Monday, May 3, 2010

Hæð og gæði


Fyrsti leikur LA Lakers og Utah Jazz í kvöld fór alls ekki eins og við spáðum hér fyrr í dag.

Þristarnir hans Fishers komu aldrei, Kobe tjaldaði ekki á vítalínunni fyrr en hann kláraði leikinn, sveiflurnar voru ekki eins miklar og venjulega og Kyrylo Fesenko tapaði ekki einum einasta bolta.

Allt hitt sem við töluðum um í dag stóð eins og stafur á bók.

Carlos Boozer átti þokkalegan leik á pappírunum, en hann átti í mestu vandræðum innan um hávaxna varnarmenn Lakers í sókninni og gerði nokkur átakanleg mistök í vörninni.

Gasol gerði nákvæmlega það sem honum sýndist í teignum og var ekki mataður nærri nóg frekar en svo oft áður.

Og Lamar Odom var gríðarlega mikilvægur hjá Lakers í þessum leik eins og alltaf á móti Utah. Níu stig, tólf fráköst (fimm í sókn) og tvö varin skot.

Varnarleikur Utah var alls ekki nógu góður, sérstaklega í fyrri hálfleiknum, en það var gaman að sjá þetta samansafn af aukaleikurum liðsins stíga upp í fjórða leikhlutanum og gefa allt í þetta.

Þessi fyrsti leikur í einvíginu undirstrikar fyrri spár. Lakers vinnur þetta 4-1 af því Utah á ekki svör við hæð og gæðum Lakers-manna. Kobe og félagar gerðu bara það sem þeir þurftu að gera í dag og halda því áfram þangað til þeir eru búnir að klára þessa seríu.