrjá þrista í fyrsta leikhluta
Taktu eftir því hvað Kobe Bryant fer oft á vítalínuna í einvíginu (ef hann treystir sér í að keyra á körfuna).
Taktu líka eftir því hvað Lamar Odom á eftir að eiga marga stórleiki í þessari séríu og Pau Gasol á eftir að eiga náðuga og árangursríka daga í teignum.
Taktu eftir sveiflunum sem eiga eftir að verða í fyrstu tveimur leikjunum í LA.
Taktu eftir því hvað Lakers-liðið fer vandræðalaust í gegn um heimaleikina þó andstæðingar þeirra klípi og klóri og gefist ekki upp.
Þetta verður serían þar sem sérfræðingarnir fara að tala um að sé að verða kominn meistarabragur á Lakers-liðið. Spáum þessu 4-1 fyrir Lakers.
Það þarf ekki að fjölyrða um það að fyrsti leikurinn ræður öllu í þessu. Phil Jackson er að nálgast 50-0 árangur í seríum þar sem lið hans nær 1-0 forystu og því er þetta ekkert flókið.
Þetta þýðir líka að Kobe og félagar fá góðan tíma til að sleikja sárin og safna kröftum fyrir sigurvegarann úr einvígi Phoenix og San Antonio og það er þess vegna sem við tippum á að LA Lakers spili til úrslita í NBA í næsta mánuði.